05.10.1951
Neðri deild: 4. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

17. mál, varnarsamningur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég mun gera að umræðuefni þá aðferð, sem höfð hefur verið við gerð þessa samnings, og síðan ræða samninginn sjálfan.

Þegar þessi samningur var gerður í sumar, var sá háttur á hafður að kalla saman nokkra þm. úr stjórnarflokkunum. Nú vil ég taka það fram strax, að til þess að gera samning eins og þennan þurfti samkvæmt stjórnarskránni að kveðja saman Alþ. til þess að taka ákvörðun fyrir fram. En 21. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Engum manni blandast hugur um, að með þessari samningsgerð er verið að setja Íslandi kvöð og því ber að kveðja Alþ. saman til þess að ákveða, hvað gera skuli í slíku máli, og samkvæmt lögum ber að kalla saman utanrmn. og leggja málið fyrir hana. Lögbrot þetta er því meira en aðeins lögbrot. Það er því líka stjórnarskrárbrot, þar sem Alþ. var ekki kvatt saman. Atlantshafssamningurinn gefur enga heimild til þessa, enda mælir stjórnarskráin svo fyrir, að samþykki Alþ. skuli koma til. Það, sem hefur gerzt, er raunverulega stjórnlagarof og stjórnarskrárbrot af hálfu ríkisstj. En það er eins og hæstv. ríkisstj. hafi haft það á tilfinningunni, að hún væri að brjóta stjórnarskrána, og ætlað að afsaka sig með því að kalla nokkra af þingmönnum saman. En samkoma nokkurra þingmanna í stað Alþ, nær vitanlega ekki nokkurri átt. Hæstv. utanrrh. ritaði stjórnlagafræði meðan hann var prófessor. Þar segir á bls. 18:

„Áhrif þingslita eru fyrst og fremst þau, að ályktanir þingmanna, sem gerðar eru eftir það, en áður en þing kemur saman á ný, eru mark lausar, þótt gerðar væru með sama hætti og á löglegu þingi. Með þessu er auðvitað ekkert sagt um pólitískt gildi slíkra ályktana, en formlegt gildi þeirra er ekki neitt.“

Það er engum blöðum um það að fletta, að samkoma sú, sem átti sér stað í alþingishúsinu í sumar, var algerlega marklaus og lagalegt gildi hennar ekki neitt. En svo 7. maí gefur hæstv. ríkisstj. út tilkynningu svo hljóðandi:

„Samningsgerðinni er nú lokið, og höfðu allir þingmenn lýðræðisflokkanna þriggja, 43 að tölu, áður lýst sig samþykka samningnum, svo sem hann nú hefur verið gerður. Utanríkisráðherra Íslands hefur þess vegna í umboði ríkisstjórnarinnar undirritað samninginn af Íslands hálfu hinn 5. maí s.l., og var samningurinn sama dag staðfestur í ríkisráði af handhöfum valds forseta Íslands, svo sem lög standa til.“

