10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Svo sem nál. fjhn. á þskj. 387 ber með sér, hefur orðið samkomulag um það innan fjhn. að mæla með samþykkt þessa frv. Þó hefur einn nm., hv. 11. landsk. þm. (ÞÞ), tilkynnt, að hann kunni að bera fram brtt. við þetta frv. hvað snertir sum atriði þess, en ekki veit ég, hvaða atriði hann hugðist bera fram brtt. við.

Það var einróma álit fjhn., að þetta mál væri þjóðarnauðsyn. Svo hefur verið undanfarið, að sparifjársöfnun hefur verið lítil, miðað við það fjármagn, sem í umferð hefur verið. Í lok októbermánaðar s. l. voru sparifjárinnstæður í bönkunum þremur 470 millj., en útlánin á sama tíma voru 1300 millj. Þessar tölur tala sínu máli um það hættulega ástand, sem ríkir í þessum efnum, fyrir fjármál þjóðarinnar, og eins og ég tók fram í þeirri ræðu, sem ég flutti við 1. umr. málsins, þá er það af völdum ýmissa orsaka, og er ein ástæðan sú, að það fé, sem þannig hefur verið lagt fyrir, hefur verið skattlagt óþyrmilegar en aðrar eignir. Frv. mundi, ef að lögum yrði, eyða þessu óréttlæti, og ef ég þekki sparifjáreigendur rétt, mundi skattfrelsi þess ýta mikið undir aukna söfnun hjá þeim. Hitt er annað mál, að það öryggisleysi, sem ríkir um verðgildi gjaldmiðilsins, gerir sitt til þess að eyða áhuga manna fyrir sparifjársöfnun. Og þó að þetta frv. geri ekkert til þess að skapa öryggi á því sviði, þá er ekki ástæða til þess að vera á móti því af þeim sökum sem réttlætismáli. Þetta spor er sjálfstætt og mælir ekki á móti öryggi fyrir sparifjáreigendur hvað verðgildi peninganna snertir. — Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það atriði út af fyrir sig, en vil víkja nokkuð að frv. sjálfu.

1. gr. þess er um það, að allt sparifé landsmanna, sem geymt er á uppsagnarbókum eða innlánsskírteinum skuli vera skattfrjálst og vextir af slíku fé skattfrjálsir sem tekjur. Þó er aðeins það fé skattfrjálst, sem óuppsegjanlegt er nema með 6 mánaða fyrirvara, og miðast það við það, að ekki sé hægt að leggja inn fé síðasta dag ársins og taka það út þann fyrsta á næsta ári og koma því þannig undan skatti, heldur er þarna aðeins miðað við það fé, sem verður að standa a. m. k. inni í 6 mánuði, svo að það geti komið að gagni sem útlánsfé.

2. gr. er um það, að sparifjáreigendum er skylt að telja þetta fram við eignaframtal. Þetta er hugsað til þess að skapa ekki skilyrði til að koma fé undan skatti í skjóli þessara ákvæða og torvelda ekki skattanefndum að komast eftir því, hvort rétt hefur verið talið fram. Ýmsir leggja áherzlu á, að þetta sé óþarft, og margir hafa það á tilfinningunni, að þetta fé megi vera utan við smásjá skattyfirvaldanna, og telja, að það geti haft sína þýðingu, ef þetta fé er undanþegið því, að frá því þurfi að skýra. Þetta atriði kom einmitt mjög til athugunar, og gert er ráð fyrir að ræða það á ný og bera ef til vill fram um það brtt. við 3. umr. — Skylt er forstjórum banka og sparisjóðsstofnana að gefa upplýsingar um þær innstæður, sem þar kunna að vera, svo að skattyfirvöldin geti prófað, hvort rétt er talið fram. Það er oft, að menn vilja hafa innstæður sínar í þagnargildi, og verður það oft til þess, að menn hafa freistazt til að telja ekki rétt fram. Ég vil geta þess, að það kemur til álita að bera fram brtt. um það atriði við 3. umr., en að öðru leyti mælir n. með því, að frv. verði samþ., nema ef hv. 11. landsk. þm. ætlar að bera fram við það brtt., sem ég veit ekki, hvort hann hefur í hyggju.