31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. meiri hl. fjvn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli af sinni hendi og till. n. um, að sú till., sem hér liggur fyrir, verði samþ. — Varðandi nál. hv. minni hl. fjvn., þá legg ég lítið upp úr þeim röksemdum, sem þar er haldið fram. Og það er augljóst, að mest af þeim er sett fram til þess að sýnast, eins og reyndar margt af því, sem sagt var af hv. frsm. minni hl. n. hér nú í umr. um málið. Ég verð að segja það, að till. hefur heldur vaxið í mínum augum eftir þær undirtektir, sem hún hefur fengið hér, sérstaklega hjá hv. 6. landsk. þm. Og ég held, að af þeim ofsa, sem fram kom í ræðu hans, þá skilji menn, að hér er einmitt raunverulegt mál á ferð, sem er líklegt til þess að bera einhvern árangur. — Og viðkomandi fulltrúa kommúnista í fjvn., þá er það í samræmi við kommúnismann yfirleitt að miða sitt starf og till. við það, að enginn árangur náist til úrbóta í húsnæðismálum fremur en í öðrum málefnum þjóðfélagsins. Þeirra starf miðast við að koma þannig ár sinni fyrir borð, að sem mest tefji fyrir úrbótum og raunverulegum framkvæmdum. Í þeim jarðvegi vex kommúnisminn. Í því ljósi skil ég annan frsm. minni hl., hv. 5. landsk., náttúrlega vel eftir stefnu hans flokks. Og hv. 6. landsk. er alltaf í töluverðri hættu fyrir því að smitast nokkuð mikið af kommúnistum. Stundum batnar honum þetta nokkuð eins og sjúklingi, sem eðlilega fær bata við og við, en svo slær honum niður aftur. Og það er eitt af því leiðinlegasta í fari þessa hv. þm., hvað honum slær oft niður fyrir áhrif frá kommúnistum, og það hefur komið fram í sambandi við umr. um þessa till.

Það er talað um, að þessi till. sé flutt til þess að sýnast. Við skulum tala varlega um, að mál séu flutt til þess að sýnast. Þessi þáltill. kom fram í þingbyrjun, en eftir að þessi till. kom fram í þinginu, kom mikill fjörkippur í flutning frumvarpa um útvegun lánsfjár til íbúðabygginga. Og ég er ekki viss, nema þessi fjörkippur sýni hjá sumum hv. þm. nokkuð leiðinlega tilhneigingu til að sýnast fremur en að vera. Það er talað um, að þessi till. sé flutt til þess að sýnast og muni ekkert raunhæft hafa í för með sér og að það eigi að samþ. þau frv., sem fyrir Alþ. liggja um lánsfjáröflun, með eða án breytinga. Er það ekki meira að sýnast að tala svona? Eitt af þessum frv. er um að láta koma til framkvæmda ákveðin lög um aðstoð þess opinbera við byggingar íbúðarhúsa, sem fela það í sér, að ríkið eigi að tryggja 85% eða meira af kostnaðarverði þessara bygginga. Þessi ákvæði voru tekin í lög í bjartsýni, þegar peningaveltan var hér mikil. En því miður hefur ekki reynzt hægt að framkvæma þessi lög. Og þegar flokkur hv. 6. landsk. þm. var í ríkisstjórn, var það hans fyrsta verk að fresta framkvæmd þessara laga. Og ég held, að þm. muni sannfærast um, að þetta sé ekki hægt. Í nál. minni hl. er líka á þetta minnzt, en þar segir orðrétt: „Þótt oft hafi verið fluttar á Alþingi tillögur um afnám þessara frestunarákvæða, hafa þær enga áheyrn fengið.“ En heldur þá hv. 6. landsk., að nú hafi skapazt eitthvert nýtt viðhorf, sem létti þetta mál? Ég held, að ef hann hefði athugað þetta mál gaumgæfilega, þá mundi hann sjá, að það þarf margt til, að hægt sé að taka upp löggjöf sem þessa. Hv. 6. landsk. taldi enn fremur, að stefna bæri að því að vinna saman frumvörpin. Með þessari till. má einmitt stefna að því að vinna þau saman, því að hún stefnir að því að útrýma heilsuspillandi húsnæði og miðar þar við fjárhagsgetu, og ég benti á það áður, að þessi málsmeðferð er líklegust til að skila nokkrum árangri.

Hv. 1. þm. N-M. taldi, að till. væri illa og heimskulega orðuð. Og hann flytur till. til breytinga, þar sem gert er ráð fyrir því, að safnað verði ekki skýrslum um lánveitingar, heldur lánsfjárþörf. En þessi till. gerir ráð fyrir, að fyrir liggi ýtarlegar skýrslur um þörfina, og það er vitað að þær liggja fyrir hér í Reykjavík, og það hlýtur að vera hægt að afla sér upplýsinga frá öðrum bæjarfélögum, sem óska eftir byggingum. Í grg. fyrir þessari till. er vísað til þeirrar till., sem við flm. þessarar till. fluttum á síðasta þingi, en varð ekki afgreidd, því að stjórnin var þá ekki búin að undirbúa afgreiðslu málsins. Í þeirri till. er vitnað til mjög ýtarlegra skýrslna um húsnæðismálin í Reykjavík 1947 og 1948, og þar er því haldið fram, að byggja þurfi 500 —600 íbúðir á ári til þess að útrýma bragga og kjallaraíbúðum. Það leiðir því af þessu, að till. hv. 1. þm. N-M. er óþörf. Það kemur fram í hinum mörgu till., hve lánsfjárþörfin er mikil, og það munu liggja fyrir skýrslur um það, hve brýn nauðsyn er á lánum í þessu skyni, og ætti því að vera hægt að gera sér grein fyrir, hvað mikið þurfi. En okkur flm. þessarar till. er það mikið í mun, að það verði ekki fellt niður úr till., að safnað verði skýrslum um það, hve lánveitingar hafa verið miklar. því að það mun upplýsa, hve þörfin er brýn, og ætla ég, að þm. muni átta sig á því.

Hv. 6. landsk. þm. sagði, að forsrh. hefði gefið upplýsingar um, að ríkisstj. væri að láta athuga um úrbætur í þessu efni. Þetta gleður mig, og ég vona, að til raunhæfrar athugunar komi. Ég hygg, að þar muni verða miðað við það, að hve miklu leyti tekjuafgangur ríkissjóðs geti bætt úr þessari þörf, en það sjá allir menn, að hann einn verður ekki til frambúðar og fullnægir þessari till. engan veginn. — En þessi till. leggur einnig til, að lagðar verði fyrir þingið till. til að fullnægja eðlilegri lánsfjárþörf til að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Og þó að vonir standi til, að einhver afgangur verði til að greiða úr brýnasta vandanum, þá er þar ekki það fjármagn, sem hægt er að miða við, svo alvarlegt sem málið er.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég þakka meiri hl. fjvn. fyrir afgreiðslu hans á þessu máli og treysti honum til að tryggja rétta afgreiðslu þessarar till.