23.10.1951
Efri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

62. mál, ítök

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Já, ég ætla fyrst að upplýsa, að orðið „mun“ hefur dottið niður úr brtt., án þess að nokkur hafi veitt því athygli. Það var ekki ætlun n. að leggja það niður. Hér hefur verið um stjörnuhrap að ræða, og ætti að vera hægt að leiðrétta það. — Hvað hitt snertir, þá er réttur umráðamanns ítaks undir vissum kringumstæðum nauðsynlegur. En ef það er skilið eins og af hæstv. dómsmrh., að eigandi verði að selja gegn vilja sínum, þá er það vafasamt. Skal ég nefna dæmi, svo að ljóst verði, hvenær umráðamaður getur komið í stað eiganda.

Það eru í fyrsta lagi jarðir byggðar á erfðafestu. Mér vitanlega er þar um að ræða einstakra manna jarðir og nokkrar ríkisjarðir, og það er í því tilfelli, að sá maður, sem erfðafestu hefur, en ekki eigandi, ætti að geta ráðið um söluna; það er hann, sem á að koma fram með kröfu, en ekki eigandi, sem hefur gefið þessi réttindi frá sér. — Í öðru lagi eru jarðir í eigu erlendra manna. Þær munu vera 10–20 og eru eign manna, sem eru búsettir erlendis. Það má ekki vera svo frá þessu gengið, að sala geti verið um garð gengin, áður en umráðamaður viti af. Eigendurnir hafa umráðamennina til þess að sjá um jarðir sínar, og það er því þeirra að koma fram með kröfu eða mótmæli. Þess vegna held ég, að umráðamaður eigi að hafa sama rétt og eigandi.

Hvað hinu atriðinu viðvíkur, þá skal ég sjá um, að orðið „mun“ komi aftur, því að það hefur dottið niður hjá afskrifara.