Þegar hæstv. ríkisstj. segir, að hún hafi fyrir hönd Alþ. undirritað samninginn, þá sýnir það, að ríkisstj. grunaði, að hún ætti að leita samþykkis Alþingis, áður en undirritun færi fram. En í stað þess að leita samþykkis Alþingis leitar hún samþykkis einstakra alþingismanna. Hana langar til þess að tryggja, að samþykkt geti farið fram, með því að kalla saman nokkra þingmenn, til þess að koma ábyrgðinni yfir á vissa alþingismenn. Hæstv. ríkisstj. hefur hér framið og látið fremja stjórnarskrárbrot. Flestir alþingismenn samþykktu þetta fyrir fram, og þannig var komizt hjá umræðum á Alþ. En þetta er bara ólögleg aðferð. Hæstv. utanrrh. virðist hafa haft þetta á tilfinningunni áðan, þegar hann sagði, að nú ætti Alþingi þess kost að fella eða samþykkja þetta mál, og ef svo málið yrði samþykkt, þá væri ekki hægt að rengja, að samningurinn væri orðinn að lögum. Ég ætla þó að halda því fram, að svo sé ekki. Hér hefur verið beitt ofbeldi við Alþ. með köllun erlends hers inn í landið, án þess að fyrir því væru nokkur gildandi lög. Það hefur verið gerður samningur við voldugt erlent herveldi, og það erlenda herveldi mun vafalaust standa á þeim rétti, sem því er gefinn með því, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert. Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstj. er búin með lögbroti gagnvart Alþ. að gefa erlendu ríki viss réttindi gagnvart Íslandi og leggja vissar kvaðir á Íslendinga vegna þessa samnings. Ég þekki þá illa Bandaríkin, ef þau halda ekki fast á þeim samningi, sem þau hafa nú gert við ríkisstj. Íslands, og heimta hann framkvæmdan. M.ö.o., það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, er að stilla Alþ. upp fyrir framan gerðar staðreyndir, en ekki til þess að taka frjálst og óbundið ákvörðun um óorðna hluti. Það þýðir, að aðstaða Alþ. er algerlega ólík. Það er búið að binda Ísland með þessum samningi því erlenda ríki, sem um ræðir. Það er hægt að lýsa ríkisstj. ómerka gerða sinna. En það er erfitt fyrir hvern einstakan þingmann, sem nú kynni að vilja taka ákvörðun í þessu máli eftir á. Hann er í rauninni ófrjáls maður að taka ákvörðun. Hann er þá e.t.v. að lýsa þá ríkisstj., er hann fylgir, ómerka gerða sinna, og þá yrði sagt við hann: „Ætlar þú að fara að gerast kommúnisti? Ætlar þú að fara að rísa upp á móti Bandaríkjum Norður Ameríku?“ Við þekkjum þetta mjög vel. En hæstv. ríkisstj. þykir þessa við þurfa og þorði ekki að fara aðra leið en þessa. Þetta vil ég taka fram, vegna þess að ég álít þennan samning eingöngu gerðan lagalega og siðferðislega á ábyrgð hæstv. ríkisstj., og þótt hún neyði meiri hluta alþm. nú eftir á undir vilja sinn, álit ég þennan samning ekki bindandi fyrir Ísland, því að brögðum hefur hér verið beitt til að knýja fram vilja Bandaríkjanna. Þetta vildi ég segja viðvíkjandi samningsgerðinni sjálfri. Ríkisstjórn Íslands stendur með herveldi Bandaríkjanna bak við sig gegn íslenzku þjóðinni. Hún stillir Alþ. og þjóðinni upp fyrir framan gerðar staðreyndir og heimtar, að menn krjúpi því valdi á eftir.

Ég skal ná ræða þennan samning sjálfan og þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir honum. Ég vil geta þess út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að Atlantshafssáttmálinn veitti ríkisstj. rétt til að gera þennan samning, að það fer mjög í bága við það, sem hann segir í Morgunblaðinu 22. marz Í949 um yfirlýsingu ríkisstj. Þá segir hann:

„Við skýrðum rækilega sérstöðu okkar sem fámennrar og vopnlausrar þjóðar, sem hvorki gæti né vildi halda uppi her sjálf, og mundum því aldrei samþykkja, að erlendur her né herstöðvar væru í landi okkar á friðartímum.“ Og síðar: „Er því allur ótti um það, að fram á slíkt verði farið við okkur, ef við göngum í bandalagið, gersamlega ástæðulaus.“

Ég vil minna á þetta af því, að þau rök, sem notuð hafa verið hér á landi síðastliðin fimm ár, hafa alltaf verið þau, að það eina, sem Íslendingar gætu verið öruggir með, væri, að ekki yrði hér herstöð á friðartímum. En grímunni var kastað þegar þessi hersamningur var gerður. Þá var herveldi Bandaríkjanna látið tala.

