23.10.1951
Efri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

62. mál, ítök

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er aðallega vegna þess, að mér fannst hv. frsm. ekki gera nægilega grein fyrir þeim breyt., sem gerðar hafa verið á málinu. Þetta er því meir til að afla mér fræðslu um þetta. Mér finnst hann hafa hlaupið yfir að skýra breyt. á miðbiki till. Eftir því, sem mér er ljóst, þá stendur svo í miðri fyrstu setningu: „nema tveir dómkvaddir menn telji nýtingu ítaksins mun meira hagsmunaatriði varðandi búrekstur þess aðila, er æskir kaupanna.“ En í brtt. er orðið „mun“ fellt í burtu, og gerir það talsverða efnisbreyt. Mér er því spurn, hvort það er verjandi að taka eignarréttinn af eigandanum, nema því aðeins að hinn hafi mun meiri hagsmuni af kaupunum. Finnst mér það annars mjög hæpin skerðing á eignarréttinum. Hér er um svo veigamikla breyt. á frv. að ræða, að mér finnst ástæða til að benda á hana. Hitt er svo annað mál, að mér finnst næsta setning endileysa að orðalagi og efni. Það sýnist vanta í setninguna og hún kemur í bága við atriði í fyrri setningunni. Það er gert ráð fyrir því í 2. setningunni, að báðir geti haft hagsmuni hvað viðvíkur ítakinu. Þá á að skipta á milli þeirra, en það er í bága við orðið „mun“ í fyrri setningunni, svo að því leyti má segja, að eftir breyt. n. á gr. sé hún rökvísari en áður. — Mér finnst hér um svo veigamikið atriði að ræða, að n. ætti að hugleiða nánar, hvort hún vilji láta slíka söluskyldu ráða þar, sem eigandi hafi aðeins meiri hagsmuni, en ekki mun meiri. Mér finnst eðlilegt, að kaupandi geti ekki krafizt sölu, nema hann hafi mun meiri hagsmuni en eigandinn. — Ég er því mótfallinn þessu atriði í brtt. eins og hún liggur fyrir og vildi mælast til þess, að n. athugaði þetta rækilega milli umr.

Ég verð einnig að vekja athygli á því, að það er mjög hæpið að ætla umráðanda að hafa meiri rétt varðandi jarðarítök en eiganda. Eða er það ekki rétt skilið, að ábúandi hafi rétt til að mótmæla sölu, þó að eigandi geti sætt sig við hana. eða hins vegar, að hann geti knúið eiganda til þess að selja? Þetta verður dálítið önnur skilgreining á eignarréttinum en nú er. — Ég held, að hv. n., með öllu því stórmenni, sem þar er, forseta d. og framkvæmdastjóra, veitti ekki af að athuga þetta betur.