10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir minni afstöðu til þess, en hún er í stuttu máli sú, að ég tel það vera svo lítilvægt, að lítil líkindi séu til, að það nái tilgangi sínum, þar sem skattur sá, sem lagður er á þessar innstæður, er svo hverfandi lítill í samanburði við þá áhættu, sem það er að binda fé sitt þannig, og hverfandi lítill miðað við útsvar, sem meiningin er að leggja eftir sem áður á þær. Ég sé þó enga ástæðu til að vera á móti þessu frv. En út af því, sem fram kom, að til mála kæmi að breyta svo 2.–3. gr. frv., að ekki væri skylt að telja eftir sem áður þessar innstæður fram, þá vil ég taka það fram, að ég tel það vera svo mikilvægt, að verði það tekið inn í frv., mun ég ekki geta annað en verið á móti því, ef slíkt verður sett inn í frv.