05.10.1951
Neðri deild: 4. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

17. mál, varnarsamningur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvílíkur uggur og óvissa ríkir nú í alþjóðamálum. Á sama stendur, hvert litið er, þar sem hinn frjálsi og hinn ófrjálsi heimur mætast, alls staðar eru víðsjár eða vígaferli. Í Þýzkalandi er ástandið slíkt, að þar er af ofbeldismanna hálfu hinni fornu höfuðborg nú ógnað með samgöngubanni, sem miðar að því að eyðileggja atvinnu- og lífsmöguleika margra milljóna manna, til þess að fá þá til að gangast undir ok ofbeldismanna. Tékkóslóvakía, sem löngum gat sér orð fyrir frjálslega hugsun, er nú undirokuð og látlaus straumur flóttamanna úr landinu yfir til hinna frjálsu landa. Á landamærum Júgóslavíu stendur, að sögn þjóðhöfðingja þess lands, mikill her viðbúinn að ráðast inn í landið hvenær sem verkast vill. Grikkland er enn í sárum eftir borgarastyrjöldina og hefur enn ekki endurheimt þann fjölda barna, sem ofbeldismenn rændu úr landinu, þegar þeir hrökkluðust þaðan. Í Íran liggur við, að upp úr blossi þá og þegar, og viðar í Austur-Asíu eru vopnaviðskipti. Út yfir tekur þó í Kóreu, þar sem bein ofbeldisárás var framin fyrir rúmu ári, — ofbeldisárás, sem leiddi til þess, að alþjóðasamtök í fyrsta sinn hófust handa um að koma fórnarlambinu til hjálpar með virkum hætti. Hafa síðan átt sér þar stað blóðugir bardagar, og þrátt fyrir tilraunir til vopnahlés hefur enn ekki tekizt að koma því á. Í þessum bardögum, sem af einhverjum ástæðum eru ekki kallaðir stríð, taka þátt fjölmargar þjóðir. Jafnvel við Íslendingar höfum af okkar litlu getu reynt að leggja fram nokkurn skerf í þeirri baráttu, þótt ekki sé það í mannslífum, sem okkur er vitanlega um megn, enda erum við þátttakendur í þeim alþjóðasamtökum, sem þarna eiga í höggi við ofbeldismennina. Vitað er, að þeir, sem fyrir ofbeldinu standa, eiga mikil ítök viða í hinum frjálsa heimi og halda þar uppi skipulagðri starfsemi málstað sínum til styrktar.

Allt hefur þetta, og þó einkum Kóreuviðureignin, leitt til þess, að hinar frjálsu þjóðir hafa allar eða flestar mjög eflt varnir sínar frá því, sem áður var, bæði hver um sig og allar í sameiningu. Það er auðvitað mjög með mismunandi hætti, hvað hver þjóð hefur innt af höndum í þessum efnum; þetta fer eftir stærð, aðstöðu, auðæfum og möguleikum hverrar þjóðar um sig, hvað hún getur af mörkum lagt til varnar frelsi sínu. En öllum hinum frjálsu lýðræðisþjóðum er það ljóst, að það er frumskilyrði fyrir því, að þjóð geti verið sjálfstæð í raun og veru, að hún sé þess búin að verja land sitt, ef á það verður ráðizt, eða með öðrum hætti sjá landinu fyrir viðunandi vörnum, eftir því sem geta og aðstæður eru til.

Íslendingar hafa gert sér þessa grein ekki síður en aðrir. Við höfum auðvitað ekki sömu möguleika og miklu mannfleiri og auðugri þjóðir til þess að verja land okkar, en vitað er um þær, að þær hafa lagt fram ótrúlega mikið sér til varnar og verndar í þessum efnum nú á síðustu mánuðum og hafa þar með tekið á sig þær fórnir, sem mundu jafnvel hlutfallslega vera okkur Íslendingum ofviða, auk þess sem þær mundu ekki koma að gagni, jafnvel þótt Íslendingar tækju slíkt á sig, því að það yrði raunverulega svo lítið, sem okkar fámenna þjóð gæti þannig af mörkum lagt. En þrátt fyrir þá staðreynd fáum við Íslendingar ekki umflúið það, að við verðum eins og aðrar sjálfstæðar þjóðir að sjá landi okkar fyrir viðhlítandi vörnum. Þetta var viðurkennt á sínum tíma með varnarsamningnum við Bandaríkin 1941, það var enn viðurkennt með þátttöku Íslands í samtökum sameinuðu þjóðanna 1946 og loks, þegar kom í ljós, að sameinuðu þjóðirnar mundu ekki reynast þeim vanda vaxnar að halda uppi friði í heiminum eða verja þjóðirnar ofbeldisárásum, því að þá gerðist Ísland þátttakandi í Norður-Atlantshafssáttmálanum á árinu 1949. Um það var nokkuð deilt á sínum tíma, en bæði var yfirgnæfandi meiri hluti þm. því fylgjandi og sú stefna hlaut síðan yfirgnæfandi meirihlutafylgi hjá íslenzku þjóðinni. Við þá samningsgerð var algert samkomulag um það, að tekið yrði fullt tillit til sérstöðu íslenzku þjóðarinnar, en hins vegar var það fastmælum bundið, að ef til ófriðar kæmi, þá skyldu Íslendingar láta bandamönnum sínum í té svipaða aðstöðu í landinu og þeir gerðu í síðasta ófriði.

