11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Till. hv. 4. þm. Reykv. hefur haft það í för með sér, að rétt er að fresta 2. umr., en geyma till. ekki til 3. umr., því að það er munur á skoðunum og nauðsynlegt, að menn geti áttað sig á till. áður en 2. umr. lýkur og komið þá fram með nýjar till., ef málið fær ekki viðhlítandi lausn við 2. umr. Ég legg því áherzlu á, að 2. umr. verði nú frestað, enda ljóst, að málið hefur ekki verið nægilega athugað, og segi ég það ekki til að lasta n., sem fengið hefur málið frá einum af skrifstofustjórum stjórnarráðsins og því álitið, að það væri nægilega rannsakað. Hv. frsm. játaði, og hv. 4. þm. Reykv. sagðist hafa búizt við, að málið hefði verið rætt af skrifstofustjóranum við báða þá aðila, sem ég nefndi. En þetta hefur ekki verið gert, eins og ég sagði, og er því eðlilegt að ætla lengri tíma til þess að íhuga málið.

Það er svo annað mál, hvort hægt er fyrir embættismann að taka að sér skyldur, sem hann ekki getur staðið undir. Hv. 8. þm. Reykv. segir, að það sé aðalatriðið að fá það viðurkennt, að skyldan sé fyrir hendi. En hvernig er það hægt? Er það ekki óráðshjal að skylda stofnunina til þess að taka við sjúklingum, þó að ekki sé pláss fyrir þá? Það verður fyrst að skaffa nægilegt pláss.

Það sýnir bezt, hvað málið er lítið athugað, þegar hv. 8. þm. Reykv. ber það saman við landsspítalann. Það horfir öðruvísi við um þá menn, sem teknir eru inn til uppskurðar eða vegna slysa nokkrar vikur, en óða menn, sem teknir eru til geymslu og geta verið óðir árum saman.

Ég hef aðrar hugmyndir en hv. n. um þessi mál og held, að n. hafi ekki kynnt sér þau til hlítar. Það, sem frv. efnislega snýst um, er, hvort hælinu skuli skylt, eins og í frv. stendur, að annast sjúklinginn að öllu leyti þar til hann hefur náð þeim bata að dómi yfirlæknis hælisins, að hann þarfnist ekki slíkrar umönnunar lengur. Þarna er því um það að ræða, hvort hælið með sínu takmarkaða plássi á að vera geymslustaður fyrir óða menn eða þá, sem mögulegt er talið að lækna. Ég játa það, að erfitt er að geyma óða menn í heimahúsum og fullkomin ástæða til að létta undir með þeim aðilum, en það verður að gera með því móti að koma upp nægilegum sjúkrarúmum á Kleppi, en ekki með því að breyta hælinu úr lækningastofnun í geymslustað fyrir óða menn.

Ég legg því áherzlu á, að 2. umr. verði frestað og málið ekki tekið fyrir fyrr en þeir, sem mesta sérþekkingu hafa, hafa látið álit sitt í ljós. Þetta er hægt, án þess að málið dagi uppi. Það er viðurkennt, að þörf er ráðstafana í þessum efnum, en það er ekki bætt úr neinu með þessu frv.