07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) sagði, þá held ég, að það komi fram, að aldrei hafi verið búizt við, að þessi sjóður geti annað og meira en endurbyggt þær fasteignir, sem hann verður heimtur af, og það því aðeins, að verðgildi peninganna verði ekki fellt. Einnig er gert ráð fyrir því, að hann geti orðið til þess, að ekki komi til stöðvunar atvinnulífsins. Það má nú segja, að stöðvun hafi verið í fjórðung aldar við eigum ekki fleiri togara í dag en var fyrir um það bil tuttugu árum, aðeins er það, að þeir, sem við nú eigum, eru stærri og nýtízkulegri.

Um það atriði, að þetta fé sé tekið út úr rekstrinum, er það að segja, að ljóst er, að fyrirtæki er alla vega trygging í því að hafa þennan sjóð að veði. Eins er það, að þegar þessi sjóður verður tekinn til starfa, þá þurfa bankarnir ekki eins að sinna útlánum til uppbyggingar, en afleiðing lánsfjárkreppunnar hefur meðal annars verið sú, að menn hafa orðið að greiða hærri vexti til banka en þeir hafa fengið af því fé, sem staðið hefur inni.

Hvað viðvíkur þeim fyrirtækjum, sem ekki geti borgað þessi gjöld, er það að segja, að ég tel eðlilegt, að þetta gjald verði reiknað sem útgjöld til skatts. En ef hins vegar er um það að ræða, að engar tekjur séu, þá er maðurinn kominn í þær aðstæður, að hann getur ekki rekið sitt fyrirtæki. Hins vegar verður þessi sjóður eign hjá fyrirtækinu og getur þess vegna komið til með að standa undir láni. — Þá má minna á það, að nú er forgangskrafa að launum sjómanna hjá útgerðarmönnum; þá er ekki verið að spyrja um tekjur.

Þá kem ég að því atriði hjá hv. 1. þm. N-M., þar sem hann var að tala um, hvernig ætti að innheimta þessi gjöld. Það er misskilningur hjá honum, að um það atriði sé ekkert í frv.; hann getur ekki hafa kynnt sér það. Um það segir í 16. gr. þess, að með þau skuli eins fara og önnur gjöld til ríkisins, en sá er munurinn, að núverandi gjöld eru greidd til þess að renna til ríkisins, en þarna er um það að ræða, að maðurinn greiðir þetta raunverulega aðeins í aðra skúffu sjálfs sín.