31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3087)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Hannibal Valdimarsson:

Það er mikill misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv., ef hann heldur, að ég telji þessa till. hans umræðuverða. Það er langt frá því, að ég telji, að hún sé þess virði. En hins vegar tel ég, að byggingarvandamálin í sjálfu sér séu vel einnar messu virði. Ég hef talað hér um þessa till. vegna málsins sjálfs, en ekki vegna þessarar till. Hann sagði, að ég væri smitaður af kommúnisma, og virtist hafa þungar áhyggjur af pólitísku heilsufari mínu. Þetta er nú alveg óþarfi fyrir hv. þm. En það er um þennan hv. þm. að segja, að hann þjáist af banvænni bakteríu íhaldsseminnar og hann hlýtur að bíða pólitískan dauðdaga af þeim sjúkdómi fyrr en síðar. Það má víst benda honum á það, að hann telur, að eymdarkjör fóstri bezt kommúnisma. Gerum nú ráð fyrir því, sem ekki er neitt óeðlilegt, að aðaláhrifasvæði mitt sé á Vesturlandi, en hins vegar aðaláhrifasvæði hv. þm. sé í Reykjavík. Hvar er eymdin mest, og hvar dafnar kommúnisminn bezt? Jú, hv. þm., það er í Reykjavík. Jafnvel í allri þeirri eymd, sem kann að vera á Vesturlandi, dafnar kommúnisminn ekki eins vel og hjá hv. þm. sjálfum. Ég held, að það væri hollt fyrir hv. þm. að hugleiða þessa staðreynd, áður en hann fer að hafa miklar áhyggjur af mér í sambandi við kommúnisma.

Hv. þm. var enn fremur að reyna að gera úlfalda úr mýflugunni, reyna að gera eitthvað stórt úr þessari till. og gera hana að móður allra tillagna um byggingarmál. — Þetta er líka mesti misskilningur hjá hv. þm. Alþfl. flutti í fyrra till. um að efla byggingarsjóð verkamanna, og það horfir undarlega við, ef till., sem flutt var í fyrra, er afkvæmi þeirrar till., sem flutt er í ár, en svona sýnist þetta vera eftir skýringum hv. þm. Og í ár fór Alþfl. af stað með frv. sitt og því var útbýtt sama daginn og þessari till. Þessi till. er því ekki móðir þeirra frv., sem fram hafa komið um þessi mál, heldur eru það byggingarvandamálin, sem aldrei hafa risið jafnmikið í fang og nú. Og þessi frv. eiga meiri hluta hér á þingi, og þau munu ganga í gegn, ef þau verða ekki beitt óþinglegum aðferðum, og þar er þessi till. ein tilraunin.

Þá minntist hv. þm. á það, að illa hefði til tekizt í stjórnartíð Stefáns Jóh. Stefánssonar. þegar frestað var framkvæmd á III. kafla laganna um heilsuspillandi húsnæði. Það er nú þó það að segja um þessi lög, sem sett voru að frumkvæði þáverandi félmrh., Finns Jónssonar, að þau hafa, þar sem ég þekki bezt til, á Ísafirði, veitt mönnum 12 eða 14 íbúðir, meðan þau voru í gildi. En hitt er svo annað, að þessum kafla laganna var frestað að kröfu þáverandi fjmrh., Jóhanns Jósefssonar. (Dómsmrh.: Þetta er ósatt.) Það var á þingi, að þessi kafli laganna var felldur niður að kröfu þáverandi fjmrh., Jóhanns Jósefssonar, og mér er nær að halda, að hv. þm. hafi vitað um þetta og þó ætlað þetta til árása á Stefán Jóh. Stefánsson.

Meginefni till. þessarar er um það, að rannsókn fari fram á því, hve mikið hefur verið lánað til íbúðabygginga á síðustu árum. Í nál. segir svo um þetta meginefni: „Undirritaðir“ — þ. e. meiri hv. fjvn. — „telja, að húsnæðisskorturinn sé nú þegar svo alvarlegt vandamál, að nauðsynlegt sé að gera sem fyrst ráðstafanir til þess að létta fjárhagslega undir með þeim, er í byggingar ráðast. Rannsókn þeirri, sem tillagan gerir ráð fyrir, er ætlað að sýna, hvernig komið er aðstöðu manna til að fá lán til íbúðabygginga.“ — Það vita allir, hvernig þetta stendur og hvað þetta er orðið alvarlegt mál, og það verður það meðan einstaklingum er meinað að byggja af fjárhagsráði og bönkunum. Nei, þó að þetta liggi allt tölulega fyrir, er það engin úrbót á þessum vanda. Rannsókn er óþörf. Við vitum, að það rætist ekkert úr fyrir hana. Það verður með það eins og jöfnunarverðið á olíum og benzíni, ástandið breytist ekkert við það, þó að safnað sé skýrslum. Það eru ekki skýrslur, heldur framkvæmdir, sem við þurfum.

Hv. þm. sagði, að við vissum, að það vantaði ekki aðeins lán, heldur og íbúðir í Reykjavík, og hann gerir sér vitanlega grein fyrir því, að hið sama er ástandið úti um allt land. Þar er margur moldarkofinn að hrynja niður, og í Reykjavík er margt hreysið að fjúka. Um þetta allt þarf engar skýrslur, heldur aðgerðir.

Hitt vill Alþingi fá að vita, hvað ríkisstj. treystir sér til að veita margar millj. til þess að byggja verkamannabústaði og hvað margar millj. til þess að byggja fyrir smáíbúðir.

Hafa þm. fengið að vita það, eftir að þessi till. hefur verið samþykkt, ef það verður gert? Nei, það er allt jafnlaust í reipunum fyrir því, allt jafnóáþreifanlegt. Till. er nefnilega ekki neitt og fjallar því ekki um neitt. (JóhH: Hún fer þó í skapið á hv. þm.) — Ég held, að flm. þessarar till. mættu verða því fegnastir, ef henni væri vísað frá.