11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Þegar ég mælti fyrir þessu máli í gær, sagði ég, að málið þyrfti ekki frekari athugunar við í n., og þess vegna tók forseti það á dagskrá.

Ég lýsti því í gær, hvers vegna þetta frv. væri komið inn í þingið. Mér er kunnugt, að þetta frv., sem einkum er undirbúið af skrifstofustjóra félmrn., er samið í samráði við stjórn sambands sveitarfélaganna. Mér hefur einnig borizt umsögn yfirlæknisins á Kleppi varðandi þetta mál (Dómsmrh.: Um þetta mál?), þ. e. a. s. umsögn um öryrkjahælið, sem varðar þetta mál. Það var í einu atriði, sem hann sérstaklega kom inn á svið þessa máls, það var varðandi meðferð á óðum mönnum. Hann sagði, að þeir ættu hvergi heima nema á Kleppi. Og til að fullnægja fyrstu þörf til, að Kleppur gæti sinnt þessu hlutverki, sagði hann að vantaði ca. 35 rúm, sem mundi kosta rúmlega 2 millj. að koma upp. Þetta var sagt fyrir ári síðan. Hann virtist gera ráð fyrir því, að þessir sjúklingar færu aldrei þaðan aftur, heldur myndaðist eins konar stífla, þannig að þeim fjölgaði alltaf, og þyrfti þá bráðlega nýja aukningu á húsrými og svo koll af kolll.

Það, sem veldur því, að mér finnst eðlilegt að flytja þetta frv., er annað sjónarmið en yfirlæknisins, en það er, að mér finnst, að þegar fólk veikist á þann hátt, er í 1. málsl. 1. gr. segir, þá ættu það að vera óskráð lög, að Kleppur tæki við því. Nú skilst mér, að svo hafi ekki verið litið á af þeim, sem með þessi mál fara. En til samanburðar við þetta er það að segja um landsspítalann, að hann virðist telja sér þetta skylt á sínu sviði, og er þó um þá sjúklinga það að segja, að þeir eru þó ekki hættulegir fyrir aðra en sjálfa sig, ef svo mætti að orði komast. Af þessum sökum hefur mér virzt, að jafnvel þó að ekki sé gert ráð fyrir því, hvernig þetta skuli framkvæmt, þá sé ástandið svo erfitt og skyldan svo rík, að ómögulegt sé annað en fullnægja henni. — Ég viðurkenni, að yfirlæknirinn á Kleppi var ekki spurður ráða, og einnig það, að ég er leikmaður á þessu sviði.

Út af tilmælum hæstv. dómsmrh., að n. athugi málið betur og sendi það landlækni til athugunar, þá finnst mér eðlilegt, að n. verði við þeim tilmælum, ef málið fær afgreiðslu nú, og að þetta yrði þá gert milli 2. og 3. umr. og að þá yrði líka rætt við yfirlækninn á Kleppi. Ég held annars, að n. viti um skoðun landlæknis á þessu máli, þó að ég sé ekki að telja það eftir, að talað verði við hann. Ef hæstv. dómsmrh. vill sætta sig við, að n. geri þetta milli 2. og 3. umr., þá er ég fús til að lofa því.

Varðandi till. hv. 4. þm. Reykv. (HG), þá er ég henni efnislega samþykk, þó að ég verði að viðurkenna, að um leið og hún er samþ., þá er gengið frá þeim skilningi, er ég hef haft, því atriði, að þegar um neyðarástand sé að ræða, þá gildi engar reglur. Samkv. till. á ekki að leggja skylduna á sjúkrahúsið, nema þegar laus rúm eru fyrir hendi. Þar er um nýjan skilning að ræða, en ef hæstv. dómsmrh. fellir sig við þessa lausn, er ég fús til að samþ. till. til samkomulags, en vildi þá beina því til hv. 4. þm. Reykv., að hann taki till. aftur til 3. umr.