Rökin, sem færð eru fyrir samningnum, eru þau, að útlitið í alþjóðamálum sé svo alvarlegt og staða Íslands slík, að nú verði að kalla her inn í landið. Svo framarlega sem menn ætla að fara inn á það að telja ófriðarástand í heiminum, af því að styrjöld er í Kóreu, þá vil ég spyrja: Hvenær eru þá friðartímar? — Síðustu hundrað árin hefur varla liðið svo heilt ár, að ekki hafi verið háður ófriður einhvers staðar í veröldinni af Englendingum, Frökkum, Hollendingum, Belgum eða öðrum nýlenduríkjum. Það hefur varla liðið svo ár, að eitthvert þessara ríkja hafi ekki átt í árásarstyrjöld; sem þau hafa komið af stað í Afríku eða Asíu eða annars staðar í heiminum. Þau hafa átt í árásarstyrjöldum úti um alla veröld með þeim afleiðingum og með það í huga að drottna í veröldinni. Ég get vel skilið, að hæstv. ráðh. geri sér ekki grein fyrir þessum staðreyndum sögunnar. Það er ekki svo langt liðið síðan hann skoraði á mig hér á Alþ. að nefna þó ekki væri nema eitt dæmi um, að lýðræðisríki hefði nokkurn tíma framið árásarstríð, og ég var neyddur til að gefa honum tíma í mannkynssögu hér á Alþ. Það er nokkuð undarlegt, að slíkir menn skuli finnast hér á Alþ. Það er eins og hann hafi ekki minnstu hugmynd um nokkurn skapaðan hlut af því, sem gerzt hefur í sögu mannkynsins síðustu aldirnar, og geti ekkert lært af þeirri reynslu, sem sagan hermir okkur, hvernig þessi lýðræðisríki Vestur Evrópu hafa brotið undir sig heiminn á síðustu öldum. Það, sem nú er að gerast í veröldinni, er sá atburður, að þjóðir, sem búnar eru að vera nýlenduþjóðir, sumar um aldir, eru að rísa upp og heyja sína sjálfstæðisbaráttu á sama hátt og við Íslendingar. Svo framarlega sem þær hafa ekki eins góða aðstöðu og við höfðum, þá verða þær að heyja hana með vopnavaldi eins og Bandaríki Norður-Ameríku urðu að gera, þegar þau risu upp á móti Bretum. Sagan síðustu 150 árin hefur verið saga um uppreisnir þessara nýlenduþjóða móti þjóðum Vestur-Evrópu og móti lýðræðisríkjum heimsins. Þessar nýlenduþjóðir eru að berjast fyrir því að ráða yfir sínum auðlindum, og við Íslendingar höfum haft samúð með þessum þjóðum allan þann tíma, sem við höfum barizt fyrir okkar frelsi. Ef hv. alþm., sem nú eiga að dæma um þetta mál, hefðu gert sér far um að lesa erlendar fréttir og íslenzk tímarit undanfarna öld, þá mundu þeir sjá, að hjarta Íslands hefur ávallt slegið með þeim þjóðum, sem barizt hafa fyrir sínu sjálfstæði. Það hefur hver nýlenduþjóðin á fætur annarri risið upp á móti hinum voldugu menningar- og lýðræðisþjóðum VesturEvrópu, á sama hátt og Íslendingar háðu sína sjálfstæðisbaráttu gegn Dönum, og á sama hátt skiljum við, að þessar þjóðir eru að berjast fyrir sínu frelsi og eru að því enn í dag. Og það, sem gerir þennan