13.11.1951
Efri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, sem legið hefur mörg undanfarin ár hér fyrir þinginu, en ekki hlotið samþykki og n. hefur haft til meðferðar jafnoft og það hefur verið borið fram.

Meiri hl. vill leggja til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, og skal ég ekki fara út í þau rök, sem hann færir fyrir því, að sinni, en annað er það, sem hann segir, að málið hafi ekki verið nægilega undirbúið. Hann telur, að það mál, sem nú er búið að liggja fyrir Alþ. í þrjú ár, sé ekki nógu vel undirbúið, og þó er þetta mál búið að liggja hér þrisvar fyrir og auk þess í fyrra í Nd., og rætt hefur verið við alla þá aðila, sem málið snertir, og auk þess hefur verið skipuð mþn., og allir þessir aðilar hafa orðið sammála um, að þetta mál ætti fram að ganga. Og þá verð ég að segja það, að mér finnst undarlegt, að því skuli vera haldið fram, að þetta mál sé enn þá illa undirbúið.

Eftir að málið hafði dagað uppi í fyrra, þótti rétt að láta athuga það, þó að ekki lægju fyrir nein fyrirmæli um það. Var síðan skipuð n. til að athuga um þetta mál, og komst hún að þeirri niðurstöðu, að það ætti fram að ganga, en tiltók þar þó aðeins nokkra hluta þess. Það verður skiljanlegt, þegar á það er litið, að þessir menn voru til þess kvaddir að láta í ljós álit sitt á hinum einstöku atriðum og litu því aðeins á þá hlið málanna. Og þegar á það er litið, að málið hafði mætt tregðu hér á Alþ., þá verður skiljanlegt, að þessir menn mæli einkum með einstökum atriðum frv. Í því ljósi ber að skoða þessar umsagnir.

Þeir leggja aðaláherzlu á, að nauðsyn sé, að framkvæmd verði ákvæði 3. gr. frv., en það eru þau atriði, sem þeir eru kunnugastir. En það eru ýmis önnur mál, sem ætlazt er til, að iðnaðarmálastjóri hafi eftirlit með, svo sem þeir og geta um í 5. gr., svo að það væri ekki beinlínis andúð gegn þessum atvinnuvegi, heldur beinlínis rothögg á hann að stöðva þetta mál nú. Og það hefur aldrei verið meiri þörf en einmitt nú, að það nái fram að ganga, þegar hinn íslenzki iðnaður á í harðskeyttri samkeppni við erlendan iðnaðarvarning, sem leyfður er ótakmarkaður innflutningur á. Og það er ekki aðeins bein þörf fyrir iðnaðinn í landinu og þá menn, sem að honum vinna, heldur og hina höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, landbúnaðinn og sjávarútveginn, því að það er vitað, að landbúnaðurinn hefur mest gagn af því, að allar þær vörur, sem framleiddar eru í sambandi við hann, séu eins vel úr garði gerðar af iðnaðarstofnunum landsins og hægt er, og það sama gildir um sjávarútveginn. Og ýmsir þessara manna hafa unnið að því að bæta fiskiðnaðinn í landinu sem mest, svo að vörur hans séu sem útflutningshæfastar. Þetta hefur tekizt í ýmsum greinum, svo að nú hafa skapazt traustir markaðir fyrir ýmsar þær vörur, sem áður máttu heita óseljanlegar. Má þar sem dæmi nefna karfann, sem áður var einskis nýtur fiskur, en nú er eftirsóttastur fiskur af Ameríkumönnum, sem þeir gefa fyrir hátt verð, og það er vegna þess, að þessir aðilar hafa áður reynt að bæta alla meðferð þessara afurða. Hér er því um stórkostlegt atriði fyrir landið í heild að ræða, og ég á erfitt með að skilja þá andúð, sem virðist gæta í garð þessa máls frá landbúnaðinum. Það er vitað, að slíka aðstoð sem þessa hefur hann nú fengið í mörg ár, og það er vitað, að enn þykist hann ekki hafa fengið nóg, þó að nú séu starfandi á hans vegum 30 ráðunautar fyrir utan búnaðarmálastjóra. Og hvenær sem minnzt er á þetta mál í fjvn., er eins og eigi að fara að draga eitthvað frá landbúnaðinum, og á sama tíma leyfa þessir sömu menn sér að drótta því að þessu máli, að þar eigi að verða um eitthvert fjölskyldufyrirtæki að ræða. Ég verð að segja, að ef allir ráðunautar landbúnaðarins eru settir svona, þá verður skiljanlegt margt, sem þar skeður.

