17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3073)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér þykir hlýða að víkja í upphafi nokkuð að flutningi þessa máls. Þessi tillaga var flutt í upphafi þessa þings í framhaldi af svipaðri tillögu, sem sömu flm. fluttu í lok síðasta þings, en þá náði ekki afgreiðslu, enda mjög liðið á þing. Hitt er ljóst, að nauðsyn þessa máls er jafnaugljós og þá, en þörfin því brýnni sem lengra hefur liðið án þess, að gripið væri til nokkurra ráðstafana. Ég hygg, að allir, sem vilja hafa opin augun, geri sér ljós þau vandræði, sem húsnæðisleysið hefur í för með sér. Þetta mæðir mjög á þeim, sem eru í forsvari fyrir bæjar- og sveitarfélögin, þar sem skórinn kreppir víða að og reyndar jafnt til sjávar og sveita, þótt stigsmunur sé e. t. v. á.

Í grg. þessarar till. er nokkuð vikið að aðstöðunni hér í Reykjavík og nauðsynlegri eflingu lánsfjárútvegana til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði, og á það ekki við í Reykjavík sérstaklega. Það er á það lítandi, að vandamál bæjarfélaganna hafa farið vaxandi á síðari árum vegna þess, að mjög hefur dregið úr mögulegu lánsfé til íbúðabygginga. Bæjarfélögin hér og víðar hafa á undanförnum árum gengizt fyrir húsabyggingum til þess að bæta úr vandanum. Eins og kunnugt er, var árið 1946 stigið stórt spor af ríkisvaldinu til aðstoðar, en frá því var horfið af fjárhagslegum ástæðum, og síðan hefur aðstaðan mjög versnað. Reykjavíkurbær reyndi þá að fara nýjar leiðir með byggingu Búsbaðavegshúsanna. Voru þar byggðar hagkvæmar íbúðir með samvinnu bæjar og einstaklinga. Var það gert í því formi, að bærinn gerði íbúðirnar fokheldar með hitalögn, en einstaklingarnir luku síðan við húsin að miklu leyti með eigin vinnu og hjálp sinna kunningja. Bærinn hins vegar lánar þeim þann kostnað, er orðið hefur við fyrri hluta byggingarinnar. Það er hins vegar augljóst, að þessi starfsemi getur naumast haldið áfram, ef bæjarfélögin og einstaklingar hafa svo til enga möguleika til lánsfjárútvegunar. Tvö undanfarin ár hefur verið gert ráð fyrir þessum lánveitingum í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs, en mönnum hlýtur hins vegar að vera ljóst, að bæjarsjóðir hér og annars staðar geta ekki verið lánsstofnanir í þessu skyni né er ætlað það hlutverk. Ef ekki á að horfa til stórvandræða, verður að finna nýjar leiðir, og fyrsta leiðin er að bæta úr lánsfjárskortinum. Þess vegna hef ég á tveim þingum verið flm. að frv. um að gefa frjálsa byggingu smáíbúða og stuðningsmaður þáltill. um svipað efni, er flutt var fyrir forgöngu hv. þm. Vestm. Mætti ná þó nokkrum árangri með því að skapa einstaklingunum aðstöðu til byggingar hentugra smáíbúða, sem þeir gætu komið upp með eigin vinnuafli og sinna nánustu. Nú er svo komið, að bygging smáíbúða hefur verið gefin frjáls innan vissra takmarka. Vegna þessa munu áreiðanlega skapast ný verðmæti, sem annars væru ekki til, með því að hagnýta það efni, sem til er í landinu, og hagnýta vinnuafl einstaklinganna í tómstundum þeirra. Það sýnir, að þetta á rétt á sér. Hinu má þó ekki loka augunum fyrir, að þó að margir ráðist í þetta, eiga þeir erfitt með að koma því í höfn án frekari aðstoðar um lánsfé til þessara bygginga. Vegna þessara smáíbúðabygginga segja sumir að það sé orðin tízka að tala um smáíbúðir og áður hafi risið verið hærra. Við því er ekki annað að segja en að það hefur ekki verið annarra úrræða að leita, og auk þess held ég, að enda þótt ekki sé réttlætanlegt að byggja eintómar smáíbúðir í einu bæjarfélagi, sé það þó fljótvirkasta ráðstöfunin til þess að vinna bug á heilsuspillandi húsnæði og húsnæðisskorti.

Eins og ég gat um áðan, hlýtur þessi mál að bera mjög á góma hjá bæjarfélögunum. 20. sept. s. l., þegar þessi mál voru rædd á bæjarstjórnarfundi hér, var samþykkt sú tillaga, sem birt er í greinargerðinni. Hún er á þessa leið: Bæjarstjórn Reykjavíkur skorar á ríkisstjórn og Alþingi að gera hið fyrsta ráðstafanir til eflingar almennri lánastarfsemi til íbúðabygginga, er miðist við þá brýnu nauðsyn að bæta úr hinum tilfinnanlega húsnæðisskorti.“

Þessi tillaga var flutt í framhaldi af þessum hugleiðingum og því, að við hv. 7. þm. Reykv. fluttum þessa þáltill. í fyrra.

