08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3069)

75. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáar aths. út af þessari ræðu hv. 7. landsk., sem kom víða við og snerti við mörgum atriðum í heimspólitíkinni. — Mér virtust honum, eftir ræðu hans að dæma, þessir amerísku hershöfðingjar mjög notadrjúgir; hann ýmist kenndi þeim um allt, þ. e. allan vígbúnað, eða vitnaði til hinnar sömu stéttar manna til þess að benda á, að óþarft væri að vera að þessu. — Annars býst ég við, að þessi ræða hafi verið svipaðrar tegundar og ræður þær, sem kommúnistar halda víðs vegar um heim, — ég veit að vísu ekki, hvort hv. þm. sjálfur er kommúnisti, en hann vinnur í þeirra hópi, og er þetta því stjórnarfarslega það sama, — til þess að svæfa almenningsálitið og blekkja fólkið, segja, að það sé óþarft að búast við neinni hættu frá þessum blessuðum friðelskandi Rússum, sem vitaskuld standi svo illa að vígi, að óþarfi sé að búast við nokkrum árásum frá þeim. Já, það má kannske segja okkur það hér á Alþ., að svo sé, við fylgjumst ekki allir með þessu máli svo sem skyldi. En er það ekki nýverið, að Rússar sjálfir voru með mikil ónot, ef ekki hótanir, í garð Norðmanna fyrir þátttöku þeirra í Atlantshafsbandalaginu og alls konar ýfingar yfir því, en ekki Bandaríkin? Og heimsfréttirnar sögðu fyrir nokkrum dögum, að Rússar væru beinlínis með hótanir í garð Mið-Asíuríkjanna, ef þau gengju í bandalag, sem þeim var boðið að ganga í af hálfu hinna vestrænu lýðræðisríkja. Þá beittu Rússar, eftir því sem heimsfréttirnar sögðu, klárlega hótunum og töldu öll samtök vestrænna þjáða hótanir við sitt stóra ríki.

Það eru ekki hershöfðingjar Ameríku, sem hafa komið á stað þeim ægilega vígbúnaði, sem nú á sér stað í Rússlandi. Seinast skýrðu útvarpsfréttir frá því í dag eða í morgun, að í ræðu, sem Truman forseti hefði flutt í Bandaríkjunum í gær, hefði hann skýrt frá því, hvernig verið væri að reyna að fá þessa austrænu jötna til þess að stinga fótum við með vígbúnað, það væri ein tilraunin enn af hálfu hinna vestrænu þjóða að fá þá til að setjast að samningaborðinu með það fyrir augum að stöðva vígbúnað í heiminum eða halda honum að minnsta kosti innan skynsamlegra takmarka. Það var haft eftir forsetanum hér í okkar útvarpi, að höfuðástæðan fyrir þessum vígbúnaði væri vígbúnaður Rússa, — svo geigvænlegur sem hann væri. Ég veit ekki, hvort hann hefur bætt því við, en það vita allir skynibornir menn hér á landi, að þessi vígbúnaður Rússa var kominn vel á veg, ef ekki í algleyming, áður en hinar vestrænu þjóðir undir forustu Bandaríkjamanna og Breta fóru að hugsa til að stofna til varnarsamtaka.

