11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. form. og frsm. n. hefur lýst yfir því, að hún sæi ekkert að athuga við það, að n. tæki málið aftur til athugunar milli 2. og 3. umr. Ef hv. form. fellst á þetta, þá er bezt að athuga, hvort hægt er að ná samkomulagi. Ef hæstv. dómsmrh. ætlar að vinna hér hermdarstörf með því að lengja umr., þá er betra, að samkomulag verði milli hæstv. ráðh., nefndarinnar, deildarinnar og þingsins, því að þetta er mikið vandamál og meira en hæstv. ráðh. skilur, með allri virðingu fyrir hæstv. ráðh. Þá hefði einnig verið æskilegt, að heilbr.- og félmrh. hefði verið hér, og ég hefði talið, að málið væri honum ekki með öllu óskylt, en hann sést ekki hér í d. í sambandi við þetta mál.

Ég vildi óska þess, að málið yrði tekið aftur, áður en gengið verður til atkvæða, m. a. vegna till. hv. 4. þm. Reykv., og ég geri það þá í því trausti, að samkomulag náist og að málið verði rætt svo snemma við þessa aðila, að það hafi ekki tafir í för með sér, svo að málið dagi uppi. Það á ekki að senda málið þessum aðilum til umsagnar, eftir þeim verður stundum að bíða vikum saman, heldur kalla þá á fund n. og ræða við þá þar. Ég vil því eindregið óska þess, að málið verði tekið til baka og að n. kalli þessa menn þegar á sinn fund, svo að búið verði að ræða við þá fyrir mánudag og að hægt sé að taka málið þá til umr. Þetta ætti að vera auðvelt, því að sjálfsagt hefur yfirlæknirinn á Kleppi fengið að vita um málið.

Varðandi afstöðu mína til þessa máls vil ég leiðrétta það, sem hæstv. dómsmrh. sagði og er á misskilningi byggt, og það er engin ástæða til þess að hártoga ummæli mín og snúa út úr þeim. Hér er um svo mikið alvörumál að ræða, að slíkt er ekki sæmilegt.

Hæstv. ráðh. sagði, að það stæði sízt á mér að tala um velvild í sambandi við sjúkrahús, og ég vil í tilefni af þessum ummælum hans skýra þetta mál nokkru nánar. Það hefur verið rætt í fjvn., hvernig bæta ætti úr fjárskorti sjúkrahúsanna á Ísafirði og Patreksfirði, svo að þau þyrftu ekki að gefast upp. Sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem byggt var á árunum 1940–43, er rekið með 100 þús. kr. halla. Þannig er einnig ástatt um sjúkrahúsið á Ísafirði, en þar er hallinn áætlaður nærri 300 þús. kr. Þannig er um fleiri sjúkrahús, eins og í Vestmannaeyjum og á Seyðisfirði, að þau eru líka rekin með halla. Síðan hefur verið upplýst, að Landakotsspítalinn er rekinn með verulegum halla, en á sama tíma er upplýst, að ríkið greiðir milljónir í halla af húsum, sem ríkið rekur sjálft.

Það hefur verið rætt við landlækni um þessi mál, og hann taldi, að þessi sjúkrahús væru ekki of góð til að standa undir þessum halla sjálf. Ég segi ekki, að þetta sé fjandskapur við þessi sjúkrahús, en það er ekki heldur samúð. Vegna ummæla landlæknis treysti n. sér ekki til að bera fram till. um, að aðstoð yrði veitt. Ef landlæknir hefði mælt með till. í þá átt, hefði hins vegar ríkisstj. eflaust talið sjálfsagt að veita aðstoð. Landlæknir spurði, hvað það væri, þó að Patreksfjörður greiddi 100 þús. kr. í þessu skyni, það væri eins og 10 þús. kr. fyrir stríð. Nú er upplýst, að ekki hefði þurft nema eitthvað undir einni milljón króna til að koma þessum rekstri í betra horf, og ég verð að segja, að þegar afgreidd er u fjárlög, sem nema um 300 millj. kr., er ekki sæmandi að sjá í eina millj. kr., til þess að þessi sjúkrahús séu rekin með sóma. Ég hef ekki borið þetta fram, þar sem ég var viss um, að það mundi mæta andstöðu landlæknis og þess vegna verða fellt. Það er líka kunnara en frá þurfi að segja, hvernig gengið hefur með hjúkrunarkvennaskólann, en ljóst er, að hann er grundvöllur allrar heilsugæzlu í landinu. Meðan aðrir skólar eru reistir um land allt, þá daufheyrast heilbrigðisyfirvöldin við að ljá því máli lið.

Svo sagði hæstv. ráðh. líka, að það kæmi úr hörðustu átt, að ég gerði árás á heilbrigðisyfirvöldin. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þetta er rangt hjá honum. Hvaða mál hafa orðið útundan síðan 1940? Heilbrigðismálin og sjúkrahúsmálin. Ef rekið hefði verið eftir þessum málum eins og öðrum málum, t. d. heimavistinni á Akureyri, þá væri ástandið betra en það er í dag. Þar er nú komin heimavist, þar sem álíka er að búa og á Hótel Borg, en hefði ekki verið nauðsynlegra að koma upp elliheimilum og sjúkrahúsum í staðinn? Ég er ekkert að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir þetta, heldur heilbrigðisyfirvöldin, því að þau eiga fyrst og fremst sök á þessu.