mun móts við það, sem gerðist fyrir öld, það er, að þessar þjóðir eru stoltari í frelsisbaráttunni heldur en fyrr. Asíubúar eru að hrista af sér ok Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna og koma til með að hrista það af sér, þótt hæstv. utanrrh. reyni að hræða íslenzka þm. með því, hvað það sé ægilegt, að Asíubúar skuli vera að gera kröfu til þess að eiga þessar ríku auðlindir. Það er hins vegar skiljanlegt, að sá utanrrh., sem sjálfur slakar til og afsalar réttindum Íslendinga í þeirra sjálfstæðisbaráttu og yfirráðum yfir landhelginni, ávíti Persa fyrir að heimta réttinn yfir auðlindunum í eigin hendur. Svo framarlega sem þau rök eiga að standast, að nú séu ófriðartímar, af því að þjóðir Asíu eru að varpa af sér kúgun Bandaríkjanna, þá má búast við ófríð alla þessa öld. Þjóðir Afríku, sumar, eru líka að rísa upp, og þjóðir Suður-Ameríku ern að hrista af sér gullok Bandaríkjanna. Það verður haldið þannig áfram, jafnvei í heila öld. Það getur tekið áratugi fyrir þessar þjóðir að varpa af sér okinu, og eigum við Íslendingar að telja, að allan þann tíma skuli amerískur her vera hér á Íslandi? Ég vil vekja eftirtekt á því, að svo framarlega sem þau rök, sem hæstv. ríkisstj. færir fram, eiga að standast, þá þýðir það, að hér eigi að vera amerískur her um ófyrirsjáanlegan tíma á friðartímum. Hér var það greinilegt, þegar hæstv. utanrrh. flutti sitt mál, að það er trúaratriði fyrir honum, að það sé óhugsandi, að þjóðir eins og Bandaríkin, Bretland, Holland og Frakkland heyi árásarstríð, — það sé útilokað. Þó eru ekki meira en tvö ár síðan Sameinuðu þjóðirnar lýstu Holland árásarríki, en staðreyndir koma þessu máli ekkert við, því að það er trúaratriði, að þessi ríki séu ekki árásarríki. Þetta eru rök, sem ætlazt er til að þm. fallist á — og fallist á með þeim forsendum, að utanrrh. lýsi yfir, að þó að Alþ. kæri sig ekki um að samþykkja samninginn, þá hafi ríkisstj. fullan rétt til að gera hann og ríkisstj. mundi gera hann, þó að Alþ. felldi hann. M.ö.o., ríkisstj. tæki ekkert tillit til þess, sem Alþ. segði, því að hún semdi við herveldi Bandaríkjanna og gæti gert það, sem henni sýndist. Það er hins vegar ekki úr vegi að minnast á það um leið, þegar rætt er um það, hvort friðartímar eða ófriðartímar séu, að Alþingi Íslendinga hefur áður en ríkisstj. gerði þennan samning tekið sínar ákvarðanir einróma um, hvað gera skuli, þótt ófriðartímar væru að áliti Sameinuðu þjóðanna. Þegar Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar, þá var það gert að meginskilyrði, með samþykki utanrmn., frá Íslands hálfu, að Ísland væri ekki skyldugt til þátttöku í styrjöld, sem jafnvel öryggisráðið og þá stórveldin fimm væru sammála um að heyja. En í nál. utanrmn. segir:

