11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka forseta fyrir að hafa tekið málið á dagskrá: Og ég vil segja nokkur orð vegna ummæla hæstv. dómsmrh. Hann gat þess, að frv. hefði ekki verið sent til umsagnar yfirlækninum á Kleppi eða landlækni. En málið hefur verið rætt við landlækni, m. a. í sambandi við 112. mál, og kom þá fram, að það væru hvorki meira né minna en 123 geðveikisjúklingar, sem væru án þeirrar sérstöku umönnunar og aðhlynningar, sem þeim er nauðsynleg og ekki er hægt að veita annars staðar en á Kleppi. En deilan hefur staðið um það, að á Kleppi væru sjúklingar; sem ekki þyrftu nauðsynlega með þeirrar sérstöku hjúkrunar, sem þar er veitt, en svo væri ekki hægt að koma þar inn öðrum sjúklingum, sem hvergi annars staðar er hægt að veita þá aðhlynningu og sérstöku meðferð, er þeir þarfnast. Yfirlæknirinn á Kleppi hefur lýst því yfir, að hann vilji helzt taka þangað taugaveiklunarsjúklinga; vegna þess, að þá sé von til að geta læknað, en ekki fólk, sem að hans dómi er ólæknandi. En svo var það með einn sjúkling, sem yfirlæknirinn taldi ólæknandi, að hann læknaðist á skömmum tíma annars staðar. En nú er það svo, að Kleppur er einu sinni byggður fyrir geðveikt fólk, og það er eini staðurinn, sem til er fyrir það. Annaðhvort er fyrir stj. að gera að láta þá sjúklinga, sem geðveikir eru, sitja fyrir um vist á Kleppi eða nota það fé, sem hægt er að ráðstafa, til þess að láta útbúa rúm til þess að taka á móti þessu fólki. Ég veit, að stj. hefur nóg að gera með þessa einu milljón, en ég efast um, að nokkurt mál sé þó jafnaðkallandi og þetta. Venjuleg sjúkrahús eru þó til víðast hvar á landinu, en þetta er eina hælið sinnar tegundar. Annars er ástandið með þessi sjúkrahús víða svo, að það lítur út fyrir að verði að loka þeim vegna þess, að rekstur þeirra er svo dýr, að þau bera sig ekki. En þetta ástand með Kleppshælið er þannig, að bókstaflega er ekki hægt að una við lengur.

Ég skal ekki leggja dóm á þá læknana, yfirlækninn á Kleppi og landlækni, sem báðir eru eflaust afbragðsmenn, hvor á sínu sviði. En það er auðséð, að þeir hafa ekki nægilega: opin augu fyrir þessu máli. Annars hefðu þeir barizt ötullegar fyrir því að fá eitthvað gert í því. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) tók réttilega fram, að það er misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., að ekki þurfi úrskurð læknis um það fólk, er komið skuli á hælið eftir þessum 1. Þetta er greinilega tekið fram í 1. gr.

Ég vil mælast til, að hæstv. ráðh. taki til baka tilmæli sín um að fresta málinu og að frv. verði samþ. óbreytt.