Til menntaskóla á Laugarvatni hafa farið um 9 millj. kr. og til Skógaskóla um 7 millj. kr., en ekkert hús er til, sem getur tekið við þessum vesalingum, sem hér er um að ræða. Á þessu eiga heilbrigðisyfirvöldin sök, eins og ég sagði áðan. Hvað á að gera við þessa vesalinga, ef þetta frv. verður fellt? Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er meira vit í því að láta þá veslast upp tjóðraða við bás úti á landi en skylda þessa stofnun til að taka við þeim, sem hefur til þess öll skilyrði önnur en bása? Því að allt er fyrir hendi á Kleppi, lækningastofa, matstofur, þvottahús o. s. frv. Það þarf því bara að bæta við klefum. Það er því smán, ef Alþ. ætlar að fella þetta frv. og ef þessir vesalingar eiga enn árum saman að vera í gæzlu hjá fólki, sem ekki hefur nein skilyrði til þess að gæta þeirra. Það er ekki nóg að benda á, að Kleppur hafi ekki rúm. Meðan ekki er í annað hús að venda, er glæpur að taka ekki á móti þeim og fella þetta frv.

Það er upplýst, að sextíu geðsjúkir menn eru í landinu, sem ekki eru á Kleppi. Það er síður en svo, að þeir séu allir óðir. Það eru kannske 4–5 af þeim, sem eru óðir í bili við og við, en batnar á milli eins og manninum, sem upplýst er að Kleppur neitaði að taka við og varð að vakta fyrir tugi þús. kr. Ég tel það ekkert stórvirki, þó að byggðir yrðu klefar á Kleppi, þar sem skjóta mætti inn 4–5 óðum mönnum. Það hefur ekki í för með sér, að bæta þurfi við læknum eða reisa ný þvottahús eða matstofur. Það er því ódýrasta lausn málsins. Það er engin lausn að segja: Þið getið séð fyrir ykkar fólki sjálfir. — Til hvers var Kleppur fyrst byggður? Til gæzlu óðra manna. Síðar, þegar hælið var stækkað og nýr læknir kom, þá varð eðlilegt að taka við öðru fólki, sem læknirinn taldi sig geta læknað. Og það hefur farið þannig, að hann hefur eðlilega haft meiri áhuga fyrir því að taka við slíku fólki en að taka við óðu fólki; ef það er ekki hægt, ber ríkisstj. að koma á stofn stofnun, sem tæki við því fólki. — Málið hefur verið gerrætt við landlækni, og hefur hann bent á, að vonir standi til, að nú verði hægt að tæma Kristneshæli. Þyrfti þá að byggja svefnskála á Vífilsstöðum og gera einhverjar smábreytingar, einnig þyrfti að flytja til á Reykjalundi. Hann talaði þá um, að úr þessum vandræðum mætti leysa að einhverju leyti með því að koma geðveiku fólki fyrir á Kristnesi.

Ég vildi mega benda hæstv. ráðh. á, að nú er upplýst, að til eru 1500 þús. kr. í sjóði, sem átti að verja til byggingar drykkjumannahælis, því að þessir spekingar, landlæknir og yfirlæknirinn á Kleppi, hafa ekki getað komið sér saman um, á hvaða hátt eða hvar heppilegast væri að reisa það. Nú er svo komið, að uppi á Úlfarsá stendur hús með mublum, og 1500 þús. kr. eru í sjóði, en ekki hægt að byggja fyrir þær, vegna þess að samkomulag næst ekki milli þessara tveggja lækna. Þetta er ekki sagt til þess að niðra þessum tveimur vísindamönnum persónulega. Helgi Tómasson er vafalaust sálfræðingur og vel að sér í sinni grein.

Þá vil ég benda á annað, og það er, að ekki hefur verið haldið áfram byggingu fávitahælis, því að stjórnin hefur ekki haft tíma til þess að láta gera teikningarnar. (FRV: Teikningarnar eru til.) Þessi hv. þm. hefur sjálfur ásakað heilbrigðismálastjórnina fyrir að hafa ekkert gert í þessum málum. — Ef þessu hæli væri komið upp, þá stæðu vonir til, að hægt væri að losa ýmsa aðila úti um land við þessa vesalinga. Það hefur einnig verið upplýst, að þeir vesalingar, sem sendir hafa verið á Litla-Hraun, hafa margir horfið þaðan aftur. Svo á þetta að vera goðgá, að tala um þessa vesalinga hér. Hæstv. ráðh. sagði, að læknarnir ákveði það, hvort hinir sjúku þurfi að fara á sjúkrahús. Ég ætla ekki að ræða um það, en mér finnst engin ástæða til annars en þeir, sem brjálaðir eru, séu settir á það sjúkrahús, sem þeir eiga að dveljast á. Hvernig er það með berklasjúklinga? Fá þeir að fara heim af sjúkrahúsum? Hér er ferðazt um landið og menn gegnumlýstir, og þeir, sem þess þurfa, eru settir á sjúkrahús, en það má ómögulega setja fólk, sem hefur brjálazt, á það sjúkrahús, sem það á heima á. Það má ómögulega setja neina löggjöf í sambandi við þetta fólk. Mér finnst þetta nú ekki vera í samræmi hvort við annað.

Hæstv. ráðh. sagði, að mál þetta hafi ekki verið rætt nóg í n. Ég get sagt hæstv. ráðh. það, að málið hefur verið þrautrætt í n. og við landlækni og skrifstofustjóra félmrn. Ef þessi l. ganga í gegn, á hæstv. ríkisstj. að ganga í það að hefja strax framkvæmdir, enda er það ekki stórvirki.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta mál meira að þessu sinni. Ég legg áherzlu á, að samkomulag náist við hæstv. ríkisstj., svo að mál þetta geti komizt í gegn.