26.11.1951
Efri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Frsm. 2. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég hef í raun og veru engu við það að bæta, sem ég áður hef sagt um þetta efni. Hér er aðeins um það að ræða, hvort á nú á þessu þingi að skipa með lögum starfi iðnráðs og iðnaðarmálastjóra, eða hvort á að verða við þeim óskum, sem fram komu mjög greinilega í nál. þeirrar n., sem ríkisstj. skipaði milli þinga til þess að rannsaka málið, þar sem þeir óskuðu eftir því, að veittar yrðu 100 þús. kr. til þess að koma þessari iðnaðarmálaskrifstofu, sem þeir kalla svo, á fót, og að þeir fái í n. frest í eitt ár til þess að athuga, á hvern hátt verði heppilega fyrir komið l. og nánari ákvæðum um störf þessarar skrifstofu, sem og kemur fram á fskj. 1 á þskj. 133, þar sem þeir endurtaka þetta sama, að þótt þeir vilji ekki mæla á móti frv., þá óski þeir eftir að fá þennan frest. Og þegar upphæðin, 100 þús. kr., er komin á fjárlfrv., og ég hef ekki heyrt neinn ljá máls á því að taka hana út af því aftur, þá er að mínum dómi orðið við þeim kröfum, þá fá þeir það fé. sem þeir biðja um, 100 þús. kr. Ráðh. mun þá skipa þetta þriggja manna iðnaðarmálaráð, sem þeir kalla, til þess að stjórna starfinu og athuga, hvernig rammi verði settur um málið með löggjöf. Þess vegna er orðið 100% við till. mþn. með því að samþ. rökst. dagskrána. Með því að samþ. lagafrv. er búinn til ákveðinn rammi um það, hvernig iðnaðarmálaráð á að starfa, sem það sjálft óskar ekki eftir að fá yfir sig strax, heldur að fá í friði að athuga til næsta árs, hvernig það verður heppilegast gert, og koma þá með það í því formi, sem þeir óska eftir. Ég sé þess vegna ekki annað en að við, sem undir rökst. dagskrána skrifum, séum alveg í samræmi við óskir þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Verði þess vegna, mót von minni, rökst. dagskráin ekki samþ., heldur farið með l. að ákveða, hvernig þessi n. eigi að starfa, þá kemur á seinna stigi til athugunar, hvort þar eigi ekki að gera frekari breyt. á og meira í samræmi við það, sem þeir óska eftir, sem hér eiga hlut að máli, heldur en eins og frv. er nú.

Öðrum aths. hv. frsm. sé ég ekki ástæðu til að svara. Það er alveg rétt, að ég tel það eitt af verkefnum iðnaðarmálaráðs að reyna að sameina alla iðnrekendur með þessu, en ekki, eins og nú er, að láta heila iðnflokka standa utan við, eins og iðnina, sem rekin er af samvinnufélögunum í landinu, sem öll standa utan við félagsskap iðnaðarmanna. Það eru líka ýmsir fleiri iðnrekendur, sem standa utan við þennan félagsskap, sem allir eiga að standa saman um og njóta þeirra leiðbeininga, sem þetta iðnaðarmálaráð getur gefið. Ég tel það eitt af verkefnum þess fyrsta árið að vinna að þeirri sameiningu. Þess vegna legg ég til, að rökst. dagskráin sé samþ. og þeim gefinn kostur á að átta sig betur á málinu en þeir virðast vera búnir að enn.