10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (3030)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og félmn. Ed. Svo sem hv. dm. er kunnugt, var á síðasta þingi flutt hér frv. til l. um öryrkjahæli, og var það frv. til athugunar í heilbr.- og félmn. Nefndin sendi frv. til umsagnar geðveikralækninum á Kleppi og landlækni, sem og út um land, og eftir þá athugun var frv. borið fram í sama formi aftur á þessu þingi. Nú virðist endirinn hafa orðið sá, að sakir ýmissa hluta sé það frv. ekki heppilegt til samþykktar í því formi, sem það er nú í. Meðal annars taldi n., að ríkið hefði ekki fullnægt skyldu sinni við sveitarfélögin og aðra aðila viðkomandi vandræðamönnum og sjúklingum ýmiss konar, og þótti henni rétt að taka einhver ákvæði um slíka skyldu inn í frv. Það má segja, að það hafi verið nær því það átakanlegasta, sem kom fram í grg. frv. frá í fyrra, lýsingin á þeim erfiðleikum, er skapast hjá sveitarfélögum, er menn verða skyndilega óðir, þ. e. brjálast mjög hastarlega og nauðsynlegt er að finna slíkum mönnum samastað. Ég ætla ekki að fara að endurtaka lýsinguna á þeim örðugleikum sveitarfélaganna, sem skapast í sambandi við þetta atriði. N. var ljóst, að hún gæti ekki skilið svo við þetta frv. um öryrkjahæli, að hún gerði ekki tilraun til að fá einhverja lausn á þessum sérstöku vandræðum sveitarfélaganna. Af þeim sökum hefur n. borið þetta frv. fram nú, sem er um skyldu ríkisspítalans á Kleppi til að taka við fólki, sem brjálast skyndilega og nánar er skilgreint í frv. Nú kom það fram í umsögn þeirri, er barst frá yfirlækninum á Kleppi, Helga Tómassyni, um frv. um öryrkjahæli á síðasta þingi, að hann telur einmitt heppilegra, að Kleppi yrði gert fært að taka á móti slíkum sjúklingum sem hér er um að ræða en farið yrði að stofna sérstakt hæli fyrir þá, og féll skoðun hans að þessu leyti saman við skoðun nm. Hann vildi þó telja, að til þess að Kleppur ætti að geta tekið við þessum sjúklingum, mundi þurfa að gera allmikla viðbótarbyggingu við hann. Þetta kann vel að vera rétt, þótt segja megi, að það sé mikið vafamál, og ég vil segja, að mitt sjónarmið í þessu efni er það, og það kom líka almennt fram í n., að mér virðist, að þegar maður brjálast skyndilega og verður svo óður, að hann er hættulegur umhverfi sínu og hafa þarf stöðugar gætur á honum, þá verði sú stofnun, sem ætluð er til að taka á móti geðveiku fólki, þ. e. geðveikraspítalinn á Kleppi, alltaf að vera viðbúin að taka á móti sjúklingum sem þessum, alveg eins og t. d. slysavarðstofur eru viðbúnar að taka á móti mönnum, sem slasast hættulega. Nú virðist þetta sjónarmið ekki hafa ráðið fram að þessu, en mér virðist, að þetta ætti að vera frumskylda þessa spítala, þótt það þyrfti þá að kosta það, að aðrir sjúklingar, sem minna eru hættulegir, yrðu að vera án hælisvistar um tíma. Þetta kann að vera matsatriði, og er líklegt, að yfirlæknirinn á Kleppi hafi á því aðra skoðun, en það virðist auðsætt, að hvenær sem maður veikist þannig, að hann verður hættulegur umhverfi sínu, eða slasast mjög illa, þá verði að vera til stofnun, sem getur tekið á móti honum í því ástandi og hjálpað honum til að komast yfir erfiðasta þáttinn, og þetta sjónarmið er yfirleitt viðurkennt af spítölum landsins, en aðeins ekki á þessu sviði. Meðal annars vegna þessa álít ég skilyrðislaust. að þetta frv. um skyldu Kleppsspítala til að taka við þessum sjúklingum eigi nú þegar á þessu þingi að ná fram að ganga, jafnvel þótt ekki sé rætt jafnframt um fjárhagshlið þessa máls. Það hlýtur svo að koma á eftir, og kemur það fram í grg. fyrir frv., að það er skilyrði fyrir því, að frv. nái tilætluðum árangri, að ríkissjóður beri kostnaðinn af framkvæmd l.

Ég tel svo ekki, að ég þurfi að ræða þetta frv. frekar. Frv. er ljóst og á sér þann aðdraganda. sem öllum hv. þm. er kunnur. Málið er borið fram af nefnd, og tel ég ekki ástæðu til að vísa því til hennar aftur, en óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.