10.12.1951
Efri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (3013)

144. mál, almannatryggingar

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti.

Eins og sjá má á frv. þessu og grg., er það tvíþætt. Í fyrsta lagi er það um, að heilsugæzlukafli l. komi til framkvæmda, og í öðru lagi, að persónuiðgjöld hinna tryggðu falli niður, en hins vegar verði framlag ríkissjóðs aukið sem svarar þessum tekjum. Hvað hið fyrra áhrærir. þarf ekki að tala um það langt mál. Það var í fyrstu áætlað, að heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda árið 1948, en nú er 1951, og með þessu frv. er lagt til, að hann komi til framkvæmda 1. jan. 1953. Það virðist því sannarlega vera kominn ærinn umhugsunarfrestur um þetta, og þörfin fyrir þessa framkvæmd er mikil, og ef Alþ. vill á annað borð hverfa að því ráði að fella niður persónuiðgjöldin, væri æskilegt að gera það einmitt um leið, vegna þess að það væri fráleitt að nota sama kerfi og nú er, og væri eðlilegast, að nýtt kerfi væri tekið upp um leið og heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmdar. — Það hníga að því mörg rök að þessi iðgjöld verði afnumin, þar sem þau lenda á þeim efnaminnstu með mestum þunga. Á síðasta ári voru þau upp undir 1000 kr. á hjónum og þyngri á þeim, sem áttu börn yfir 16 ára, sem voru við nám og foreldrarnir urðu að greiða iðgjöld fyrir. Nú verða þessar upphæðir miklu hærri á næsta ári, og stjfrv., sem á að koma til 2. umr. í dag, hækkar þetta enn þá.

Nú liggja fyrir Alþ. mörg frv. um lækkun á tekjuskatti og eitt um afnám hans með öllu. Þetta ber vitni um það, hve óbærilega háir skattarnir eru orðnir, og ef þess er þörf að afnema tekjuskattinn, hversu miklu meiri þörf er þá ekki á að afnema iðgjöldin, sem eru miklu tilfinnanlegri fyrir almenning? Þessi iðgjöld eru nefgjöld, og það eru ranglátustu skattar, sem til eru, og verri en tollar, því að í sumum tilfellum er hægt fyrir fátækt fólk að láta vera að kaupa hátollaðar vörur, en ekki er hægt að komast hjá að greiða nefskattana, enda eru iðgjöldin lögtakskræf. Það er mikill misskilningur, að rétt sé, að tryggingarnar eigi að vera bornar uppi af nefskatti frekar en önnur almenn þjónusta. Hvaða ástæða skyldi vera til að greiða frekar til trygginganna á þennan hátt en t. d. til skóla? Spurningin er hér um, hvort sé réttlátara, nefskattur eða stighækkandi skattur. Við flm. erum ekki í vafa um svarið. Þegar tryggingarnar eru orðnar skyldutryggingar, er óeðlilegt, að tryggingaskattheimtan sé aðgreind frá annarri skattheimtu. Það felur í sér þá hættu, að þeir, sem mesta þörf hafa fyrir tryggingu. missi rétt sinn. Eftir síðustu hækkun hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur á iðgjöldum varð það áberandi, hve illa gekk að innheimta þau. Almannatryggingarnar verða aldrei almennar, fyrr en horfið hefur verið að því ráði, sem farið er fram á í þessu frv.

Ég hef ekki í höndum gögn til að sýna fram á, hve miklu trygginga- og sjúkrasamlagsgjöld nema í heild á þessu ári, en það má gera ráð fyrir, að sú upphæð sé ekki minni en 35 millj. Árið 1950 voru persónuiðgjöld til trygginganna nálægt 17 millj. Iðgjöld Sjúkrasamlags Reykjavíkur voru á sama ári 7.8 millj. Þar sem frv. þetta, þótt samþ. yrði, kemur ekki til framkvæmda fyrr en síðar, þarf ekki að sjá fyrir auknum tekjum á fjárl. næsta árs vegna þess, og hvort síðar þyrfti að gera það, fer eftir því, hvort söluskatturinn yrði framlengdur. En eitt af því fyrsta, sem kæmi til greina til að standast kostnað af þessu, er að finna ráð til að finna það fé, sem stolið er undan skatti, og mundi þá koma í ljós drjúg tekjulind.

Ég vil að lokum benda á það, af ef þessum nefskatti yrði létt af almenningi, mundi það auka gjaldþol skattþegnanna og á þann hátt létta undir með bæjarfélögum. — Ég legg svo til, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn. og verði afgr. samtímis frv. því, er hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., og samræmt því frv., ef menn geta fallizt á þau sjónarmið, sem fram koma í þessu frv.