Ef litið er á þessi mál frá almennu sjónarmiði, liggja fyrir ótvíræðar staðreyndir, að húsnæðiseklan er mikil til sjávar og sveita og í öðru lagi að erfiðleikarnir fara sívaxandi til útvegunar byggingarlána. Á síðasta þingi, þegar rætt var um lánsfjárþörf landbúnaðarins, lá fyrir í greinargerð, hve mikil þörf væri til bygginga í sveitum. Eins er það í bæjunum. Hér í Reykjavík er hægt að nefna tölur um, hve margt fólk býr í heilsuspillandi og ónógum íbúðum, svo að ekki þarf að deila um það. Þegar þetta tvennt kemur saman, húsnæðiseklan og þrengri möguleikar manna til lánsfjáröflunar, er ekki vafi, að hér er stefnt í miklar ógöngur. Því er haldið fram í grg. frá hagfræðingi Reykjavíkurbæjar um húsnæðismálin, að það þurfi að byggja 5–6 hundruð íbúðir á ári, til þess að húsnæðisaukningin haldist í hendur við fólksfjölgunina og til að útrýma kjallaraíbúðum og heilsuspillandi húsnæði. Með því verðlagi, sem nú er, mundi slíkt aldrei kosta innan við hundrað milljónir króna árlega, ef við reiknum með 500–600 króna kostnaði á kúbikmetra og hæfilega stórum íbúðum.

Spurningin, sem nú liggur fyrir og kemur víða fram, er, hvernig snúast skuli við þessum vanda, og við leggjum til, að höfuðáherzla sé lögð á að útrýma heilsuspillandi húsnæði og að bæta úr sárasta húsnæðisskortinum. Við höfum alltíð þetta mál þannig, að það bæri að taka það nú föstum tökum á grundvelli ýtarlegra rannsókna, þar sem Alþ. og ríkisstj. hefðu forgöngu. Það þarf að athuga, hvað mikið hefur verið byggt undanfarin ár í landinu, hver þörfin er, hver þáttur einstaklinganna er í þessum byggingum, hver eðlilegur þáttur einstaklinganna sé, hver sé eðlilegur þáttur ríkis, bæja, lánveitenda og banka. Kæmi þá til athugunar að koma upp nýjum verðbréfamarkaði í landinu. Eignakönnunin eyðilagði þann verðbréfamarkað, sem kominn var upp, til óbætanlegs tjóns fyrir þá, sem hafa hug á að koma upp íbúðum og öðrum byggingum. Það, sem gerzt hefur hér, eftir að við fluttum till. okkar, hygg ég að sýni ljóslega, að sá háttur, sem lagður er til á þskj. 25, er farsælastur til úrlausnar. Eftir að við fluttum till. okkar, hafa margir þingmenn flutt tillögur á víð og dreif um þessi mál. Einn segir, að styrkja beri byggingu verkamannabústaða með svo og svo miklu árlegu framlagi á næstu árum, annar vill aftur láta taka gildi þann kafla húsnæðislaganna frá 1946, þar sem ríkið tókst á hendur að lána 75–85% af byggingarkostnaði til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Einn flytur frv. um lánveitingar til smáíbúðabygginga með tilgreindum hætti. Þá er flutt frv. um að efla veðdeild Búnaðarbankans. Ég hygg, að þá hv. þm. og þær þingn., sem fá þessi mörgu mál til athugunar, skorti aðstöðu til að gera sér grein fyrir samræmi og eðlilegu hlutfalli þess, hve mikla áherzlu beri að leggja á lánveitingar í einu skyni eða öðru. Ef þessi till. næði samþykki, sem ég vona, væri þegar hægt að hefjast handa, og lægju þá einnig fyrir til athugunar þær tillögur, sem hér hafa verið fluttar um þetta. Upplýsingar liggja fyrir í sumum atriðum, og geta menn því gert sér ljóst, hve mikla áherzlu beri að leggja á einstaka þætti bygginga. Ég hygg, að fyrst beri að efla þá þætti, sem miða að því að útrýma heilsuspillandi húsnæði. En þó má ekki ganga fram hjá öðrum þáttum. Einnig verður að gefa meiri gaum að aðstöðu ungs fólks til að stofna sér heimili. Ég hygg því mjög æskilegt fyrir alla aðila, að þessi tillaga nái skjótri afgreiðslu og gengið verði rösklega að því að undirbúa frv. í málinu. Og eftir því sem ég hef rætt við hlutaðeigandi ráðherra, hef ég þá hugmynd, að það muni fá góðar undirtektir þar. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á að hraða málinu sem mest og beini því til hæstv. ríkisstj., sem við flm. vitum að er málinu fylgjandi í aðalatriðum, að hún láti það til sín taka og styðji að framgangi þess. Og þar sem við vitum, að málinu er vel tekið af hálfu ráðh. og mikill áhugi er fyrir því hjá mörgum þm., kannske öllum, þá vona ég, að það hljóti skjóta afgreiðslu.