12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

62. mál, ítök

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., hefur verið lagt fyrir þingið tvisvar sinnum áður. Einnig hefur það verið athugað á búnaðarþingi, svo að um þetta mál hafa farið fram nokkrar umr. og það verið gaumgæfilega athugað. — Mér virðist, að eftir því sem málið er athugað betur, því betur verði frá því gengið, eins og æskilegt er. Einnig hafa þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv., frá því það var fyrst lagt fram á þingi, verið til mikilla bóta. Þegar frv. var flutt á þingi 1949, var t. d. 1. gr., sem nú er, alls ekki í því, heldur hófst frv. á þessum orðum: „Rétt er eiganda jarðar, sem aðrir eiga ítak í eða fyrir, að kaupa það undir jörð sína eftir lögum þessum.“ Var þar alls ekkert skilgreint, hvað ítak væri. Nú á þessu þingi hefur verið fjallað um málið í hv. Ed. Þegar athuguð eru þskj., sem liggja fyrir í málinu, er augljóst, að jafnvel enn þá við meðferð málsins nú í Ed. hafa verið gerðar nýjar endurbætur, sérstaklega á 5. gr. Eftir að hafa lesið allar þær till., sem fram hafa komið, virðist mér, að búið sé að orða 5. gr. betur en hún var orðuð í eldri útgáfum frv.

Öllum ítökum má skipta í tvennt: Annars vegar eru ítök, sem ekki eru afmörkuð með sérstökum merkjum og eru að því leyti óstaðbundin. Sem dæmi um þau má nefna ítök í beitilöndum, sem eru ekki afmörkuð með neinum landamerkjum, en notkun þeirra fer eftir ítölu fjár. — Svo eru til önnur ítök, sem eru skýrt afmörkuð með landamerkjum, svo sem ítök til slægna og ýmissa annarra nytja. Þessi ítök hafa mörg haldizt við frá fornu fari, og er oft erfitt að rekja nákvæmlega, hvernig þau eru tilkomin, þó að til þess sé ætlazt samkv. frv. Gera má ráð fyrir því, að ágreiningur kunni að risa um það, hvort um staðbundið, afmarkað ítak sé að ræða eða landareign. En vitanlega geta fylgt nokkrum jörðum landspildur, sem eru landareign, en ekki ítök. Slíkar landareignir geta orðið til með ýmsu móti, t. d. með erfðum, hjúskap, makaskiptum o. fl.

Brtt. á þskj. 145 fjallar um það, hvernig fara skuli að, ef ágreiningur rís um það, hvort um ítak sé að ræða eða landareign. Að mínum dómi er það til bóta að fá þetta ákvæði sett inn í frv. Ég er einnig mjög ánægður yfir því, að hv. landbn. hefur tekið þessa brtt. til athugunar og mælir með henni. Vænti ég þess, að hv. d. taki hana til greina og hún nái samþykki hv. deildar.

Í sambandi við þetta mál langar mig til að fara örfáum orðum um atriði, sem ekki snertir brtt. mína á þskj. 145. Til eru l. frá 1905 um hefð, sem mæla svo fyrir, að eignarrétt á fasteign og lausafé sé hægt að vinna með hefð. Í 1. gr. þessara l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefð má vinna á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna, án tillits til þess, hvort hann var áður einstaks manns eign eða opinber eign.“

Og 2. gr.: „Skilyrði fyrir hefð er 20 ára óslitið eignarhald á fasteign, eða 10 ára óslitið eignarhald á lausafé.“

Í sambandi við þetta mál finnst mér eðlilegt að athuga, hvort þessi lög um hefð kunni að geta náð til ítaka eða ekki.

Í 7. gr. l. um hefð segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Notkun með samsvarandi skilyrðum og þeim, er gilda um eignarhefð, skapar afnotarétt.“

Og í 8. gr. sömu laga segir: „Hefð á ósýnilegum ítökum, svo sem slægjum, beit, reka o. s. frv., getur aðeins unnizt með 40 ára notkun og öðrum skilyrðum sömu sem eignarhefð.“

Í tilefni af þessu vil ég bera fram þá spurningu, hvort landbn. hafi íhugað sérstaklega þetta atriði: hvort — og ef svo er — þá að hve miklu leyti lögin um hefð kunni í framkvæmd að hafa áhrif á löggjöf þá, sem á að setja samkv. þessu frv. Ef landbn. hefur þegar athugað þetta atriði, væri æskilegt að heyra hennar álit um þetta. En hafi hún ekki athugað þetta sérstaklega, vil ég fara þess á leit, að það verði athugáð nánar milli umr., svo að þetta liggi sem ljósast fyrir hv. þm., áður en frv. verður afgr. út úr þessari hv. deild.