06.11.1951
Efri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Gísli Jónsson:

Ég get mjög stytt mál mitt, því að ég á sæti í þeirri n., sem fær frv. þetta til meðferðar. En vegna þess að umr. um þetta mál hér í d. hafa verið mjög merkilegar, og það af hálfu þm., sem eiga ekki sæti í n., vil ég aðeins láta koma hér fram nokkrar aths. nú þegar við 1. umr.

Því hefur verið haldið fram hér í umr., að þetta væri mjög merkilegt mál og hér væri verið að leiðrétta mikla rangsleitni gagnvart sparifjáreigendum. Á bak við þessi ummæli hlýtur þá að vera viðurkenning fyrir því, að hér sé um að ræða allverulegt hagsmunamál fyrir sparifjáreigendur, sem annars vegar fái einhverja leiðréttingu á því, sem framið hefur verið gagnvart þeim undanfarin ár, og hins vegar mundi þetta, eftir því sem hv. þm. Vestm. (JJós) fórust orð, hvetja þá mjög til áframhaldandi sparifjársöfnunar. Ef þetta er rétt, þá hljótum við að standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að ríkissjóður tapi tekjum við samþykkt frv., því að ef hann tapar ekki tekjum við samþykkt þess, þá geta ekki heldur sparifjáreigendur fengið neinar bætur eða fundið neina hvöt hjá sér til að safna áfram enn meira sparifé. Sé þetta svo aftur athugað, vildi ég benda á, að hér er gert aðeins annað, þ. e. aðeins lagt til, að ríkissjóður bæti það, sem misgert hefur verið áður, en sparar samt sem áður ekkert í útgjöldum, eftir að þetta frv. hefur verið samþ. Þetta sýnir, að það er náttúrlega miklu skynsamlegra að halla sér að því frv., sem ég hef borið hér fram, að afnema tekju- og eignarskattsl. hreint og beint, gefa þessum mönnum fullar uppbætur annars vegar og gefa um leið ríkissjóði ágætt tækifæri til að draga úr gjöldum sínum hins vegar. (HG: Allar leiðir liggja til Róm.) Já, það er eins og hv. 4. þm. Reykv. segir, allar leiðir liggja til Róm. Öll frv., sem komið hafa fram á Alþ. í sambandi við skattamál, staðfesta það, sem ég hef haldið fram, að það á að afnema tekju- og eignarskattsl. og ekki káka við að gera þessa breyt. í dag og hina á morgun, sem gerir eftirstöðvar l. miklu ranglátari en þau eru í dag. — Þetta vildi ég ræða við hv. flm., þegar við komum í n., því að það er sýnilegt, að ef á að minnka tekjur ríkissjóðs með því að taka undir skatt allt sparifé, skatta hjón hvort í sínu lagi, hækka persónufrádráttinn og hætta að skatta þá, sem hafa ekki meira en 15–20 þús. kr. tekjur, hlýtur það að verða til þess að rýra mikið tekjur ríkissjóðs, án þess að minnka þann kostnað, sem er því samfara að leggja skatta á eftir þeim l., sem nú eru í gildi.

