22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (2999)

111. mál, söluskattur

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. — Eins og grg. ber með sér, er frv. flutt fyrir ákveðnar óskir frá Sambandi íslenzkra sveitarfélaga og komið til Sambandsins frá bæjarstjórafundi, sem haldinn var hér í Reykjavík í fyrra mánuði. Aðalefni frv. má kalla, að sé krafa um, að hið háa Alþingi líti til sveitarfélaganna og ætli þeim helming af söluskattinum á næsta ári. Krafa þessi eða ósk er fram komin vegna þess, að sveitarfélögin eiga við erfiðleika að stríða, sem vaxa með ári hverju, bæði vegna þess, að dýrtíðin vex í landinu, og líka vegna þess, að alltaf fjölgar þeim greinum, sem sveitarfélögin þurfa að annast. Tekjustofnar sveitarfélaganna eru svo einhæfir, að þegar eitthvað þyngist róðurinn, verða miklir örðugleikar á því að láta þessa tekjustofna duga. Aðaltekjustofninn er útsvörin. Er talið, að til jafnaðar þurfi sveitarfélögin í landinu að afla sér um 90% af tekjum sínum með útsvarsálagningu. Þannig fá sveitarfélögin aðeins 10% tekna sinna með öðrum hætti. Nú má segja, að álagningu útsvaranna sé þannig fyrir komið, að sveitarfélögin hafi ekki mjög bundnar hendur í þessum efnum. En útsvörin eru beinn skattur. Beinir skattar eru óvinsælir í þessu landi. Hefur ríkið orðið að falla að miklu leyti frá því að afla sér tekna með beinum sköttum. Útsvörin eru því óvinsæl í sveitarfélögunum og heimtast oft illa. Segja má, að löggjafinn hafi tekið furðu lítið tillit til sveitarfélaganna, þegar skattalögin voru samþ. Útsvörin eru innheimt á sama vettvangi og ríkisskattarnir og tekin af sömu gjaldstofnum. Þannig eiga bæði sláttumaður sveitarfélaganna og sláttumaður ríkisins að heyja sama blettinn. Sá, sem á að innheimta beina skatta fyrir ríkið, er venjulega ekki eins stórtækur og sveitarfélögin þurfa að vera með útsvarsálagningu. Venjulega eru útsvörin a. m. k. helmingi hærri en skattgreiðslan til ríkisins. En svo er annar sláttumaður frá ríkinu undir huliðshjálmi óbeinu skattanna svo stórtækur, að sveitarfélögin hafa oft af litlu að taka, þegar til kemur, og það því fremur sem skattinnheimta ríkisins er miklu sterkari og situr jafnan í fyrirrúmi, þegar kreppir að. Sveitarfélögin verða jafnan að gæta þess, þegar þau innheimta útsvör sín, að ganga ekki svo nærri mönnum, að þeir verði ósjálfbjarga. Ríkisskattheimtumaðurinn beitir hins vegar lögtaki, og þá verða sveitarfélögin meira að segja stundum að hlaupa undir bagga með því að láta sitt útsvar vera óinnheimt og greiða gjöldin til ríkisins, til þess að ekki fari svo illa fyrir gjaldanda, að meira þurfi að leggja fram honum til hjálpar. Aðstaðan er allt önnur fyrirríkið en sveitarfélögin um innheimtu gjalda. Oft er gengið af ríkisins hálfu inn á reit sveitarfélaganna. Þegar tekjur gjaldenda fara yfir 200 þús. kr., þá tekur ríkið 90% af því, sem er yfir 200 þús. kr., og bolar sveitarfélögunum alveg frá þeim annars væna tekjustofni. — Þetta nefni ég sem dæmi um þá óhæfu aðstöðu, sem sveitarfélögin hafa til þess að innheimta nauðsynlegar tekjur og afla nauðsynlegra tekna handa sér eins og nú er komið. Þess vegna er mjög eðlileg krafa þeirra um, að hið háa Alþingi geri skil á milli ríkis og sveitarfélaga í tekjuöflun.

Frv. fer fram á, að helmingur söluskattsins renni til sveitarfélaganna, en þó því aðeins, að hann nemi 50% af álögðum útsvörum næsta árs á undan. Það á sem sé ekki að létta útsvarsálagningunni meira en til hálfs af sveitarfélögunum. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að allir flm. telji söluskattinn leiðinlega tekjuöflunarleið og æskilegt, að ríkið þurfi ekki að fara þá leið. En þeir líta jafnframt svo á, að ef söluskattur er tekinn á annað borð, þá sé hann alls ekki óviðfelldnari í þágu sveitarfélaganna en ríkisins. Verða þá fleiri til þess að njóta hans beinlínis og fleiri, sem hafa ráðstöfun hans í hendi en þegar hann rennur allur til ríkisins. Þó að fjarstæða sé að hugsa sér, að söluskatturinn geti nokkurn tíma orðið vinsæll, þá hygg ég, að hann yrði sízt óvinsælli, ef hann rynni að hálfu leyti í þágu sveitarfélaganna. Það má eiginlega segja, að þau séu undirstöðurnar í þjóðfélaginu, og ef þær undirstöður hallast, þá hallast þjóðfélagið líka. Þess vegna er ákaflega mikils vert að gæta hags sveitarfélaganna. Það er áreiðanlega tími til þess kominn, að löggjafinn taki það tillit til sveitarfélaganna að ætla þeim einhverja aðra tekjustofna en nær eingöngu útsvör. Það er ákaflega þýðingarmikið, að sveitarfélögin geti sinnt þeirri frumskyldu að hjálpa fátæku fólki, þegar harðæri eru og að kreppir. Það er einnig mjög þýðingarmikið, að þau gegni skyldum, sem þeim eru lagðar á herðar með ríkinu. svo sem í tryggingarmálum, skólamálum, hafnarmálum o. s. frv. En nú hefur sú orðið reyndin, að skuldir hafa safnazt hjá sveitarfélögunum. svo að óvænlega lítur út með aðstöðu þeirra. Sumar þessar skuldir eru við ríkið eða á ábyrgð þess. Ef ríkið tekur að sér að innheimta framvegis fyrir sveitarfélögin, ásamt sínum tekjum, fé, sem gengur í Jöfnunarsjóð, eins og lagt er til í frv., þá getur það fé orðið sem trygging frá sveitarfélögunum og greitt fyrir skuldaskilum af þeirra hálfu. Á þennan hátt mætti koma í veg fyrir, að til vandræða kæmi með skuldaskilin við ríkið og framlög sveitarfélaganna móti ríkinu.

Annars er frv. svo auðskilið, að ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum. Vænti ég þess, að því verði vinsamlega tekið og jafnvel að þeir menn hér á Alþ., sem kunna að líta svo á, að ríkinu veiti ekki neitt af öllum söluskattinum, taki málinu vinsamlega og telji eðlilegt, að sveitarfélögin hafa knúið á til þess a. m. k. að endurskoða skattalöggjöfina með tilliti til sín. Það er m. a. tilgangur frv. að reka á eftir því, að afstaðan milli ríkis og sveitarfélaga verði tekin til endurskoðunar. — Ég óska þess svo, að frv. verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umræðu.