„Einna þýðingarmest ákvæðanna um skyldur og kvaðir er 43. gr. sáttmálans. Sú grein áskilur meðlimum samningsrétt við öryggisráðið um kvaðir samkvæmt greininni, og leggur n. þann skilning í ákvæðið, að engar slíkar kvaðir sé unnt að leggja á íslenzka ríkið, nema að fengnu samþykki þess sjálfs. Íslendingar eru eindregið andvígir herstöðvum í landi sínu og munu beita sér gegn því, að þær verði veittar.“

Þetta var yfirlýsing Alþ. frá 1946, undirskrifuð m.a. af Bjarna Benediktssyni, að Ísland mundi ekki veita neinar herstöðvar, ekki heldur Sameinuðu þjóðunum. M.ö.o., þetta var ekki aðeins yfirlýsing utanrmn. um, að Ísland mundi aldrei veita herstöðvar, — það lá fyrir yfirlýsing frá Alþ. um, að Ísland mundi ekki veita herstöðvar, ekki einu sinni á ófriðartímum. Þess vegna falla um sjálf sig öll þau rök, sem hér hafa verið flutt fram af hæstv. utanrrh. fyrir samþykkt þessa samnings og fyrir nauðsyninni á að gera hann.

Þá var því enn fremur bætt við af hæstv. utanrrh., að varnarleysið hér byði árásum heim. Það má ef til vill segja, að varnarleysi bjóði árásum heim. En ég vil segja hæstv. utanrrh. það, að sú árás hefur þegar verið framin, sem varnarleysið býður heim, og sú árás hefur verið gerð af hálfu Bandaríkjanna. Hins vegar vil ég segja það út af þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. utanrrh. gaf, að það væri frumskilyrði þess, að ríki gæti verið sjálfstætt, að það gæti varið land sitt, að ég neita því algerlega, að þetta sé frumskilyrði þess, að ríki geti verið sjálfstætt. Ég neita því, að það sé frumskilyrði fyrir rétti einnar þjóðar til þess að vera sjálfstæð, að hún sé fær um að vernda sitt land gagnvart hverjum sem er. Slík yfirlýsing er yfirlýsing um það, að Íslendingar geti aldrei og muni aldrei verða sjálfstæð þjóð. Það er vitanlegt, að Íslendingar geta ekki varið land sitt gegn árásum stórvelda, það þarf engum blöðum um það að fletta. En að halda því fram, að við getum ekki verið sjálfstæðir þess vegna, er sama sem að neita rétti okkar Íslendinga til þess að vera sjálfstæðir. Það er einkennandi í allri baráttu, sem háð hefur verið fyrir sjálfstæði Íslands, að það er byggt á réttindum Íslands samkvæmt gömlum samningum til að vera sjálfstæð þjóð, — það hefur verið hamrað á þessu með réttinn, samningsréttinn gagnvart öðrum, þótt sá réttur hafi verið brotinn á okkur öld eftir öld og traðkaður niður í svaðið. Við stóðum á þessum rétti. Af hverju? Vegna þess að við gátum ekkj staðið á valdinu. Við stóðum á okkar rétti vegna þess, að það var grundvöllur, sem við gátum staðið á, hvernig sem þeim rétti var misboðið af þeim stærri. Að halda því fram, að Íslendingar geti ekki verið sjálfstæðir, af því að þeir gátu ekki varið landið gagnvart Dönum, er sama sem að neita rétti okkar til að vera sjálfstæðir og sama og að halda því fram, að valdið skuli ætíð vera fyrst. Ég mótmæli þessari forsendu. En þessi yfirlýsing hæstv. utanrrh. er táknandi dæmi um þá niðurlægingu, sem íslenzk stjórnmál eru komin í fyrir aðgerðir hæstv. ríkisstj.

Því var lýst yfir í ræðum stjórnmálaflokkanna 18. júní 1944, sem haldnar voru fyrir framan stjórnarráðshúsið, að við stofnuðum okkar lýðveldi mitt í hinni ægilegu styrjöld í trúnni á réttinn til þess að vera sjálfstæð þjóð og án þess að geta varið okkur. Þess vegna er neitað öllum þeim forsendum, sem sjálfstæðisbaráttan byggðist á. með því að ætla nú að hörfa frá réttinum til hervaldsins og byggja á hervörnum.

Og svo er það með praktísku hlutina í sambandi við þetta og hlægilegu hlutina í sambandi við þetta, þegar verið er að dylgja um það, að það hafi verið árás yfirvofandi, ef til vill frá hinu stærsta ríki Evrópu, á Ísland og þess vegna hafi orðið að koma varnarlið — einnig til þess að stofna ekki öryggi Bandaríkjanna og Bretlands í hættu — og þess vegna hafi ekki verið tími til að kalla saman Alþ. Það eru kallaðir hingað 300–400 amerískir hermenn, og þar með er varnarleysinu lokið og bægt frá hinni ægilegu hættu úr austri, — það átti öllu að vera borgið, Íslendingar þurftu engu að kvíða. M.ö.o., hvar sem litið er á þau rök, sem færð eru fram af hálfu hæstv. ríkisstj., þá stangast þau annaðhvort við sjálf sig eða staðreyndir og yfirlýsingar og ákvarðanir Alþ. og stjskr. eða eru svo hlægileg, að það tekur engu tali. Það var auðséð, að það þurfti á ósannindum að halda til þess að telja þeim þm., sem ekki höfðu aðstöðu til að kynna sér málið og ekki höfðu þekkingu á sögunni, trú um, að hér sé verið að gera verk, sem er óumflýjanlegt fyrir Ísland.