En hér er um það að ræða að skapa atvinnu í landinu, hér er um það að ræða að skapa iðnaðinum í landinu þá forustu, sem hann á skilið, og það er ekki hægt að neita honum um það. Það er bersýnilegt, að lífsskilyrði og lífsafkoma margra manna í landinu er beinlínis undir því komin, að þetta mál nái fram að ganga, og það grípur stórlega inn á svið þeirra allra, sem bæði landbúnað og sjávarútveg stunda. Það er bersýnilegt, að því erfiðlegar sem gengur fyrir bæði sjávarútveginum og landbúnaðinum, því meiri nauðsyn er að gera eins og hægt er fyrir iðnaðinn, svo að hann sé fær um að gera þessar vörur sem bezt úr garði með aukinni tækni og þróun í iðnaðinum.

Það er talið, að nú lifi af iðnaði um 6000 manns. Ef reiknað er með fimm manna fjölskyldu, þá lætur nærri, að 30 þúsund landsmenn hafi framfærslu sína af þessum atvinnuvegi. Þetta er aðeins það fólk, sem beinlínis lifir af þessum atvinnuvegi, en þar fyrir utan eru allir hinir, sem óbeinlínis eiga undir honum komna sína lífsafkomu. Hvernig dettur Alþ. svo í hug, að hægt sé að sýna þessu máli fjandskap, þegar svona margir menn standa á bak við það? Þau rök munu ekki geta staðið lengi, að hér sé um að ræða skrifstofubákn fyrir einn ákveðinn mann. Ef á að halda því fram með rökum, þá verður fyrst að afnema skrifstofur fyrir hina tvo atvinnuvegi þjóðarinnar, því að sé ekki nauðsynlegt fyrir iðnaðinn að hafa iðnaðarmálastjóra, þá er það ekki nauðsynlegt að hafa 10 menn fyrir hina atvinnuvegina tvo. Getur nokkur trúað því, að sé engin þörf á ráðunautum fyrir iðnaðinn, þá sé þörf á slíkum fjölda fyrir hina atvinnuvegina? Nei, það er ekki hægt að bera slíkt á borð fyrir Alþ.

Ég hef áður bent á það bæði í ræðum og grg. fyrir þessu frv., hver nauðsyn sé, að þetta mál nái fram að ganga. Ef ég færi því að flytja um það langa ræðu nú, yrði hún að miklu leyti endurtekning. — Það er ljóst, að þess er mikil þörf, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað sem mest hér í d. En afgreiðsla þess hér fer eftir því, hvort menn hafa nú fengið skilning á þessu máli eða hvort menn halda ennþá í hin sömu sjónarmið, annaðhvort fyrir þráa eða fyrir beina andúð á málinu, fyrir andúð þeirra manna, sem ekki vilja gefa þessum atvinnuvegi sama rétt og öðrum atvinnuvegum, og ég trúi því ekki, að meiri hl. þm. vilji neita þessum eina atvinnuvegi um þann rétt, sem hann á.

Fyrsti minni hl. iðnn. leggur til, að frv. verði samþ. með tveimur breyt. Í fyrsta lagi, að 2. málsl. 2. málsgr. í 2. gr. frv., þ. e. um framleiðsluráð, orðist svo:

„Skal það skipað til 4 ára í senn, að fengnum tillögum rannsóknaráðs ríkisins, Félags íslenzkra iðnrekenda og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna; skipar ráðherra einn af hinum tilnefndu mönnum formann ráðsins.“

Það þótti rétt að gera þessa breyt. vegna þeirrar athugunar, sem fram hefur farið.

Þá leggur minni hl. einnig til, að 6. gr. frv. falli niður. Það þótti ekki ástæða til að hafa hana, en hún fjallaði um það, ef ágreiningur rís upp milli framleiðsluráðs og iðnaðarmálastjóra.

Ég vil svo vænta þess, að hv. alþm. samþ. frv. á þann hátt, sem gert er ráð fyrir á þskj. 133.