Nú er það auðvitað ljóst, að of seint er að gera ráðstafanir til varnar landinu, eftir að ófriður er hafinn, sérstaklega ef svo skyldi fara, að bann kynni að hefjast með árás á landið sjálft; það gildir jafnt um Ísland sem önnur lönd. Og þess ber að gæta og mjög að hafa í huga, að eftir því sem önnur lönd eru betur varin og þar með dregið úr líkum fyrir árásir á þau, þá verða meiri líkur til þess, að ráðizt verði á garðinn þar, sem hann er lægstur, þar sem minnstar eða engar varnir eru fyrir hendi. Það hlaut því eftir Atlantshafssáttmálanum að vera skylda íslenzkra stjórnarvalda að fylgjast með því og gera sér grein fyrir því, hvenær þannig horfði í alþjóðamálum, að ástæða væri til þess að koma upp vörnum hér á landi, og vitanlega hlaut sú skylda fyrst og fremst að hvíla á íslenzku ríkisstj. Ríkisstj. hefur reynt að fullnægja þessari skyldu, og eftir að svo mjög snerist til hins verra í alþjóðamálum sem raun varð á með ofbeldisárásinni á Suður-Kóreu, þá hefur íslenzka stjórnin vitanlega haft það mjög í huga, hvenær tímabært væri, að Íslendingar færu að dæmi annarra frjálsra lýðræðisríkja og gerðu sitt til þess að tryggja varnir sínar. Afleiðing þessa varð svo sú, að ríkisstj. gerði varnarsamning þann, sem nú er lagður fyrir Alþ. til samþykktar, ásamt þeim viðbótum um réttarstöðu Bandaríkjamanna og eignir þeirra, sem hér fylgja einnig með. Þó að skyldan í þessum efnum hvíldi fyrst og fremst á ríkisstj., þá var hér vitanlega um svo viðurhlutamikið og örlagaríkt mál að ræða fyrir íslenzku þjóðina, að ríkisstj. taldi sjálfsagt að hafa samráð við alla þá alþm., sem ætla mátti, að viðmælandi væru um nauðsyn þess að koma upp vörnum fyrir Ísland. Sá háttur var því hafður á, að áður en endanlega væri lokið þessari samningsgerð, var málið borið undir alla þm. lýðræðisflokkanna þriggja, og þeir lýstu allir samþykki sínu á samningsgerðinni. Eftir að samningurinn hafði verið samþykktur, var hann undirritaður hinn 5. maí s.l. og staðfestur í ríkisráði svo sem lög standa til.

Því hefur verið haldið fram af sumum, jafnvel einstökum mönnum, sem eru fylgjendur þessa samnings að öðru leyti, að rétt hefði verið að bera málið formlega undir Alþ. og að samningurinn geti ekki fengið endanlegt lagagildi fyrr en Alþ. hafi samþykkt hann. Fyrir þá, sem þannig líta á málið, er þess að gæta, að nú er málið lagt fyrir Alþ. og Alþ. á þess kost að fella það eða samþykkja. Hitt er svo annað mál, að það er fyrir fram vitað, að frv. verður samþykkt, því að yfirgnæfandi meiri hl. er því samþykkur. Eftir að sú samþykkt hefur átt sér stað, verður ekki um það deilt, að samþykki Alþ. sé fyrir hendi, og kemur því ekki til mála, að samningurinn sé ógildur af þeim ástæðum. Deilan um það hlýtur að hverfa, þegar málið hefur fengið þinglega meðferð. Að mínu viti þarf að vísu ekki sérstakt samþykki Alþ. til þess, að samningurinn verði gildur. Það samþykki er þegar fengið með samþykkt þingsins á Norður-Atlantshafssamningnum. Enda hefði með öllu verið ástæðulaus sá gnýr — en fá mál hafa verið meira umdeild í íslenzkri stjórnmálasögu — og allt það vafstur ástæðulaust, er andstæðingar þess máls höfðu í frammi, ef sá samningur hefði ekki veitt ríkisstj. vald til slíkra aðgerða sem nú hafa átt sér stað, þegar hún teldi ástæðu til þess. En eins og ég sagði áðan, þá horfir nú þannig í alþjóðamálum, að allir þm. stjórnarflokkanna töldu óverjandi að sjá ekki landinu fyrir vörnum samkvæmt samningnum. Áframhaldandi varnarleysi fól ekki aðeins í sér yfirvofandi hættu fyrir Ísland, heldur einnig fyrir friðsamar nágrannaþjóðir, og hefði haft í för með sér aukna stríðshættu í heiminum. Hefði það vitanlega verið fjarri skapi Íslendinga, að haldið væri þannig á þessum málum af þeirra hálfu, að sökum varnarleysis Íslands hefði verið meiri hætta á því, að heimsfriðurinn færi út um þúfur. Samningurinn var sem sagt gerður með það fyrir augum, að séð yrði fyrir vörnum Íslands og friðsamra nágranna þess.

