31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þar sem við í minni hl. n. höfum ekki getað fallizt á sjónarmið meiri hl. um að samþ. till. óbreytta, heldur talið rétt að vísa henni frá með rökstuddri dagskrá, vil ég gera nokkra grein fyrir afstöðu okkar. Ástæðan til þessa er þó ekki sú, að við í minni hl. séum á neinn hátt á máti útvegun lánsfjár til þeirra framkvæmda, er í till. greinir. Hitt er annað mál, að við teljum ekki þessa till. til þess fallna að flýta fyrir framgangi þessa máls.

Á þessu þingi hafa fram komið till. frá öllum flokkum um að leysa þessi vandamál með lánsfjárskortinn. Þó ber því ekki að leyna, að til eru nægileg lög um þessa starfsemi. Það er aðeins féð til að veita þessi lán, sem vantar. Árið 1946 voru einmitt sett lög um þetta efni. Þessi l. eru í þremur köflum. Fjallar 1. kafli um verkamannabústaði, II. kafli um byggingarsamvinnufélög og III. kafli um íbúðabyggingar sveitarfélaga. Í l. þessum er gert ráð fyrir. að sveitarsjóðir og ríkissjóður veiti byggingarsjóði verkamanna fé, en aðalfjármagnið er þó gert ráð fyrir að sé lánsfé. Það er þetta lánsfé, sem nú skortir. Þá er og gert ráð fyrir, að engir aðrir en félög geti fengið lán úr byggingarsjóði verkamanna. Lánsfé í þessum sjóði voru tiltölulega góð. Í fyrsta flokki (A) skyldi lána allt að 90% kostnaðarverðs til 75 ára, í B-fl. 85% til 60 ára og í C-fl. 85% til 42 ára. III. kafli þessara laga er sérstakur. Hann fjallar um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Í þessum kafla er ríkinu gert að skyldu að lána sveitarfélögum 75% kostnaðarverðs íbúðabygginga í þessum tilgangi til 50 ára gegn 3% vöxtum. En þessi kafli hefur aldrei komið til verulegra framkvæmda, vegna þess að stuttu seinna var honum frestað með lögum, og hafa frestunarákvæði hans ekki fengizt afnumin þrátt fyrir það að tvisvar eða þrisvar hafa verið bornar fram till. um það. Hitt liggur ljóst fyrir, að ástandið nú er þannig, að ómögulegt er að fá lán, þar sem lög eru þó fyrir hendi um slíka lánastarfsemi, þar sem lögin um byggingarsjóð verkamanna eru. Auk þess má benda á, að þótt byggingarfélögum væri tryggt fé til starfsemi sinnar, eru ekki allir sem njóta þeirra, þar sem fjöldi manna kæmi ekki undir ákvæði þeirra.

Okkur, sem erum í minni hl., fannst, að þessi till. mundi fremur tefja en flýta fyrir lausn málsins. Í frv. frá þremur þm. sósíalista á þskj. 34 er till. okkar til að leysa úr vanda þeirra, er eigi komast undir ákvæði lánastarfsemi byggingarsjóðs verkamanna. Ég hef orðið þess var, að síðan þetta frv. kom fram, hefur verið mikið um það rætt og mikið spurt um, hvort það muni verða samþ. Mun mikill fjöldi manna telja, að verði það gert, séu með því leyst vandræði þeirra. Á þskj. 53 er annað frv. um, að ríkissjóður tryggi sölu skuldabréfa byggingarsjóðs verkamanna. Þá er einnig á þskj. 56 frv. um óafturkræft framlag úr ríkissjóði eða mótvirðissjóði til bygginga kaupstaða og kauptúna. Öll þessi frv. teljum við stefna að því að leysa þetta mál og teljum mun betri lausn felast í samþykkt þeirra en þáltill. þeirrar, sem hér er til umræðu.

Hvað snertir skýrslusöfnun um lánsfjárþörfina er óhætt að fullyrða, að sé slík skýrslusöfnun nauðsynleg, má fela hana venjulegri þingnefnd, auk þess sem allir vita, að slík skýrslusöfnun er óþörf, þar sem ekki er lengi verið að athuga ástandið í þessum málum.

Þá er annað, sem nefnt er í þessari till., og það er það, að ástæða sé til að hefja rannsókn á lánastarfsemi, eins og hún hafi verið undanfarið, að safna ýtarlegum skýrslum um lánveitingar til íbúðabygginga og leggja fyrir þingið tillögur til úrbóta. — Hvaða stofnanir eru það, sem fyrst og fremst er um að ræða að geti og muni lána á næstu árum til íbúðabygginga, fyrir utan byggingarsjóð verkamanna, byggingarsjóð samvinnubygginganna og bankana? Ég get gefið upplýsingar um það, að lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóður barnakennara og lífeyrissjóður ljósmæðra og hjúkrunarkvenna munu alls hafa möguleika til þess að lána um 9 millj. kr. á næstunni. En þess ber að gæta, að úr þessum sjóðum fá ekki aðrir lán en þær stéttir, sem að þessum sjóðum standa. Þessir sjóðir, þótt þeir hafi þetta fjármagn til umráða, eru lokaðir öllum öðrum. Þess vegna geta þeir ekki leyst hina almennu lánsfjárþörf í þessu efni. Byggingarsjóður verkamanna á alls 27 millj. kr. til útlána og lánaði um 7 millj. kr. út á síðasta ári, hefur lánað út um 4 millj. kr. á þessu ári og er nú gersamlega þurrausinn.

Það virðist því ekki vera sérstök ástæða til að fara að setja í gang sérstaka nefnd, skipaða af ríkisstj., sem beinlínis virðist liggja í þessari till., til þess að hefja rannsókn í þessu máli. Það virðist vera auðvelt verk fyrir nefndir beggja hv. þd. Alþ., sem hafa til meðferðar frv. um þetta efni, að athuga þau atriði í þessum efnum, sem miða til þess að leysa þetta mál, þ. e. a. s. að fá upplýsingar, sem nauðsynlegar eru og á þarf að halda í sambandi við þetta, jafnframt því sem þær taka málin til athugunar og afgreiðslu. Þess vegna virðist mér, að þessi þáltill., ef samþ. verður, muni miklu fremur hafa þau áhrif að tefja raunhæfa afgreiðslu þessa máls heldur en hitt, og afgreiðsla hennar gæti líka orðið til þess að svæfa þau frv., sem nú liggja fyrir þinginu um málið og eru virkilegar, raunhæfar lausnir á málum þessum. — Þetta er skoðun okkar í minni hl. fjvn., og leggjum við því til, að till. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem er á þskj. 144.