29.10.1951
Efri deild: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

59. mál, tollskrá

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Samkv. þessu frv. er til þess ætlazt, að áfram haldist sú hækkun, sem gerð hefur verið á vörumagnstollinum og nemur 250%, þ.e. á allar aðrar vörur í þeim flokki en þær, sem taldar eru í litla a-lið 1. gr. Enn fremur er í frv. þessu ætlazt til þess, að verðtollurinn hækki um 45%, með þeim undantekningum, sem felast í 2. gr. — Ég mun greiða atkv. gegn 1. gr. frv., a.m.k. meðan ekki er sýnt, hvað verður um söluskattinn. Ef söluskatturinn er tekinn í lög áfram, fæ ég ekki séð, að ríkissjóði sé nauðsyn á þessum tekjuauka áfram, sem hér er gert ráð fyrir. Hins vegar, ef söluskatturinn verður felldur niður, sem ég vona, þá má segja, að ástæða sé til að athuga, hvort ekki sé vert að framlengja þessa hækkun tolla.

2., 3. og 4. gr. frv. er ég samþykkur, svo langt sem þær ná. En ég vil vekja athygli á því, sem fram er tekið í grg. þessa frv., þar sem ríkisstj. vekur athygli á, að 4. gr. laga nr. 106 frá 1950 sé felld niður í þessu frv., en efni hennar er það, að álagning verzlana og milliliða yfirleitt á þær vörur, sem falla undir þetta frv., skuli eingöngu miðuð við verð varanna án þessarar nýju tollaaukningar. En samkv. þessu frv., ef að l. verður, er heimilt að leggja ekki aðeins á innkaupsverð þessara vara og eldri tolla, heldur líka á þann tollviðauka, sem hér er um að ræða. Hæstv. ríkisstj. segir í grg., að ástæðulaust sé að hafa þetta ákvæði lengur í l., vegna þess að yfirleitt sé búið að afnema verðlagseftirlit með flestum vörum, sem undir lög þessi falla, en að svo miklu leyti sem það ekki sé gert, sé heimilt að hafa hemil á álagningu á tollahækkanir þessar gegnum fjárhagsráð. Segja má, að að forminu til sé þetta rétt. En hins vegar er það vitað, að það er gersamlegt blygðunarleysi, sem hæstv. ríkisstj. sýnir varðandi öll afskipti sín af verðlagsmálunum í landinu. Með þessu — að fella niður 4. gr. — er boðið upp á og undirstrikað, að verzlunum og milliliðum sé heimilt að hækka álagningu á þessar vörur, og þessir aðilar eru beinlínis hvattir til þess samkv. þeim orðum, sem hér standa í grg. frv.

Ég mun ekki á þessu stigi bera fram brtt. við þetta frv. um að taka þessa gr. aftur inn í frv., en áskil mér rétt til þess að gera það við 3. umr., ef mér sýnist ástæða til þess. En augljóst er af þessu frv., að hæstv. ríkisstj. er ekki aðeins ráðin í því að halda áfram þeim tollum, sem lagðir hafa verið á í sérstöku augnamiði, þótt horfið hafi það tilefni, sem upphaflega var fyrir álagningu þeirra, heldur á enn fremur að láta þá, sem milliliðastörf annast, hafa algerlega frjálsar hendur um það, hve mikið þeir leggja á vörurnar, ekki aðeins á það, sem þeir greiða fyrir þær án þessarar tollahækkunar, heldur líka á þá tollaaukningu, sem hér á að verða innheimt fyrir ríkissjóð.