11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er hissa á ummælum hv. þm. Barð., formanns fjvn., varðandi kröfur sjúkrahúsa úti á landi um fjárstyrk frá ríkinu. Hv. þm. Barð. ætti að vera það kunnugt, að það er ekki af illvilja, að ekki er hægt að fara hraðar að í þessum málum. Á fyrstu árum þessarar kynslóðar var í raun og veru ekkert til af þessum sjúkrahúsum, og það gengur kraftaverki næst, hvað þó hefur verið gert, enda er það svo, sem betur fer, að menn hafa talið, að aðhlynning sjúkra eigi að ganga fyrir mörgu öðru. — Eins kemur það úr hörðustu átt, að á Alþ. skuli landlæknir og yfirlæknirinn á Kleppi vera ásakaðir fyrir, hve lítið hafi verið byggt á Kleppi. Það er kunnugt, að þessir menn hafa verið með stöðuga ásókn á fjárveitingavaldið vegna þessa máls. Mér er þetta vel kunnugt frá því ég var borgarstjóri, vegna þess að þá var mjög sótt á bæinn um framlög til þessa, og menn, sem hafa sótt sitt mál af mjög einhliða kappi eins og yfirlæknirinn á Kleppi, eiga sízt svona þakkir skilið. Svo á Alþ. að fara að segja um, hvaða tegundir sjúklinga eigi að fá víst á hverju einstöku sjúkrahúsi. Ég mótmæli því, að Alþ. taki slíkt vald í sínar hendur af færustu og fremstu sérfræðingum, sem rétt og eðlilegt er að taki slíkar ákvarðanir. Ef hitt kemur í ljós, að yfirlæknirinn hafi misséð sig í starfi sínu, er hægt að krefjast mannaskipta. Það eru heldur engin undur, þó að einhver sjúklingur hafi læknazt. sem talinn var ólæknandi. Í fyrsta lagi á ég eftir að fá gögn um, að þetta hafi verið svo, og svo er það í öðru lagi þannig, að öllum getur og hlýtur að skjátlast einhvern tíma. T. d. sýnir það, að hv. þm. Barð. getur skjátlazt, að hann sagði, að yfirlæknirinn á Kleppi vildi frekar taka þangað taugasjúklinga en óða menn. Þetta er skakkt. Yfirlæknirinn vill hins vegar, að sjúkrahúsið sé lækningastofnun, en ekki að það sé geymslustofnun fyrir menn, sem eru ólæknandi að hans dómi.

Mér finnst þetta skynsamlegt, en það er ekki það sama og hv. þm. Barð. sagði.

Ég held, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þetta frv. sé samið af nokkurri fljótfærni, jafnvel þótt það sé rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að mjög mikill skortur sé á sjúkrarúmum. Það er gagnslaust að samþ. þetta frv., nema sjúkrarúm séu til. Það er því misskilningur hjá hv. þm. Barð., að þetta frv. þyrfti að daga uppi, þótt réttilega væri frá þessu gengið. Hv. þm. Barð. sagði, að það væri undir því komið, hvernig menn vildu verja því fé, sem hægt væri að verja til þessa, hvort þessi rúm væru til. En það er tími til þess enn, ef þingheimur vill útvega meira fé til þessa. Það er ekkert gagn að því að segja, að eitthvert sjúkrahús eigi að taka við mönnum, sem það getur ekki tekið á móti. Það er að gefa út falska ávísun til allra aðila, sem hlut eiga að máli. Og ég vil eindregið fara þess á leit, að málið verði tekið af dagskrá, svo að hægt verði að láta það sæta réttri og eðlilegri meðferð, og ef n. vill ekki fallast á það, eru auðvitað til nóg önnur ráð til að koma í veg fyrir þessa flausturslegu afgreiðslu. En í trausti þess, að svo verði gert, mun ég fella hér niður mál mitt, en annars þyrfti ég að halda miklu lengri ræðu.