12.10.1951
Efri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

44. mál, byggingasjóður kaupstaða og kauptúna

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt hér á þskj. 56, er um aukaframlög til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna á árinu 1952, og er í 1. gr. þess lagt til, að greiddar verði af tekjuafgangi ríkissjóðs árið 1951 10 millj. kr. til þessa sjóðs, og í 2. gr., að framlög þau, sem nú greiðast samkvæmt lögum, skuli greiðast með 100% álagi árið 1952. Lög um verkamannabústaði voru sett 1931, en hafa síðan með nokkrum breyt. verið felld inn í almenna löggjöf frá 1946 um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Sjóðurinn aflar sér annars fjár samkv. þessum l. með því, að bæjar- og sveitarfélög greiða 4–6 kr. árlega fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins í byggingarsjóð, þar sem starfrækt er deild úr byggingarsjóði, en ríkissjóður leggur jafna upphæð á móti og auk þess 150 þús. kr. árlega. Þessi framlög munu nema um 2½ millj. kr. á ári, en hafa reynzt allt of lítil, og er byggingarsjóður verkamanna kominn í mikil greiðsluþrot og getur ekki lánað nærri svo mikið sem þörf er á sökum fjárskorts. Þrátt fyrir l. um gengisskráningu, sem færðu sjóðnum nokkra upphæð til ráðstöfunar, hefur það hvergi nærri nægt til að fullnægja lánaþörfinni. Nú hefur það komið fram hér á Alþ., að það séu líkur til, og reyndar víst, að greiðsluafgangur verði hjá ríkissjóði á þessu ári, og þess vegna var það nú, að mér þótti eðlilegt, að einhverju af þeim greiðsluafgangi yrði varið til þess að styrkja þennan byggingarsjóð.

Það er augljóst, hve mikil þörf er á lánum til íbúðabygginga. Hér er gert ráð fyrir þessari greiðslu árið 1952 í þeirri von, að fljótlega verði lagt fyrir Alþ. frv., sem taki þessi mál almennt fyrir. En það, að hér er talað um þennan sjóð sérstaklega, er af því, að það er komin góð reynsla af starfsemi byggingarsjóðs verkamanna, og þessi starfsemi hefur unnið mikið og gott starf frá því hún byrjaði. Það eru venjulega byggðar smáíbúðir, 70–80 fermetrar. Nú á síðari árum er mikið um það, að menn vinni að byggingunum sjálfir, og gerir það þær ódýrari og auðveldari viðfangs. Ef þetta frv. verður að l., þá hefur byggingarsjóður til ráðstöfunar á árinu 1952 um 15 millj. kr., og ætti þá að vera séð vel fyrir þörf sjóðsins á því ári.

Ég legg svo til, að frv. verði í lok þessarar umr. vísað til fjhn.