25.10.1951
Efri deild: 20. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

62. mál, ítök

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram brtt. á þskj. 113. Hef ég stílað brtt. við frv. eins og það kom fram fyrir 3. umr. Mér var ekki ljóst, að það kæmi fram nein brtt. við 5. gr., og hefur mér því ekki unnizt tími til að athuga hana samkvæmt því. Ég hef borið þetta hér fram vegna þess, að ég hef fengið tilmæli frá bændum í mínu kjördæmi. Þeir hafa tjáð mér, að ef till. væri samþ. óbreytt, þá gætu þeir orðið að flæmast frá jörðunum, þar sem ítök jarðanna væru svo mikil, að ef þau væru felld niður, þá sæju þeir sér ekki fært að búa á þeim. Meðal annars á þetta sér stað með jarðir, sem hafa verið prestssetur. Þess vegna hef ég borið fram þessa brtt. Sýnilegt er, að ef till. nær fram að ganga, þá er með 1. riftað ábúðarsamningum. Má þá segja, að metið verði upp að nýju, hvað ábúandi eigi að greiða af jörðinni, en annað mál er það, að það verður ekki nóg til að vega upp á móti því raunverulega tapi, sem hann verður fyrir við að missa ítökin. Hugsum okkur dæmi. Ábúandi greiðir 200–250 kr. í afgjald, 3% fasteignamats. Hann á húsin sjálfur, eins og verða vill. Svo er tekið af honum svo stórt beitiland, að hann verður að minnka bú sitt um helming. Það er engan veginn hægt að bæta upp. Hann yrði því að flytja, nema hann kæmist að samningum við eiganda um að leigja ítakið. Tel ég því rangt, að hægt sé að beita l. gegn ábúanda.

Frsm. mælti gegn till., en hafði þó ekki haft samráð við n. Finnst mér óeðlilegt, að hann flýti málinu svo og ræði það ekki við n. Nú getur verið, að álit hans og n. falli saman. Ég geri ekki ráð fyrir, að í henni ríki einræði og hv. frsm. segi, að hann einn ráði og einn skipi. Samt heyrðist ekki annað á ræðu hans. — Vil ég mælast til þess, að till. verði samþ. og ekki gengið þannig frá l., að hægt verði að ganga á ábúendur. Bind ég fylgi mitt algerlega við það, og ef brtt. verður felld, þá fylgi ég ekki frv.