29.11.1951
Efri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

130. mál, orkuver og orkuveitur

Flm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af okkur þm. úr Austfirðingafjórðungi, sem eigum sæti í þessari hv. d., en auk þess standa að því aðrir þm., sem kosnir hafa verið í Austfirðingafjórðungi, og landsk. þm., sem hafa boðið sig þar fram, og stöndum við allir sem einn maður um málið.

Tilgangur frv. er að bæta að nokkru leyti úr þeirri miklu rafmagnsþörf, sem er á Austurlandi, en Austurland hefur orðið allmikið aftur úr í þeim efnum síðustu árin, aðallega vegna þess, að það hafa farið fram rannsóknir á því, hvar hentugast væri að setja á stofn stórvirkjanir, þannig að það kæmi sem flestum Austfirðingum að notum. Það var fyrst álitið líklegt, að ódýrast og hagkvæmast væri að virkja Gilsárvötnin. Síðan var snúið sér að Lagarfossi, en þar næst að Fjarðará í Seyðisfirði, og niðurstaðan hefur orðið sú, að vænlegast hefur þótt að virkja hana. En í þennan undirbúning málsins hafa farið mörg ár og það mjög dýrmæt ár, því að bæði vélarnar og annað erlent efni og vinnulaun einnig hafa hækkað á þessum tíma, sem því gerir rafveituna miklu dýrari en ef byrjað hefði verið fyrr á henni. En um þetta verð ég að segja það, að ekki er til neins að sakast um orðinn hlut, og rafmagnið verður fólkið að fá, ef það á að halda áfram að byggja þennan landshluta. Eins og tekið er fram í grg., er kostnaðurinn við að virkja hvert hestafl allmikill, meiri en á öðrum stöðum, sem taka mætti til samanburðar. En þess ber þá að gæta, að til samanburðar er ekki annað að taka en rafmagnsvirkjanir, þar sem hefur verið virkjað á miklu ódýrari tímum, miðað við tímana nú, eða þá stórvirkjanir, sem eðlilega gefa miklu hagstæðari útkomu. Það má kannske að einhverju leyti draga í efa, hvort þessir landshlutar geta staðið undir virkjununum með því verði, sem einmitt nú er á því að virkja. En þegar ríkið hefur aðstoðað og látið þær virkjanir sitja fyrir, þar sem ódýrast er að virkja og virkjanirnar eru stærstar, þá væri ekki óeðlilegt, að séð væri um, að aðrir gætu notið rafmagnsins, t. d. með því að setja meðalverð á rafmagnið eða eins og vera mun sums staðar annars staðar, að lagður sé einhver smáskattur á þær virkjanir, sem ódýrast geta framleitt rafmagn og til flestra íbúa landsins.

Ég hef hér í höndunum áætlun yfir virkjun Fjarðarár, sem er dagsett 15. þ. m. Hún átti að vera tilbúin miklu fyrr. Er það orsökin fyrir því, að málið hefur ekki verið borið fram fyrr, að dráttur hefur orðið á áætluninni. Samkvæmt henni er talið hagstætt, eins og nú standa sakir, að virkja 1830 hestafla stöð. Verður kostnaðurinn við það samt sem áður 10 millj. og 700 þús. kr., en þar við bætast svo háspennulínur ásamt spennistöðvum til Neskaupstaðar og Eskifjarðar, og er áætlað, að önnur muni kosta um 3 millj.. en hin um 1 millj. og 800 þús. Hefur kostnaðurinn við þetta vaxið gífurlega. Man ég, að í fyrra var talið, að kostnaðurinn við háspennulínuna væri 30–40 þús. kr. á km, en nú mun hann vera orðinn um 100 þús. á hvern km. — Enn fremur hef ég hér áætlun raforkumálastjórnarinnar um virkjun Hvammsár í Vopnafirði frá í sumar, og er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við hana verði 1360 þús. auk 1283 þús. og vélakostnaður 997 þús. kr., en skv. breytingum raforkumálastjórnarinnar frá 15. nóv. s. l. er áætlað, að til viðbótar við þetta megi bæta 15% vegna hækkana, sem orðið hafa síðan áætlunin var gerð. — Að sjálfsögðu verða þessi skjöl afhent hv. iðnn., sem þetta mál fer til.

Sé ég svo ekki á þessu stigi ástæðu til að fara frekar út í einstök atriði, en óska þess fyrir hönd okkar flm., að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn., og vona, að hv. þm. veiti því góða fyrirgreiðslu.