26.10.1951
Sameinað þing: 8. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3064)

75. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hinar frjálsu þjóðir eru nú að efla varnir sínar til að geta komið í veg fyrir ofbeldisárás eða hindrað hana, ef hún er gerð. Við þær athuganir, sem áttu sér stað til að rannsaka, hvernig varnirnar yrðu bezt og fljótast gerðar sem öruggastar, kom í ljós, að samtök þessi yrðu mjög styrkt, ef Tyrkland og Grikkland gerðust beinir aðilar að samtökum Atlantshafsríkjanna. Á síðasta ári varð samkomulag um, að þessi ríki skyldu samhæfa varnir sínar vörnum Atlantshafsríkjanna, en það er ljóst, að þær ráðstafanir voru ekki fullnægjandi í þessu sambandi. Það er meiri trygging fyrir öryggi og varðveizlu friðar, ef þessi ríki gerast beinir aðilar samtakanna. Það var samhljóða álit á fundinum í Ottawa að leggja til við stjórn og þing hverrar þjóðar um sig að samþ. þátttöku þessara ríkja. Um síðustu helgi var undirritað samkomulag þar að lútandi í London. Þetta samkomulag þarfnast staðfestingar, og þar sem Atlantshafssamningurinn var samþ. af Alþingi, er rétt að fá samþykki þingsins fyrir þessu viðbótarsamkomulagi. — Ég fjölyrði ekki meira um þetta, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.