31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það var nú ekki að ófyrirsynju, að þessi till. hefur orðið fyrir verðugu háði og spotti. Till. er ekki annars virði og ástæða til að gera henni þannig rækileg skil. Þetta er að mínu áliti till., sem eingöngu er flutt til þess að sýnast, sem á þó sízt við í sambandi við það alvörumál, sem hér er um að ræða, og sæmir sízt stærsta flokki þingsins að skjóta slíku örverpi hér inn í þingið. — Það var einhvern tíma flutt frv. hér á Alþ., sem almennt var nefnt „litla, ljóta frv.“ Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég las þessa till. Þetta er sannarlega lítil og ljót till. frá Sjálfstfl. í byggingarmálum landsmanna, og litla, ljóta tillagan mætti hún heita. Það er rétt, sem hv. 1. þm. N-M. sagði um þessa till., hún er endileysa, því að rannsókn á því, hvað hefur verið lánað út á undanförnum árum til íbúðabygginga, upplýsir ekkert um það vandamál, sem úr þarf að leysa í þessu efni, nefnilega hve mikið fé þurfi til þess að byggja fyrir nauðsynlegar íbúðir á næstu árum. Þar er ekkert samband á milli. Við vitum mjög vel, að það hefur verið ákaflega örðugt að fá lán til íbúðarhúsabygginga nú á síðustu tveimur til þremur árum. Og ef við vildum fá tölur til þess að glöggva okkur betur á þessu, þá hefði það verið hægur vandi fyrir þingnefnd í hv. Ed. og þingn. í hv. Nd. að hringja í Landsbankann og vita, hvað hann hafi mokað mörgum milljónatugum í þessa byggingarstarfsemi á undanförnum árum, og í Útvegsbankann og Búnaðarbankann og spyrja þá að því sama, fara til Tryggingastofnunar ríkisins og vita, hvað sú stofnun hafi lánað í þessu skyni, og sömuleiðis til lífeyrissjóðs embættismanna, lífeyrissjóðs barnakennara og annarra slíkra stofnana og vita, hvað þessar stofnanir hefðu lánað út á síðustu árum til íbúðarhúsabygginga. Vitneskja um þetta hefði getað legið fyrir á hæstv. Alþ. út frá venjulegu starfi þingnefnda. Og það er hjákátlegt að leggja til að samþ. þáltill. um að safna þessum skýrslum um lánveitingar til íbúðabygginga. Slík rannsókn er svo auðframkvæmd, að það þarf ekki að setja upp sérstaka nefnd til þess eða fela ríkisstj. að gera þetta. Og hæstv. ríkisstj. er að mínum dómi ekki líkleg til þess að safna upplýsingum um þetta, sem nefndir gætu ekki útvegað. En ef hins vegar ætti að hringja út um allt land og spyrjast fyrir hjá hverjum bæjarsjóði, hve margar milljónir króna þeir hafi lánað til þessara hluta á undanförnum árum, þá gæti svo farið, að sú vitneskja bærist ekki fyrir jól. Þó skilst mér það vera meiningin að ljúka þessu þingi fyrir jól, svo að þá kæmi þessi vitneskja ekki til okkar fyrr en þingi væri lokið, — og þá væri þungum steini létt af þeim flokki, sem engan áhuga hefur sýnt fyrir, að þetta mál verði leyst. — Loddarabrögðin á bak við þessa till. eru enn þá auðsærri, ef litið er á það, að hæstv. ríkisstj. eins og öðrum er fullkunnugt um, að byggingarstarfsemin í landinu á nú við hinar mestu