13.11.1951
Efri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2882)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Steingrímur Aðalsteinsson:

Þó að ég eigi sæti í iðnn. þessarar hv. d. og hafi þar fjallað um þetta mál ásamt öðrum þm., sem þar eiga sæti, þá hefur það orðið svo, að ég stend að hvorugu því nál., sem hér liggja fyrir. En þó að svo hafi tekizt til, vil ég fyrir mitt leyti vísa frá mér og einnig mínum flokki þeim ummælum hv. frsm. og flm. frv., þar sem hann talaði um fjandskap alþm. gegn þessu máli. Ég hef frá því fyrsta, að þetta mál var flutt á þingi, ávallt tekið afstöðu með meginefni þess og átt þátt í að stuðla að framgangi þess, þó að það hafi ekki náð framgangi enn, — þrátt fyrir það, þó að ég hafi fundið ýmsa agnúa á frv., eins og það hefur legið fyrir. Ég vil t. d. minna á það, að á síðasta þingi. þegar frv. var til meðferðar í annað sinn og flm. féllst á að skera efni þess mjög niður í von um að fá það frekar samþ. í þeim búningi, hafði ég þá afstöðu að vilja ganga lengra en flm. gerði að því sinni og tók upp ýmislegt af því efni, sem hann sjálfur lagði til, að yrði fellt niður. Þannig er það síður en svo, að ég hafi nokkurn tíma sýnt málinu andúð á þingi, þvert á móti. En þegar iðnn. fjallaði um þetta mál að þessu sinni, var það komið í nokkuð annan farveg, eins og drepið hefur verið á hér og eins og 2. minni hl. n. byggir á afstöðu sína um að samþ. frv. ekki enn þá eins og það liggur fyrir, heldur fela málið þessari n., sem ríkisstj. á þessu ári skipar til að fjalla um iðnaðarmálin. Er það a. m. k. nokkuð í átt við það, sem fim. hefur óskað eftir og frv. fjallar um. Við afgreiðsluna í n. lét ég þess vegna líka í ljós, að e. t. v. væri eins heppilegt að gefa n. frjálsar hendur um þessi störf eitt ár í viðbót og láta þann vísi, sem þegar er orðinn að þessari starfsemi, þróast og sjá þá betur, hvernig sú þróun yrði, og byggja síðan á þeirri reynslu þá lagasetningu, sem um þetta yrði sett. Að því leyti var afstaða mín í n. mjög lík afstöðu 2. minni hl., eins og frsm. hefur líka getið um. Hins vegar var það nú svo, að þegar farið var að ræða þetta mál nánar í mínum flokki, varð sú skoðun ofan á, að með þessu væri of skammt gengið og að réttara væri að veita iðnaðinum þegar með löggjöf þá aðstoð, sem hann bíður eftir og á fullan rétt á að fá, eins og þær aðrar atvinnugreinar, sem hér hafa verið teknar til samanburðar, svo sem landbúnaður og sjávarútvegur.

Ég hef við nánari yfirvegun líka fallizt á, að það sé ekki ástæða til að draga þetta mál meir á langinn en gert hefur verið. Eins og flm. hefur getið um og hv. þm. er kunnugt, er þetta mál búið að vera hér nokkuð lengi á döfinni. Og þó að ekki hafi verið þrátt fyrir það sniðnir af því ýmsir þeir agnúar, sem frá upphafi voru á formi frv., þá sé ég ekki annað en það sé rétt að láta verða af því að afgreiða þetta mál og mun þess vegna í höfuðatriðum fallast á frv. í bili, eins og það liggur fyrir, en mun á síðari stigum þess, ef rökst. dagskráin verður felld, gera einhverja brtt., eftir því sem ég þá tel ástæðu til.

Ég taldi rétt að skýra frá þessu þegar við þessa umr. málsins og þá ekki sízt vegna þeirra ummæla, sem hv. frsm. 2. minni hl. hafði hér um það, að ég mundi sennilega hafa sömu skoðun og hann í þessu efni. Var það ekki að tilefnislausu. En eins og ég sagði, hef ég við nánari umræður um málið í mínum flokki komizt á þá skoðun, að það sé þó réttara að lögfesta þá starfsemi, sem nú er hafinn þessi vísir að, og gera hana þá líka þegar nokkru fyllri með ákvæðum frv. en hún nú er og virðist vera fyrirhuguð af ríkisstj. nú á næsta ári.