En hvað er það svo, sem við höfum gert með þessum samningi og með því að kalla þennan her inn í landið og með Atlantshafssamningnum? Það stóð þó einn hlutur opinn, það var einn möguleiki til fyrir Ísland að sleppa út úr skelfingum styrjaldar sem ábyrgur aðili. Það var það ákvæði, að það væri Íslands sjálfs og ríkisstjórnar þess að dæma um, ef til ófriðar kæmi, hvort það væri varnarstríð, sem verið væri að heyja. Ísland hefði þá möguleika til þess, svo framarlega sem ríkisstj. áliti, að styrjöld, sem væri að byrja, væri árásarstríð, samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna að neita að taka þátt í stríði. Þetta var sá eini veiki möguleiki, sem Ísland hafði, ef til styrjaldar kom milli Atlantshafsríkjanna og annarra ríkja, til þess að verða ekki sem ábyrgur aðili þátttakandi í því stríði. Það, sem ríkisstj. hefur gert með hernámssamningnum 5.–7. maí, er að útiloka þennan möguleika. Hæstv. ríkisstj. kallar amerískan her inn í landið og gefur Bandaríkjunum aðstöðu til þess að framkvæma vissar hernaðaraðgerðir hér á landi. Hæstv. ríkisstj. tekur ábyrgð á þeim hernaðarframkvæmdum, sem gerðar yrðu hér á Íslandi, með slíkum samningi, — hún hefur gerzt samábyrg Bandaríkjunum fyrir þeim aðgerðum, sem gerðar yrðu frá Íslandi. Ég skal á vissan hátt segja hæstv. utanrrh. það til afsökunar, þegar hann gerði þennan samning, að hann virðist trúa því sem óhjákvæmilegu trúaratriði, að Bandaríki Norður-Ameríku geti ekki gert sig sek um árásarstríð. Hins vegar er það trúaratriði, sem ekki er byggt á veruleikanum. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að Bandaríkin, ef þau álíta ástæðu til þess fyrir sig, leggi til árásarstríðs frá flestum þeim stöðvum, sem þau hafa tök á. Hver er þá aðstaða ríkisstj. Íslands, eftir að Bandaríkin eru búin að hafa herstöðvar hér á landi með samábyrgð ríkisstj.? Aðstaðan er sú, að hún er upp á náð og miskunn ofurseld Bandaríkjastjórn og búin að taka ábyrgð á hennar gerðum. Ef Bandaríkjastjórn ætlaði að senda af stað sinn flugflota til árása á eitthvert annað ríki, þá veit ég ekki, hvort hún hefði svo mikið við að segja ríkisstj. hér frá því daginn áður, en jafnvel þótt hún gerði það, þá er ríkisstj. búin að spila úr höndum sér að halda Íslandi hlutlausu. Ég vil vekja athygli hv. þm. á þessu, þeirra, sem ekki ræða þetta mál aðeins sem trúaratriði, — ég vil vekja athygli þeirra á þeim praktísku afleiðingum slíks, að Ísland væri ríki, þar sem Bandaríki Norður-Ameríku hefðu herinn, en Ísland yrði þátttakandi í slíku stríði. Ég vil vekja athygli á því, að afleiðingin yrði sú, að Ísland bæri alla ábyrgð með Bandaríkjunum á slíku árásarstríði. Þó vil ég taka það fram, að mitt álit er það, að það sé íslenzka ríkisstj. einvörðungu, sem ber slíka ábyrgð, en ekki íslenzka þjóðin. En gerðir ríkisstj. eru hinar sömu, að gera Ísland að stríðsaðila í árásarstyrjöld.

