13.11.1951
Neðri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2842)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 179, er flutt í þeim tilgangi að gera tilraun til að fá bætt úr þeim vanda, sem ungir frumbýlingar eru í komnir, vegna þeirrar gífurlegu verðhækkunar, sem orðið hefur á öllu, sem til þess þarf að stofna til búskapar. Það er kunnugt mál, að á undanförnum árum og jafnvel áratugum hefur fólkið hópazt burt úr sveitunum og til sjávarþorpa og kaupstaða vegna meiri þæginda og betri lífskjara í þéttbýlinu en verið hafa í sveitunum. Nú á síðustu missirum hefur nokkuð bólað á því, að það hefur tregðazt um atvinnu í þéttbýlinu frá því sem áður var, og þá hefur nokkuð stöðvazt straumurinn frá sveitunum og til sjávarins. En þá er sá vandi fyrir höndum, sem þrengir mjög alvarlega að ungum mönnum, að þá vantar alla möguleika til þess að fá sér jarðir og stofna bú. Við, sem erum í nýbýlastjórn, rekum okkur mjög alvarlega á það, að þeir menn, sem eru að vísu margir, sem óska þess að fá nýbýlaaðstoð til að stofna bú, eru mjög í vandræðum með lánsfé til þeirra hluta. Enda þótt samkv. nýbýlalöggjöfinni séu veitt lán í þessu efni til ræktunar og bygginga, þá vantar menn tilfinnanlega lánsfé til þess að kaupa fyrir bústofn og verkfæri, sem nú þarf mjög mikið fjármagn til, vegna þess að þeir hlutir hafa margfaldazt í verði á tiltölulega stuttu árabili. Þessi atriði hygg ég að séu öllum þeim mönnum mjög ljós, sem þekkja til í sveitum okkar lands. Hins vegar er það, að ekki er eins auðvelt að bæta úr þessum vanda og þyrfti að vera, og getur þar komið ýmislegt til greina.

Hér er farið fram á í þessu frv. að setja á stofn nýja deild við Búnaðarbanka Íslands, sem heiti Stofnlánadeild landbúnaðarins og hafi það hlutverk eingöngu að lána frumbýlingum, sem eru að byrja. En aðalatriðið í þessu frv. er það, að gera skuli tilraun til að ná fé 9 þá deild á þann hátt, að það sparifé, sem í hana sé lagt, sé skattfrjálst, þannig að ekki sé skylt að telja það fram til skatts og meira að segja bannað hlutaðeigandi starfsmönnum stofnunarinnar að gefa það upp.

Það er farið fram á það í frv., að ríkissjóður leggi til þessarar deildar eina millj. kr. til þess að koma henni af stað. Menn hafa spurt mig á þessa leið: Hvers vegna fer þú fram á svona litla upphæð fyrir svo stórt verkefni sem hér er um að ræða? — Það má segja, að þetta sé lítil upphæð, ein millj. kr., enda er það hugsað þannig, að þetta sé aðeins til þess að koma þessari stofnun af stað. En aðalhugmyndin um að fá þarna fjármagn byggist á því, að það muni vera möguleikar á því að fá sparifé, sem ekki er annars lagt til hliðar, inn í peningastofnanir, inn í þessa deild, með því að það sé undanþegið skattgjaldi. — Eins og hv. þm. muna, var nú .nýlega flutt í hv. Ed. frv. frá einum forstöðumanni bæjarfélaganna um að gera allt sparifé skattfrjálst, sem eingöngu er gert til þess að veita bæjar- og sveitarfélögum þeim mun meiri möguleika til þess að leggja útsvör á þetta fé, því að eftir því frv. á að telja það fram eftir sem áður. Og þá er sú till. eða ákvörðun alveg ónýt til þess að koma því til vegar, að menn spari fé sitt og leggi það inn, sem ekki mundu gera það ella. Það leikur nokkurt orð á því, að svo sé um menn, sem eiga lausa aura, að þeir telji ekki borga sig að leggja þá á sparisjóð og gefa upp, vegna þess að skattar og útsvör éti upp vextina. Ég skal ekki fullyrða, hvað rétt er í þessu. En ég vil með þessari till. gera raunhæfa tilraun til þess að fá úr því skorið, hvort þetta hefur við rök að styðjast, og úr því skorið, hvort þessi aðferð gæti ekki orðið til þess að hvetja menn, sem lausa aura eiga, til þess að safna þeim heldur saman en eyða þeim, eins og nú er almennast gert.

Menn munu nú segja: Hvaða gagn er að því, að þetta sé nú samþ., ef það væri svo tækifæri til þess að breyta þessum lögum strax á næsta þingi, þannig að sama ástand skapaðist á eftir? Það væri bara með því búið að ginna menn til þess að leggja inn fé sitt, og það væri svo komið í skattaklærnar á næsta tímabili. Þess vegna hef ég sett í frv. ákvæði um það, að ef þessum lögum verði breytt, þá skuli bankinn skyldur að greiða innlögin út innan sex mánaða með 75% verðlagsuppbót. Það eru þessi viðurlög við því, ef l. í þessu falli verður breytt frá því, sem er í frv. Nú er það kunnugt, að það hefur um mörg ár, allt frá því fyrir fyrra stríð, verið smátt og smátt verið að gera peningaeign manna minna og minna virði en hún áður var, vegna þess að allt annað hefur hækkað í verði, og um leið og allt hækkar í verði, sem keypt verður fyrir peninga, verður hið sparaða fé minna virði. Svo bætist það einnig við, að okkar króna hefur með lögum hvað eftir annað verið rýrð með gengisfellingu. Þetta gerir það að verkum, að þeir menn, sem hættir eru starfsemi. svo sem gamlir bændur, gamlir embættismenn og aðrir slíkir, sem lagt hafa allar eignir sínar í sparifé, hafa farið illa út úr þessari þróun, sem mætti kalla öfugþróun, og það hefur þess vegna komið langharðast niður á þessum mönnum.

Ég þykist vita, að hv. þm. skilji, hvað hér vakir fyrir, og finni, að hér er um nauðsynjamál að ræða. Ég vona því, að þessu máli verði vel tekið af hv. þd. og öllu þinginu, og legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. landbn.