lánsfjárhörmungar að stríða, og hefur þess vegna tekið byggingarmálin til rannsóknar með það fyrir augum að afla lánsfjár til örvunar byggingarstarfseminni. Þetta hefur verið upplýst af hæstv. fjmrh. Þegar Sjálfstfl. vissi, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að gera þetta, þá er hlaupið af stað af mönnum innan þess flokks með litlu, ljótu tillöguna, og til þess að hún geti orðið á undan frv. þeim, sem flutt hafa verið um málið hér á Alþ., er þingmaskínan látin snúast með óeðlilegum hraða til þess að afgr. þessa till. Síðan á svo að afgr. till. til þess að geta sett í Morgunblaðið með stórri fyrirsögn: „Á Alþingi í dag var tillaga Sjálfstæðisflokksins um úrlausn byggingarmálanna afgreidd.“ Síðan koma svo frv., sem þá verða af þessum flokki talin óþörf, þegar ríkisstj. hefur tekið upp málið og Sjálfstfl. beitt sér fyrir lausn málsins. Þetta eru alkunn loddarabrögð þessa flokks. Og mér virðist ekki ástæða til að láta hann komast áfram með þetta. Það er sagt og verður sagt í Morgunblaðinu, að það liggi fyrir þáltill. frá Sjálfstfl. um úrlausn byggingarmálanna og þegar hún verði samþ., sé málið leyst. Það er sagt frá þessari till. í því blaði eins og einhverjum allsherjar kína-lífselexir fyrir byggingarmálin og að vonandi sé, að Alþ. beri gæfu til að samþ. þessa till. sjálfstæðismanna, sem þeir eru að reyna að gera stóra í Morgunblaðinu, en er samt sem áður ekkert annað en litla, ljóta tillagan, annars staðar en í dálkum Morgunblaðsins. Byggingarvandamálið verður ekki leyst með 1ýðskrumi. Það er óhætt fyrir Sjálfstfl. og hæstv. ríkisstj. að bóka það. Og ég vona, að borgarstjóranum sé orðið það ljóst fyrir löngu, að ekki er hægt að leysa það með lýðskrumi. Þeir vita það, sem búa í bröggum, kjallaraíbúðum og öðru óviðunandi húsnæði í þessu landi, að húsnæðisvandamálin verða ekki leyst með lýðskrumi og hafa ekki verið. Hins vegar er það krafa þessa fólks til Sjálfstfl. og stjórnarfl. beggja og Alþ. í heild að taka á þessu máli með alvöru og röggsemi og leysa hvern þátt þess út af fyrir sig, þátt smáíbúðavandamálsins fyrir sig og einnig þátt byggingarfélaga verkamanna, sem geta ekki fyrir féleysi haldið áfram hálfgerðum verkamannabústaðabyggingum, sem standa undir skemmdum víðs vegar um land. Sama sagan er viðvíkjandi byggingarsamvinnufélögum. Það verður að hætta við hálfgerðar byggingar hjá byggingarfélögum verkamanna nú fyrir veturinn, þannig að byggingarnar liggja undir stórskemmdum, þó að meira að segja væri búið að lofa byggingarfélögum verkamanna ákveðnum upphæðum, t. d. byggingarfélagi verkamanna í Hnífsdal var búið að lofa 160 þús. kr. úr byggingarsjóði verkamanna til þess að koma upp tveimur íbúðum, en þegar svo búið er að kría út um 90 þús. kr. úr sjóðnum, þá getur hann ekki staðið í skilum, enda þótt menn, sem þarna eru að byggja, hafi lagt fram með skilum sín framlög. Þarna hafa byggingarframkvæmdirnar stöðvazt fyrir tveimur mánuðum. Og þannig er þetta víðar.