En það er vert að athuga það, hver var afstaða okkar Íslendinga og Alþ., þegar svona stóð á í síðari heimsstyrjöldinni og stórveldi Evrópu, Bretland, mæltist til þess við Íslendinga, að þeir tækju þátt í styrjöldinni, þá var svarað með því, að Ísland neitaði að gerast hernaðaraðili með Bretlandi, og þegar brezki herinn réðst á Ísland og hernam það, þá gaf ríkisstj. Íslands eftirfarandi yfirlýsingu 10. maí 1940:

„Út af atburðum þeim, sem gerðust snemma í morgun, hernámi Reykjavíkur, er hlutleysi Íslands var freklega brotið og sjálfstæði þess skert, verður íslenzka ríkisstj. að vísa til þess, að hinn 11. apríl síðastl. tilkynnti hún brezku ríkisstj. formlega, fyrir milligöngu fulltrúa hennar hér á landi, afstöðu íslenzku ríkisstj. til tillögu hennar um að veita Íslandi hernaðarvernd, og samkv. því mótmælir íslenzka ríkisstj. kröftuglega ofbeldi því, sem hinn brezki herafli hefur framið.

Þess er að sjálfsögðu vænzt, að bætt verði að fullu tjón og skaði, sem leiðir af þessu broti á löglegum réttindum Íslands sem frjáls og fullvalda hlutlauss ríkis.“

Þessi var afstaða íslenzku ríkisstj. og þjóðarinnar þá, og það er vert að hugleiða, hver hefði orðið afleiðingin af því, ef Ísland hefði gerzt þátttakandi í hernaði með Bretlandi, og það kemur fram í síðasta þætti þessarar mótmælayfirlýsingar. M.ö.o., munurinn er sá, að þegar Ísland væri í stríði með Bandaríkjunum í árásarstyrjöld, sem þau hefðu hafið af íslenzkri grund, þá lenda á Íslandi sem stríðsaðila allar afleiðingar af hörmungum stríðsins og eyðileggingu í hugsanlegum friðarsamningum eftir styrjöldina, svo framarlega sem þau ríki, sem Ísland stæði með, yrðu undir í slíkri styrjöld. M.ö.o., í staðinn fyrir að halda hlutleysinu, sem Ísland lýsti yfir, að það mundi halda 1940, og gera kröfur til þeirra, sem ráðast á Ísland, um að bæta það tjón, sem það mundi valda Íslandi að vera dregið inn í stríð, þá tekur ríkisstj. nú þá ákvörðun að leyfa Bandaríkjunum að draga Ísland inn í styrjöld, sem Bandaríkin hefja, þannig að Ísland ber ábyrgð á því, sem gert er í slíkri styrjöld. Þetta er nauðsynlegt að hv. þm. geri sér ljóst, að sá samningur, sem hér er gerður af ríkisstj., gerir Ísland, án þess að það geti við það ráðið, ábyrgan stríðsaðila í hvaða árásarstríði sem Bandaríki Norður-Ameríku mundu hefja. Bandaríkin hafa fengið aðstöðu hér á landi til þess að gera það, sem þeim þóknast viðvíkjandi styrjaldarrekstri, en á okkar ábyrgð. Í samningnum er tekið fram, að Ísland geti ekki gert kröfur til bóta fyrir tjón, sem hljótist af ófriðaraðgerðum, heldur verðum við að bera það sjálfir. Ef t.d. Reykjavík er eyðilögð í styrjöld, þá eigum við að bera tjónið sjálfir, en getum ekki gert kröfur til neinna aðila um bætur af því tjóni, eins og við áskildum okkur rétt til 1940. Þetta eru þær aðgerðir, sem ríkisstj. hefur gert, og þetta eru þær aðgerðir, sem hún ætlast til að Alþ. samþykki.

