07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég er feginn hverjum, sem vill ljá þessu máli lið sitt til framgangs, og læt mig þá minna skipta, hvaða hvatir þar kunna að liggja á bak við. Mér er ljóst, að þetta er svo þýðingarmikið mál,. að það ber fyrst og fremst að fagna því, ef það nær fram að ganga, hvort sem það er ást til sjálfstæðismanna eða aðrar tilhneigingar, sem knýja menn til fylgis við málið. En í sambandi við ræðu hv. 1. þm. N-M. vil ég benda á, að hann hefur misskilið sumt af því, sem fram kemur í þessu frv. Getur verið, að það sé af því, að það sé ekki sett nægilega skýrt fram. Hins vegar er ég fús til að taka leiðbeiningum um endurbætur á frv. Ég vænti, að hv. fjhn. taki það til athugunar, enda er mér fullljóst, að frv., sem lögð eru fram um svo stór mál eins og hér er um að ræða, þurfa að sjálfsögðu að taka ýmsum breyt., þó að ekki væri til annars en að sameina hugi manna um málið og þau sjónarmið, sem menn hafa í þessum málum yfirleitt. — Það er í fyrsta lagi misskilningur hjá hv. 1. þm. N-M., að hér sé um skattaálögur að ræða. Hér er ekki um að ræða neinn skatt, og þarf því ekki eftir ákvæðum frv. að leggja neinn skatt á. Hér er aðeins um það atriði að ræða, að þær upphæðir, sem skattanefndir viðurkenna sem frádráttarhæfar hjá þeim einstaklingum, sem reka atvinnu og eiga eignir, skuli greiða í fyrningarsjóðinn. Þær greiðast eftir frv. ekki í ríkissjóð, heldur í fyrningarsjóðinn og á nafn þess manns, sem féð á, og er þar hans eign. En þessar eignir eiga aðeins að vera bundnar í þessum sjóði til þess að inna af hendi sérstakt hlutverk í þjóðfélaginu. Og þetta er allt annað en skattur, sem lagður er á menn. Hér þarf því hvorki að leggja á né kæra út af skattálagningu. Það er fylgt föstum reglum um það viðkomandi fasteignum, hvort það megi draga frá sem fyrningu 1% af húsum eða 2%. Þetta liggur alveg fyrir. Og meðan haldið er því kerfi að telja fram til skatts og leggja á tekju- og eignarskatt, — en þetta náttúrlega breyttist, ef þeirri tilhögun yrði breytt, — þá er það ljóst, að jafnskjótt og skattanefndir hafa viðurkennt einhverja ákveðna upphæð sem fyrningargjald fyrir fasteign eða skip einhvers aðila, þá á þessi viðkomandi aðili eftir frv. að greiða þetta gjald inn í þennan sjóð, og þó innan þeirra takmarka, að það verði ekki yfir 2% af fasteignum og 3% af skipum. Það segir sig því sjálft, að ef skipseigandi á eign, þar sem er bókfært fyrsta kaupverð eignarinnar, sem vanalega er miðað við hans fyrsta kostnaðarverð — segjum, að það sé 5 millj. kr. — og leyfð eru 10%, sem er 500 þús. kr., til frádráttar af skattinum, þá má ekki þessi upphæð vera mælikvarði á það, hvað maðurinn á að greiða í fyrningarsjóðinn, heldur skulu það eftir frv. vera 3%, og væri það þá í þessu dæmi 150 þús. kr. Hér er því um hreinan útreikning að ræða, og þarf því ekki neitt að kæra út af slíku.