Auk þess, hve stirt hefur gengið um lánsfé til íbúðarhúsabygginga, er óviðurkvæmilegt og óþinglegt að vera að káka við svona mál og þykjast vera, að leysa málið með losaralegri, illa orðaðri, vanhugsaðri, efnislausri og samhengislausri þáltill., sem er enn þá bágbornara smíði heldur en þáltill., sem hæstv. viðskmrh. var hér nýlega að þvo hendur sínar af að hafa ekki framkvæmt með því að hafa ekki skilið efni hennar á þann sama veg sem allur þingheimur yfirleitt skildi þá þáltill., þegar hún lá fyrir. Það ætti að vera aðvörun um að afgr. ekki stórmál með þáltill., þegar við heyrum um, hvernig framkvæmdin var á þál. um jöfnunarverð á olíu og benzíni. Það var ekki ætlun þeirra, sem búa úti um landið og búa við hærra olíuverð en þeir, sem í Reykjavík eru, að það mál yrði leyst með skýrslugerð fjárhagsráðs. Málið er jafnóleyst eftir sem áður þrátt fyrir þær skýrslur, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér áðan. Byggingarmálin væru líka jafnóleyst, þótt allar hendur væru á lofti til þess að samþ. þessa vesölu till. Sjálfstfl. um byggingarmálin. Það var ætlunin með þáltill. um jöfnunarverð á olíu og benzíni í fyrra, að gerðar yrðu ráðstafanir af ríkisstj. til þess, að komið yrði jöfnunarverði á þetta, en ekki að fjárhagsráð gerði um þetta skýrslur. En þetta misskildi svo hæstv. ríkisstj. og hefur skotið sér undan framkvæmdum í samræmi við þá till., sem var samþ., og hún mun gera það, þangað til lög verða sett um jöfnunarverð á olíu og benzíni um allt land. Og sama gildir um jöfnunarverð á raforku um allt land o. s. frv. En landslýðurinn á heimtingu á að fá þessar nauðsynjar með sama verði hvar sem er á landinu, það er sannfæring mín. — Og hæstv. Alþ., það er nú situr, á að taka byggingarmálin föstum tökum með því að samþ. löggjöf, sem leysir úr vandamálum þeirra, sem ætla að byggja smáíbúðir og að miklu leyti gera það í aukavinnu — nætur- og helgidagavinnu — og skapa þjóðfélaginu verðmæti og nota betur sína vinnuorku en af þeim er krafizt. Og það á að hjálpa verkafólki til þess að koma upp byggingum samkv. l. um verkamannabústaði og samkv. samvinnubyggingarfélagalögunum. Og það liggja nú frv. fyrir Alþ. um þetta allt. Ef hæstv. ríkisstj. vill umbæta þetta eitthvað, ætti að fela einhverjum nefndum að vinna þessi frv. saman í samfelldan lagabálk, þar sem tekið væri föstum tökum á öllum þáttum byggingarmálanna. En þáltill. þessi ætti bara .að liggja í skjölum þingsins til merkis um það, hvernig menn hlaupa stundum til og flytja till. í lýðskrumsskyni og engum öðrum tilgangi. — Í viðræðum fjvn. við hæstv. fors.- og félmrh. hér á dögunum tók hann fram, að hann teldi nú till. þessa fremur veigalitla og þýðingarlitla fyrir framkvæmd málsins, en sagði, að rannsókn yrði að sjálfsögðu sett í gang um það, hve mikið hafi verið lánað til byggingarframkvæmda á yfirstandandi ári, ef till. yrði samþ., og hann sagði, að það gæti tekið nokkuð langan tíma að fá fullnægjandi vitneskju um það, ef ætti að framkvæma þá rannsókn nákvæmlega. Hann sagði, að það yrði ekki gert annað af hendi félmrn. en að rannsaka þetta út frá því, að till. yrði samþ. Hins vegar hefði ríkisstj. að öðru leyti í heild haft þetta mál til umhugsunar og aðgerða, .allt frá því þetta þing tók til starfa. Og það væri það helzta að minni hyggju í sambandi við lausn þessa máls, að í samræmi við það, sem kæmi frá hæstv. ríkisstj. um málið, ætti að sníða löggjöf á þessu þingi um þetta úrlausnarefni.

Ég er því á móti þessari till., af því að ég þykist sjá í henni eingöngu látalæti, sem eru alls óviðeigandi í sambandi við svo alvarlegt mál sem þetta. Ég geri mér engar vonir um, að till., þótt samþ. yrði, mundi leiða til neinnar lausnar á málinu, og tel sjálfsagt, að hæstv. Alþ. vísi henni frá með rökst. dagskrá sem þýðingarlausu plaggi, en leggi aftur kapp á að leysa málið með löggjöf. Og drög til þeirrar löggjafar virðast mér liggja fyrir í a. m. k. þremur frv., sem nú liggja fyrir á Alþ., sem — ef þau falla ekki stjórnarflokkunum og hæstv. ríkisstj. í geð — væri unnt að breyta eftir till. ríkisstj.