08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3067)

75. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í nál. utanrmn., hefur meiri hl. hennar ákveðið að leggja til hér á hæstv. Alþingi, að það fyrir sitt leyti samþ. þann samning, sem gerður hefur verið um aðild tveggja nýrra ríkja, þ. e. a. s. Grikklands og Tyrklands, að hinu svokallaða bandalagi Atlantshafsríkja. Þessum tveimur ríkjum hefur með viðbótarsamningi, sem gerður hefur verið af þeim, sem fyrir voru í Norður-Atlantshafsráðinu, verið bætt í hóp þeirra þjóða, sem teljast aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum. Sex af meðlimum utanrmn. ákváðu að leggja til, að Alþingi staðfesti aðild Íslands að þessari viðbót í hóp ríkjanna, sem að bandalaginu standa. En sjöundi nm., hv. 7. landsk. þm., skilaði sérstöku nál. og telur sig ósamþykkan því, að Ísland gerist aðili áfram að bandalaginu að viðbættum þessum tveimur ríkjum, sem hér um ræðir. Bendir hann á það í nál. sínu á þskj. 161, að mikil áherzla hafi verið lögð á það með Atlantshafsbandalaginu að treysta varnir á Norður-Atlantshafi. Sem vitað er, þá liggja löndin Grikkland og Tyrkland ekki landfræðilega að Atlantshafi, heldur við Miðjarðarhaf. En hér er því til að svara, að þó að samtök frelsisunnandi þjóða hafi í fyrstu orðið til meðal landa kringum norðanvert Atlantshaf, þá er það vitað, að heimurinn er að skiptast í varnarsvæði vestrænna og austrænna þjóða. Varnarsvæði vestrænna þjóða nær yfir stærra svæði en löndin, sem liggja að Atlantshafi. Um það þarf ekki að deila, að yfir löndunum við Miðjarðarhaf vofir svipuð hætta eða jafnmikil hætta og yfir öllum Atlantshafslöndunum. Þessi lönd eru því mjög kærkomin viðbót í hóp bandalagsins, sem er til varnar austrænum yfirgangi, og kærkomið, að þessi lýðræðisríki, sem um ræðir, gerist aðilar að þessum samtökum. Ísland, sem er einn aðilinn að Norður-Atlantshafsbandalaginu, hlýtur að vera samþykkt því, að þessir tveir nýju meðlimir bætist við. Bæði Grikkland og Tyrkland starfa eftir lýðræðislegum og þingræðislegum starfsreglum. Bæði þessi ríki hafa fulltrúa t. d. í Evrópuráðinu og taka þar þátt í störfum Evrópuráðsins með öðrum lýðræðisþjóðum. Hefur þess ekki orðið vant, að þau hafi haft þar aðra afstöðu til lýðræðis og þingræðis en t. d. Norðurlöndin og þar með taldir við Íslendingar. — Ég ætla, að á þessu stigi málsins sé óþarft að rökræða frekar nauðsyn þess, að Ísland skerist ekki úr leik um að staðfesta aðild þeirra ríkja, sem hér um ræðir.

Afstaða minni hl. í utanrmn. er ef til vill skiljanleg vegna þess, að hugur hans beinist að öðru og áhugi hans er á öðru sviði en hinu vestræna lýðræðissviði. Getur afstaða hans í þessu máli hæglega mótazt af því, og er óþarfi að gera það sérstaklega að umræðuefni. Hitt er ljóst að allir þeir, sem hafa gengizt undir þá nauðsyn að taka þátt í varnarsamtökunum, komast eðlilega að sömu niðurstöðu í þessu máli og komizt var að í utanrmn., að Alþingi beri að samþykkja gerðan samning um þátttöku Grikklands og Tyrklands.