Viðkomandi því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði um, að hér væri um skerðingu á eignarrétti að ræða, vil ég benda á, að það var líka um skerðingu á frelsi í sambandi við eignarrétt manna að ræða, þegar lögin um nýbyggingarsjóði voru sett. Þá var ákveðið, að einn þriðji hluti af eignum aðila, sem rækju útgerð, væri skattfrjáls gegn því skilyrði, að helmingur af því, sem gefið var eftir, yrði lagður í sérstakan sjóð, sem ekki mætti nota nema í sérstöku augnamiði, þ. e. til endurnýjunar á skipaflotanum. Ég held, að útgerðarmenn almennt hafi ekki sýnt þessu andúð. Ég hygg miklu fremur, að þeir hafi verið upphafsmenn að því, að þannig var farið með þennan hluta af ágóðanum, — og að það sé eitthvert ský, sem dregið hefur fyrir augu hv. 1. þm. N-M. af andúð til þessara manna, sem hefur valdið því, að honum sé ekki kunnugt um þessar staðreyndir. En þótt hægt væri að segja, að þetta væri að einhverju leyti skerðing á frelsi manna til að ráðstafa eignum, verður því ekki neitað, að þessir menn eru eigendur að fénu og þeir geta selt það, ef þeir fá kaupanda að því, og geta látið það ganga sem greiðslur upp í skyldur eða skatta, svo framarlega sem kaupandinn vill hlíta þeirri kvöð, sem á þetta fé er lögð eftir frv. Og það, sem í raun og veru er kjarni málsins, er það, að þetta er gert til þess að tryggja bæði, að eigendur fjárins sem slíkir og aðrir menn, sem starfa á sama grundvelli eða í sömu atvinnugrein, geti haldið áfram sinni starfrækslu og til að gera störf þeirra léttari í þjóðfélaginu, svo að ég sé ekki annað en að það frelsi, sem hér er skert, eins og hv. 1. þm. N-M. talaði um, sé skert á þann veg, að það komi allmikið, sem vegi þar á móti.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að það væru nokkrir smíðagallar á frv. Að sjálfsögðu tek ég öllum leiðbeiningum um endurbætur á þessu frv. og leiðréttingum þakksamlega, hvort sem þær koma frá honum eða n., og tel, að frv. verði mjög að athugast í n. undir stjórn okkar ágæta forseta, hv. 1. þm. Eyf., sem mun vissulega gera það, sem hann getur, til þess að sníða smíðagallana af frv., ef hann er fylgjandi kjarna frv. Og svo fæst tækifæri til að laga frv., þegar það kemur til 2. og 3. umr. — Ég get hins vegar ekki séð, hvaða erindi þetta frv. á til milliþn. í bankamálum. Það er ekki meginatriði frv. að bæta úr lánsfjárþörfinni. Meginatriði frv. er að tryggja það, að haldið verði áfram að byggja fasteignir í landinu og haldið áfram að nota það fé, sem kemur frá fasteignum, til þess að vinna að þessu hlutverki og að það fé, sem kemur frá skipastólnum, verði þannig notað til þess að byggja fyrir skip. en því verði ekki eytt í annað — og svo á sama tíma til þess að stuðla að því, að aðrir en eigendurnir sjálfir geti notað féð, ef eigendurnir hafa ekki tækifæri til eða geta ekki notað það. Eins og nú er, getur maður, sem græðir hundruð þús. eða milljónir kr. á útgerð, tekið fé út úr þeim rekstri og notað það til alls annars, og hafa menn að sjálfsögðu gert það. Hann getur fyrir það byggt íbúðarhús, verzlunarhús, keypt jarðir, byggt sumarbústaði eða eytt fénu í ferðalög og allt mögulegt. En það er hugsað eftir frv., að þessi hluti af tekjunum, sem þar um ræðir, verði ekki notaðar til neins annars en að halda áfram að byggja upp hliðstæð fyrirtæki. Ég sé því ekki, að þörf sé á, að frv. fari til milliþn. í bankamálum. Hins vegar getur sú þingn., sem fær málið til athugunar, sent frv. til umsagnar til ýmissa aðila, og þá er ekki skaði skeður, þó að milliþn. í bankamálum fái það til umsagnar eins og aðrir aðilar.