Þeir menn, sem halda því fram, að samningur þessi hafi fært fjötur á íslenzku þjóðina, sem átök þurfi til að leysa aftur, og tala með skjálfandi röddu um skelfingar erlends hervalds, — þeim mönnum er bezt svarað með tilvitnun í samninginn sjálfan, þar sem sagt er, að Íslendingar geti hvenær sem er, ef þeir telja, að ástandið hafi breytzt svo, að þeir telji ástæðulaust að hafa varnir hér, eða vilja taka að sér varnirnar sjálfir, losnað við þennan samning með tiltölulega skömmum uppsagnarfresti. Það sýnir bezt, að hér er engri kúgun beitt og á ekki að beita gagnvart íslenzku þjóðinni, enda sannanlegt, að hin mikla bandaríska þjóð hefur ætíð, frá því að samskipti okkar við hana hófust, komið fram á þann veg, að Íslendingar vita, að af hennar hálfu þurfa þeir ekki að óttast skerðingu á fullveldi sínu. Þvert á móti hafa þeir veitt okkur stuðning í sjálfstæðismálum okkar og á annan hátt, er skylt er að minnast á verðugan hátt, en ekki að vanþakka. Ég hygg sannast að segja, að margar aðrar smáþjóðir, er átt hafa undir högg að sækja gagnvart voldugum nágranna, geti ekki sagt, að það sé undir þeirra ákvörðun komið, hvenær þessir voldugu nágrannar hverfi á braut. Það er því rétt, sem andstæðingar þessa samnings hafa sagt, að hægt er að slíta þessum samningi, ef íslenzka þjóðin eða Alþ. vill. Varnarliðið hverfur þá á braut og er það skylt, og reynslan hefur vissulega sýnt okkur, að Bandaríkjamenn standa við samninga sína. Það er því rétt, að andstæðingar samningsins eiga leik á borði. Þeir þurfa ekki annað en að sannfæra íslenzku þjóðina um, að samningurinn sé til óþurftar, þá er hægt að fella hann niður vandræðalaust. Hitt er svo annað mál, að þau orð, sem fallið hafa um það, að íslenzka þjóðin sé andstæð þessum samningi, eru úr lausu lofti gripin. Hið mikla fylgi, sem samningurinn á að fagna innan þingsins, segir sína sögu, líka sú aukakosning til Alþingis, er fór fram í sumar, er þetta var gert að aðalmáli. Með kosningunni í Mýrasýslu fékkst fyrsti dómur íslenzku þjóðarinnar um eindregið fylgi við samninginn.

Um einstök atriði samningsins sé ég ekki ástæðu til að ræða. Málið hefur verið rætt ýtarlega bæði í blöðunum og á mannamótum. Hitt er rétt að taka fram, að sökum algers varnarleysis landsins taldi ríkisstj. rétt og sjálfsagt, að landinu yrði séð fyrir einhverjum vörnum jafnskjótt og samningurinn var birtur.

Auðvitað hefðum við allir kosið, að ekki hefði þurft að gera þessar ráðstafanir. Eins og hæstv. forsrh. hefur bent á, geta viss óþægindi og víssar hættur verið þessu samfara, en aðalatriðið er, að algert varnarleysi landsins fól í sér miklu meiri hættu. Það er einnig rétt að taka það fram, að hér er eingöngu um varnarráðstafanir að ræða og ekki ætlunin, að hér verði gerðar árásarstöðvar.

Þeir, sem eru samningnum andvígir, bera mjög á vörum friðarást sína. Ef verkin reynast eins vel og orðin eru hljómfögur, er óhætt að fullyrða, að engum er hætta búin af þeim vígvélum, sem á Íslandi eru. Ráðstafanirnar mótast af þeirri ósk samningsaðila að lifa í friði við allar þjóðir og eru liður í starfi Sameinuðu þjóðanna til þess að efla frið og vaxandi farsæld í heiminum. Við skulum vona, að þeim tilgangi samningsins verði náð.

Vegna þess að svo stendur á, að ekki er hægt að vísa máli, sem borið er fram í d., til utanrmn., sem kosin er í Sþ., geri ég það að till. minni, að kosin verði, um leið og málinu verður vísað til 2. umr., sérstök fimm manna nefnd til þess að fjalla um það.