07.12.1951
Efri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 342 tvær brtt. Það má segja, að hvorug þeirra skipti höfuðmáli, en þó tel ég, að betur færi á því, að þær væru samþ.

Fyrri brtt. er við 2. gr., að í stað orðsins „vélaverkfræðingur“, þ. e., að iðnaðarmálastjóri skuli vera vélaverkfræðingur, komi: iðnaðarverkfræðingur. — Mér finnst þetta eðlilegra, þar sem iðnaðarverkfræðingur hlýtur að vera hæfari til að gegna þessu starfi. Það er ýmislegt annað en bygging véla, sem þarna kemur til greina, og held ég því, að heppilegra verði að hafa þetta iðnaðarverkfræðing. Ég skal fúslega játa, að það gæti vel komið til mála að ráða þarna mann, sem ekki væri vélaverkfræðingur, og mætti þá láta þetta niður falla og láta það alveg óbundið, en ef það verður haft bundið, finnst mér réttara, að það verði iðnaðarverkfræðingur.

Hin till. er við 5. gr., um að 8. tölul. falli niður, en hann er um það, að meðal sameiginlegra verkefna eigi að vera að gera till. um sölu iðjuvera ríkisins, ef hagkvæmara þykir, að þau séu starfrækt af öðrum aðilum. Nú getur vel komið til mála, að hagkvæmara reynist að selja þessi iðjuver, og þá er það þeirra að fjalla um það og gera till. um það, en að það sé bundið í l., að það sé eitt af verkefnum stofnunarinnar að selja þetta og athuga um möguleika á því, sé ég ekki að sé nein ástæða til að hafa í frv. — Hv. flm. hefur ekki viljað fallast á þetta sjónarmið, og veit ég ekki nema hann sé enn sama sinnis, en þrátt fyrir það finnst mér það óviðeigandi að hafa þetta í lögum.