05.11.1951
Efri deild: 24. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

91. mál, togaraútgerð ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. lætur enn gamminn geysa í allar áttir. Hann er kominn út í útgerðina á Gretti, útgerðina á Laxfossi, Breiðunum o. s. frv. Þetta er dálítið út frá þessu máli. Hv. þm. Barð. hefur fengið upplýst, að skipstjórinn á Gretti er ekki aðeins skipstjóri, heldur líka gröfustjóri á skipinu, og þegar unnið er meginhluta sólarhringsins við að grafa, þá hefur hann aukavinnu, en ekki fyrir skipstjórnarstörf.

Viðvíkjandi því, að tap sé á Breiðunum, af því að það sé ríkisrekstur, þá vil ég segja það, að það er engin reynsla fyrir því, hvort ekki væri rekstrartap líka á strandferðabátum, sem fara sumar og vetur kringum landið á smærri hafnir, ef þeir væru í einkarekstri. Þarna hefur ríkið valið þá leið að taka ekki meira gjald fyrir þessa þjónustu, þegar séð er fyrir samgöngum við smærri staði, heldur en svo, að það standi ekki undir öllum kostnaði. Það hefur heldur kosið þá leið að láta þetta koma að einhverju leyti á ríkissjóð. (GJ: Er erfitt fyrir Skipaútgerðina að standast samkeppnina við einstaklinga?) Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur gert grein fyrir því, að einstaklingar sjái sér leik á borði, þar sem eru hagkvæmir flutningar milli hafna, og taki vöruflokka, sem er góður flutningur, og skaði þannig hag Skipaútgerðarinnar.

Hitt er vitanlega prinsipmál hjá hv. þm. Barð., að ríkið annist það, sem ekki getur borgað sig, og einstaklingarnir fleyti rjómann þar, sem rjómavottur er.

Mér heyrðist á hv. þm. Barð., að hann væri því fylgjandi, ef kæmi fram till. um það, að togararnir á Ísafirði yrðu teknir af því hlutafélagi, er nú hefur fengið þá, og bænum heimilað að taka þátt í eignarnámi til þess að geta hafið rekstur þeirra með tilliti til vinnuþarfarinnar í landi og hagsmuna bæjarfélagsins. En með því er ekki leyst það mál, sem leysa á með þessu frv. Það var meiningin að geta gripið til þess, þegar atvinnuleysi er t. d. í Flatey, á Bíldudal og hvar sem væri á Austurlandi, Norðurlandi eða Vesturlandi, að þessir ríkisreknu togarar legðu afla sinn á land þar, sem atvinnuleysi er. Og þó að Ísfirðingar fengju að taka sinn togara eignarnámi, þá er þessi hlið málsins ekki leyst. En það væri mikilsvert fyrir Ísafjörð, ef bærinn fengi að taka togarana eignarnámi, en hv. þm. Barð. veit vel, að það er vonlaust verk á meðan núv. ríkisstj. situr. Ísafjarðarkaupstaður sótti um að fá einn af nýju togurunum, og það var enginn umsækjandi nema bærinn. Bæjarstjórnin hafði síðan samþ. með meiri hl., að með þessum togara, sem bærinn fengi, skyldi verða hafin bæjarútgerð, og ofan í þessa ákvörðun ákvað ríkisstj. að úthluta hlutafélaginu Ísfirðingi h/f togaranum í trássi við bæjarstjórnina, sem hafði sótt um togarann. Það var ríkisstjórnarákvörðun að hafa þetta svona, og bærinn var þannig sviptur þessum togara, og þess er rétt að vænta, að sú sama ríkisstj. sem þetta ofbeldi framdi léti honum nú báða togarana í hendur með eignarnámsheimild. Og nú er komið á daginn, að rekstri togaranna er hagað þannig, að saltfiskurinn, sem aflað er á Grænlandsmiðum, er fluttur með 9 sólarhringa tilkostnaði til Esbjerg, og verkamennirnir á Ísafirði fá ekki að skipa þeim afla upp eða út og fá ekki neina atvinnu við togarann, af því að hann er í höndum þeirra einstaklinga, sem ríkisstj. afhenti hann, en ábyrgðin er öll lögð á herðar bæjarfélagsins. — Og voru ekki sett skilyrði, spyr hv. þm. Barð., um að þessum tækjum væri beitt til atvinnuaukningar á Ísafirði og í nærliggjandi sjávarþorpum? Jú, það var á það minnzt, að til þess væri ætlazt af ríkisstj. En hefur nokkur orðið þess var, að ríkisstj. hafi fyrirskipað núna, þegar siglt er með aflann til Danmerkur, að leggja hann upp á Ísafirði og vinna hann þar? Þetta skilyrði er aðallega til þess að taka sig vel út á pappírnum, en ekki það, að ríkisstj. hafi hvatt þetta hlutafélag til þess að framfylgja því.

Það er ástæðulaust að vera að fræða hv. þm. Barð. um þetta, hann veit um öll loddarabrögð, sem höfð hafa verið í frammi í sambandi við úthlutun þessa skips. Ísafjörður hefur verið sviptur hagnaðinum, en einstaklingar hafa fengið til umráða 9–10 millj. án þess að leggja fram eina krónu í auknu hlutafé.