Þá benti hv. 1. þm. N-M. á, að það mundi vera upp undir 30% af vissum fasteignum í landinu, sem kæmu ekki undir ákvæði þessa frv., vegna þess að eigendur þeirra hefðu ekki frádrátt frá skatti vegna þeirra og slyppu þar með. Ég er þakklátur fyrir þessa ábendingu. Það er ekki til þess ætlazt, að þessar fasteignir sleppi þarna undan. Og ef gr. er þannig orðuð í frv., að þarna sé á nokkur vafi, þarf að gera þá breyt., að ekki verði þarna á neinn vafi, því að það er ætlazt til þess, að af öllum fasteignum í landinu séu greidd fyrningargjöld. Þetta þarf að takast til athugunar í n. — Ég er hins vegar ekki sammála þessum hv. þm. um, að þetta fé ætti að vera fylgifé, hvorki jarða, húsa né skipa. Þetta er ekki annað en eign þeirra manna, sem koma þarna við. Og það er alveg nægilegt að binda féð við þá starfsemi, sem ég hef lýst hér, þótt aðrir en eigendur geti haft not fjárins við endurbyggingu fasteigna eða skipa, en að féð sé tvímælalaust í eigu þeirra aðila, sem greitt hafa féð inn. Það væri að skerða eignarréttinn, ef ætti að leggja þetta á sem sérstakan skatt, sem ætti svo að vera fylgifé einhverra fasteigna, og þá væri alveg undir hælinn lagt, hve mikið sá, sem það greiddi, gæti selt þetta fylgifé fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að taka slíkt ákvæði í lög. Ég tel hitt meginatriðið, að svo sé búið um, að ekki sé hægt að taka féð og nota til neins annars en þess. sem tilætlunin er með þessu frv., að þjóna því hlutverki, sem talað er um hér í frv. — Ég er líka þakklátur fyrir þá ábendingu hv. 1. þm. N-M., að reyna þyrfti að fá upplýst, hve mikið fé kæmi inn í slíkan sjóð sem hér er gert ráð fyrir. Mér hefur sjálfum dottið í hug að fá þetta upplýst, en vegna anna í sambandi við afgreiðslu fjárl. hefur það ekki getað orðið. Hins vegar var svo liðið á þingtímann, að fá varð sérstakt leyfi hv. þd. til þess að taka málið fyrir, og ég hef af tímaleysi ekki getað aflað mér þessara upplýsinga. En það má nota þann tíma, sem hv. fjhn. hefur til athugunar málsins, til þess að afla þessara upplýsinga frá viðkomandi aðilum, og það er ákaflega fróðlegt og nauðsynlegt.

Hvað snertir orð hv. 1. þm. N-M. um yfirstjórn þessara mála, þá er ég honum ekki sammála um það atriði. Það er ætlazt til þess í frv., að þetta fé sé geymt í ýmsum stofnunum, Landsbankanum, Útvegsbankanum eða fiskveiðasjóði og iðnaðarbanka eða iðnlánasjóði og jafnvel í svo og svo mörgum sparisjóðum á landinu. Og þó að hinar ýmsu stofnanir af þessum, sem ég nefndi, eigi að hafa framkvæmdir í sambandi við hinar ýmsu sjóðsdeildir og beri ábyrgð á fé þeirra, þá sé ég ekki annað en að það sé ein yfirstjórn yfir þessu í hverri stofnun til þess að sannfæra sig um, að þeir menn, sem fé eiga í fyrningarsjóði, fari með féð samkv. fyrirmælum laganna. Ég sé ekki annað en að það sé sjálfsagt, að þessir menn fari með fé sitt eftir fyrrgreindum lögum.

Ég hef þá svarað þeim aths., sem á mestum misskilningi eru byggðar, og ég held, að það sitji allt of fast í huga hv. þm. N-M., að allt séu skattar, en þetta eru engir skattar.