Hv. þm. vitnaði í þrjá vel metna Ameríkumenn. Nöfn þeirra sumra höfum við heyrt og kannske sumir nöfn þeirra allra, og má vel vera, að þeir séu gegnir og góðir og ekki einungis þessir menn, heldur þúsundir annarra manna í Bandaríkjunum, sem gagnrýna stjórnarstefnuna á hverjum tíma. Það er ákaflega þægilegt fyrir talsmenn einræðisins og postula ofbeldisins að geta brugðið sér til þeirra ríkja, þar sem er frelsi svo mikið, að þar má hver segja sína meiningu og sínar skoðanir, og vitna í ummæli þeirra til stuðnings stjórnmálastefnunni í því ríki, sem þeir dá, þar sem enginn dirfist að viðhafa nein slík orð um stjórnmálastefnur eða pólitísk mál, eins og hann vitnaði í hjá hinum ágæta hæstaréttardómara og hinum öðrum, sem hv. þm. nefndi. — Ég lít stundum í amerísk tímarit og sé alls konar greinar um þessi mál, því að í lýðræðisríkjunum geta menn skrifað eins og þeim sýnist, en þar með er ekki sagt, að skoðanir þessara manna séu alltaf þær réttu. Vissulega má átelja margt í sambandi við jafnstórkostlegar stjórnmálaframkvæmdir og Bandaríkin hafa með höndum, — skárra væri það, ef ekki mætti krítisera þar ýmislegt bæði af einum og öðrum. En það voru ekki Bandaríkjamenn, sem létu ræna 20–30 þús. ungum börnum á Grikklandi og flytja þau austur fyrir járntjald og halda þeim þar í mörg ár í þeim tilgangi að ala þau upp í hinni kommúnistísku trú. Nei, þessi öfl, sem þar voru að verki, var þetta mikla land, sem hv. þm. ber svo mjög fyrir brjósti, það var hinn alþjóðlegi kommúnismi, stjórnað frá Moskva, sem stóð að baki hryðjuverkunum, sem Albanir unnu á saklausum grískum börnum. Það er einstakt dæmi í sögunni, að nokkurt ríki hefi orðið fyrir slíkum tiltektum sem einmitt hin frelsisunnandi gríska þjóð varð fyrir af nágrannaríki sínu, sem sent var á vettvang til þess að stela ungviðinu og spilla því.

Það eru ekki amerískir hershöfðingjar, sem voru þarna að verki.

Hv. þm. finnst hlægilegt, að Íslendingar hafi samúð með því, að þessar tvær merku þjóðir við Miðjarðarhafið taki einnig þátt í varnaraðgerðum. Atlantshafsbandalagið er, skulum við segja, stofnað til þess að verja götudyrnar, en ef látnar eru opnar bakdyrnar, er varnarbandalagið, sem ver aðaldyrnar, kannske máttlaust. Það veit hvert barnið, að um margar aldir hafa Rússar mjög lagt sig fram um að útvega sér aðgang að Miðjarðarhafi, og hefur þar engin breyting orðið á stefnu Rússa síðan keisaratímabilinu lauk og kommúnisminn náði völdum.

Í ræðu sinni sagði hv. þm., að hinar vestrænu þjóðir tefldu fram undir stjórn Bandaríkjanna flugvélum, herskipum og hergögnum, og var mjög hneykslaður á þessu tiltæki. En það hneykslar hann ekki, þó að Rússar hafi áður verið búnir að margfalda flugvélatölu sína og herskipatölu fyrir utan hinn óvíga fótgönguliðsher, sem þeir hafa komið upp. Nei, það á að telja mönnum trú um, að þetta sé allt gert fyrir friðinn, þegar Rússar gera það, en allt gert í árásarskyni, þegar vestrænar þjóðir, tilknúðar af þeirri hættu, sem yfir þeim vofir, taka höndum saman og stilla upp vörnum á móti eða hafa þær til taks, ef á þær skyldi ráðizt.

Ég held, að í raun og veru hafi hv. þm. gert sínar sakir vel. Hann las hér upp vel skilmerkilegt og skrifað plagg, vel útbúið sérstaklega á fleiri en einum stað, sem ég vona, að verði vel meðtekið í þeim herbúðum hér í bænum, sem fylgjast með aðgerðum kommúnista á Alþ., og er ekki nema maklegt, að hann og hans flokkur fái þau laun fyrir, sem slík frammistaða á skilið. En það er eiginlega lítilfjörlegt að vera að bera þessi rök á borð fyrir okkur íslenzka alþm., þegar það er orðið augljóst öllum heimi, að einasta ráðið gegn hinum austræna yfirgangi eru þau samtök, sem hinar frjálsu sameinuðu þjóðir hafa myndað með sér, og einasta vörnin felst í þeim vörnum, sem Atlantshafsbandalagsþjóðirnar og aðrar þjóðir þeim skyldar gangast fyrir.