07.12.1951
Neðri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

59. mál, tollskrá

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki hafa langt mál um þetta, þótt þetta sé vissulega allmikið mál.

1. gr. þessa frv. er ég andvígur. 2. og 3. gr. fjalla aðeins um undanþágu frá tollskránni, sem hér er rætt um, og þeim gr. er ég samþykkur. En í 1. gr. felst, að halda eigi áfram allri þeirri tollahækkun, sem hefur verið ákveðin sérstaklega á benzín og ýmsar aðrar vörur.

Þegar þetta frv. var upphaflega lagt fram, voru að því er manni virtist gleðilegir hlutir í því, eins og að það ætti að lækka álagningu á vörumagnstoll niður í 200%. En svo upplýstist, að þetta var bara prentvilla. Það er því miður svo, að hvað eftir annað þegar menn heyra gleðileg tíðindi hér, þá er þeim kippt aftur. Þegar blessuð ríkisstj. virtist ætla að lækka tolla og láta sér skiljast, að almenningi væri nóg boðið, þá upplýstist, að það var prentvilla. Þegar svo virðist, sem það ætli að verða yfir 100 millj. kr. tekjuafgangur, þá er það prentvilla. Það er eins og prentvillupúkinn sé farinn að skjótast allmikið inn í aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar.

Verðtoll á að innheimta með 45% álagi, að undanteknum verðtolli af þeim vörum, sem taldar eru í 2. gr. Þegar þetta var upphaflega framkvæmt, þá stóðum við Sósfl.- menn á móti því, og við erum enn þá á móti því. Hins vegar er það slæmt, að það skuli ganga svo þing eftir þing, að öll þessi gömlu lög um tolla og álagningu eru samþ. sem nokkurs konar framlenging og bráðabirgðabreyting á lögum og látið lita svo út, að þetta sé aðeins fyrir eitt einasta slæmt ár. Elztu lögin eru frá 1939, og þetta er bráðabirgðabreyting á lögum frá 1939 og samþ. sem frv. til l. um bráðabirgðabreytingu. Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að taka sig til og breyta þessu. — Hvað snertir sjálft innihald frv., þá er það um að halda áfram þungum tollaálagningum á nauðsynjar manna, þegar fólkið á erfiðara en fyrr með að standa undir þessum álögum. Það er ekki eitt einasta atriði, sem sýnir, að hæstv. ríkisstj. hafi vilja til að slaka til um tollana. Ef eitthvað slíkt hefði komið fram í meðferð söluskattsins, væri sök sér, þó að menn hefðu viljað láta tollana haldast. — Á þeim sama fundi sem þetta var tekið til athugunar var ákveðið að halda söluskattinum. Þess vegna legg ég gegn 1. gr. frv., en er samþykkur 2. og 3. gr. þess.