26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

119. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er öllum hv. þm. kunnugt, og það er áreiðanlega álit mjög mikils hluta þjóðarinnar, að allmikla nauðsyn beri til þess, að gerðar verði hið fyrsta verulegar breyt. á skattal. Ég skal ekki fara að ræða þau mál í heild hér. Sú breyt., sem hér liggur fyrir í því frv., sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Eyf., er ekki stórvægileg, en miðar þó í réttlætisátt.

Samkvæmt núgildandi skattal. er ekki tekið tillit til þess við skattaálagningu, hvernig ástatt er með útgjöld vegna húsaleigu og hitunarkostnaðar, og húseigendum eru áætlaðar tekjur vegna afnota eigin íbúða. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að þetta sé mjög ósanngjörn skattaálagningarregla, þegar á það er litið, að húsaleiga er mjög mismunandi á ýmsum stöðum á landinu og sömuleiðis hitunarkostnaðurinn. Þá er einnig vitað, að mikils ósamræmis gætir í mati skattan. á eigin húsaleigu. Ég hygg, að hækkun persónufrádráttarins geti ekki ein leyst þennan vanda, þess vegna sé eina leiðin til jafnréttis sú, sem lagt er til í þessu frv., að heimila að draga áætlaða húsaleigu í leiguhúsnæði frá skattskyldum tekjum. Það eru mjög mörg dæmi þess og greinileg, að mjög há húsaleiga, sem er ekki frádráttarhæf, hefur hindrað margan mann — ekki sízt yngri menn — í að byggja yfir sig og eignast eigið húsnæði. Þetta frv. stefnir að því að auðvelda mönnum að eignast eigið húsnæði og að auka réttlæti og sanngirni í skattamálum. En að sjálfsögðu er þetta aðeins ein hlið á stóru máli, þ. e. a. s. endurskoðun skattal. En við flm. teljum, að þessa leiðréttingu beri að gera nú þegar og að það sé alls ekki frambærileg mótbára gegn slíkum breyt., að allt slíkt þurfi að bíða eftir heildarendurskoðun skattal. Ef menn eru sammála um, að núgildandi skattal. séu ranglát, og það eru menn yfirleitt, þá er ekki eðlilegt, að menn dragi það úr hófi fram að leiðrétta verstu agnúana, sem á þeim eru. Ég vænti þess vegna, að þessu frv., sem ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Eyf., verði vel tekið og að það verði fyrsta sporið í þá átt að skapa aukna sanngirni á sviði skattheimtu hér á landi. En hins vegar vonum við að sjálfsögðu, að heildarendurskoðun skattal. dragist ekki lengi úr þessu, því að það er útilokað. Það er ekki hægt að halda áfram framkvæmd núgildandi skattalaga eins og ástandið er breytt frá því, sem var, þegar núverandi skattstigi og reglur voru sett. — Ég vil leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.