Hv. flm. og hv. 4. þm. Reykv. voru báðir sammála um, að það væri vel þess vert að athuga, hvort ætti ekki að greiða verðlagsvísitöluuppbót á sparifé. Ég verð nú að segja það, að ef fara á inn á þá braut að bæta þeim upp það verðfall, sem þeir hafa orðið fyrir á eignum sínum, með almennri vísitölu, væri það þá nokkur goðgá að taka inn í l. sams konar tryggingu fyrir þá, sem eiga fasteignir, þegar verðgildi peninga hækkar, þannig að þeir fá mjög mikið verðhrun á eignum sínum og missa kannske mest af því, sem þeir eiga í eignum? Ég skal koma með dæmi. Maður hefur í dag keypt sér íbúð eða byggt íbúð, 100 fermetra að stærð, sem kostar 141 þús. kr. Svo hækka peningar í gildi, segjum t. d. um 14 þús. kr. Það verður að standa undir vöxtum og afborgunum og vísitölu, — gamli mælikvarðinn fyrir stríð. Segjum, að verðgildi peninganna hækki það mikið og við getum stöðvað dýrtíðina og komizt niður á það stig, að hún verði ekki lengur nema 100 stig í landinu. Þá erum við komnir í þær aðstæður, að sams konar húsnæði er hægt að byggja fyrir 100 þús. kr., þannig að sá maður er þá búinn að missa 41 þús. kr. af sínu verðmæti. Væri ekki einnig rétt að bæta mönnum eitthvað upp slíkt tjón? Það er ekki litið á það sanngjörnum augum, hvaða þjóðfélagsvandamáli þessir menn hafa verið að þjóna, sem hafa byggt hús í landinu. Þeir hafa sannarlega ekki þjónað minna vandamáli en hinir, sem hafa lagt fé sitt í sparisjóð, og sæti sízt á hv. 4. þm. Reykv. að leggja til, að greitt sé álag á sparifé landsmanna, en hinn liðurinn ekki tekinn með, þegar vitað er, hvað hann og hans flokkur stóð jafnan á móti því, að einhverjar úrbætur væru gerðar á þeirri ranglátu löggjöf, sem sett var hér fyrir mörgum árum í sambandi við húsnæði hér í landinu fyrir tilstilli þess ágæta flokks, þar sem menn neyddust til þess að eiga og leigja eignir sínar til þess að fá engan veginn uppborið vexti eða afborganir eða viðhald á eignunum, heldur urðu að láta þær grotna niður í mörg ár. Þrátt fyrir alla þá rangsleitni, sem talið er að sparifjáreigendum hafi verið sýnd, tel ég, að enn meiri rangsleitni hafi verið sýnd þeim mönnum, sem húsaleigul. bitnuðu á.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi halda því fram, að því er snertir sjálft verðfallið, að þetta væri gert fyrir opinberar aðgerðir og því bæri því opinbera skylda til að bæta það. En er nú hv. 4. þm. Reykv., ef hann athugar þetta, þeirrar skoðunar, að þetta sé gert fyrir opinberar aðgerðir eingöngu? Er það ekki gert vegna þess, að ekki er hægt að ráða við fjárhagsmálin í einu landi? Meiri hluti þegnanna hefur knúið fram gengisfall í þessu landi, vegna þess að kröfur þeirra hafa verið slíkar, að ekki var hægt að reka atvinnuvegina undir því ástandi, sem var í fjármálum þjóðarinnar. Ég held, að það hafi ekki verið opinberar aðgerðir, sem orsökuðu það, að gengisfall hefur orðið í þessu landi eða öðrum löndum, síður en svo. Gengi peninganna út af fyrir sig, eins og það er skráð, er ekkert annað en viðurkenning á fjármálakerfi þjóðarinnar á hverjum tíma. Það er vitað, að gengið var fallið í þessu landi, þannig að menn keyptu hinn erlenda gjaldeyri fyrir margfalt hærra verð en hann var skráður, og viðurkenning á því ástandi var knúin fram m. a. af stéttarfélögunum í landinu. (HV: Menn kaupa enn gjaldeyri við hærra verði.) Það sýnir þá bara, að launþegarnir í landinu hafa enn með kröfum sínum knúið fram nýtt gengisfall, þannig að hér er ekki um að ræða eingöngu opinberar aðgerðir, ekki eingöngu. Það er látið undan þeim þunga, sem beinlínis stefnir hér að gengisfalli á hverjum tíma í landinu, og verðhækkun aftur á peningum verður vitanlega aldrei, fyrr en hægt er að snúa af þeirri braut, hvort sem það er gert með samkomulagi eða fyrir aðrar aðstæður annars staðar frá.

Þá minntist hv. 4. þm. Reykv. mikið á framtölin í landinu og hvernig það mætti ske, að menn gætu verið vellauðugir, en greiddu þó engan eignarskatt, og kom með nokkur dæmi. Ég vil gjarnan benda á, að fjöldamargir menn í þessu landi hafa sett svo og svo mikið af fé sínu í hrein hlutabréf, sem ekki er lagt neitt eignarútsvar á, því að þar verða hlutafélögin að greiða útsvörin. Maður á 300 þús. kr. hlutabréf; hann greiðir þá ekki útsvar af þeirri eign, heldur eignarskatt til ríkisins, en ekki útsvar, hlutafélagið er látið greiða útsvarið, og þess vegna fær ekki bæjarsjóður frá viðkomandi aðila eignarútsvar af þeim tekjum. Má í þessu sambandi benda á, að þótt þessar eignir séu kannske skráðar á 300 þús. kr., eru þær kannske einskis virði, því að í raun og veru er hlutabréf ekki annars virði en vextirnir, sem það gefur, margfaldaðir með 18–20 í hæsta lagi. Á þessu hefur aldrei fengizt leiðrétting í sambandi við skattal., og það er einmitt ein ástæðan fyrir því, að menn hafa reynt að koma eignum sínum undan þunga skattal. með því að breyta þeim í hlutafélög, oft og tíðum í hlutafélög með litlu hlutafé, en síðan eru það hlutafélögin sjálf, sem verða skattaðilar.

Ég mun nú í n. bera fram ýmsar breyt. í sambandi við þessa löggjöf, og mun óska eftir því við form. n., að mál þetta verði ekki afgr. fyrr en séð verður, hvort ekki næst samkomulag um að afgr. frv. um afnám skattalaganna, því að öll rök liggja að því, að það sé meira en tímabært að stiga það spor. En sjái ég, að það nái ekki fram að ganga í n., mun ég að sjálfsögðu bera fram róttækar till. við þetta frv. Ég skal ekki lýsa þeim nú, ég fæ tækifæri til þess síðar að gera grein fyrir þeim, og skal því ekki lengja meira mál mitt hér í dag.