Hins vegar vil ég taka það fram, að ég álít, að þessar aðgerðir séu einvörðungu á ábyrgð ríkisstj., og ég og Sósfl. höfum alltaf haldið því fram, að íslenzka þjóðin beri enga ábyrgð á því, sem hér hefur verið gert, og teljum, að hún eigi fulla bótakröfu á hendur þeim ríkjum, sem nú hafa kúgað Ísland til að gera þennan samning, og þeirri yfirlýsingu munum við standa á líka, þó að styrjöld verði háð og þegar til friðarsamninga kæmi eftir þá styrjöld. Ég skal svo, út af því, sem hæstv. utanrrh. hér hefur sagt, að okkur sé óhætt að semja við Bandaríki Norður-Ameríku, þau séu slík frelsisríki og reynslan af samningum við þau svo góð, að við þurfum ekkert að óttast, við getum verið alveg öruggir, — þá lýsi ég yfir því, að ef rekja á sögu síðustu 10 ára og þá einkum síðustu 5 ára, þá hefur áhugi amerísku herstjórnarinnar aðallega beinzt að því að ná Íslandi undir sig. Ég skal rekja þetta nánar, ef hv. þm. hafa gleymt, hvað gerðist 1940 með brezka hernáminu. Þá mótmæltu Íslendingar þessu ofbeldi og broti á sjálfstæði og hlutleysi. Það næsta, sem gerðist, var, að í júní 1941 voru íslenzku ríkisstj. settir úrslítakostir af Bretlandi og Bandaríkjunum að ganga inn á að biðja Bandaríkin um hervernd. Þessir úrslitakostir voru settir þannig, að innan 24 klst. varð ríkisstj. að biðja Bandaríkin um hervernd. Síðan hafa margir ráðh. viðurkennt, að þetta hafi verið úrslitakostir. Einn þm. Sjálfstfl., Sigurður E. Hlíðar, þáv. þm. Ak., gerði svo hljóðandi grein fyrir atkv. sínu:

„Þó að ég sé „idealisti“ og vilji lifa í friði við allar þjóðir, neyðist ég líklega til að vera raunsæismaður í þessu máli og beygja af. Mun ekki verða komizt hjá að gera þennan samning við Bandaríkin, því að hnífurinn er á barka okkar. Þessi ríki hafa ráð okkar allt í hendi sér og geta bannað alla flutninga til landsins, þau geta komið í veg fyrir það, að við getum flutt einn fiskugga úr landi, og stefnt þannig fjárhag okkar og lifi í hættu. Ég sé því ekki, að komizt verði hjá að samþ. þetta, og mun því ekki greiða atkv. á móti þessu, þó að ég héldi í fyrstu, að ég mundi gera það, og getur meira að segja verið, að ég greiði beinlínis atkv. með málinu, þó að ég geri það nauðugur.“

Þetta er sigild lýsing á aðferð þeirri, sem beitt var til að beygja þm. stjórnarinnar til að samþ. gerðir stórveldisins. Hnífurinn er á barka Íslendinga, og þess vegna beygið þið ykkur. Aðrir þm. stjórnarflokkanna hafa eflaust ekki samþ. þetta af fúsum vilja, þó að þeir hafi ekki haft sömu hreinskilni og Sigurður E. Hlíðar til að játa það fyrir þingi og þjóð. — Þegar þessi samningur var gerður, vil ég minna á, að hann var gerður á ólöglegan hátt, þar sem þm. höfðu misst umboð sitt 20. júní 1941 og voru því ekki þm. Þessi samningur, sem var þrengt upp á Íslendinga, var notaður sem haldreipi Bandaríkjanna til að koma fram næstu samningum og hótunum við Íslendinga. Ég vil minna á, að stríðinu var ekki fyrr lokið en Bandaríkin fóru að færa sig upp á skaftið. Hinn 1. okt. 1945 gerðu Bandaríkin þá kröfu, að Íslendingar afhentu þeim 3 herstöðvar til 99 ára. Þessum stöðvum áttu Bandaríkin svo að ráða yfir. Þegar þessi krafa var borin fram, höfðu Bandaríkin her í landinu í trássi við gerða nauðungarsamninga. Um þessa kröfu fórust þáv. forsrh., Ólafi Thors, þannig orð á aukaþinginu 1946:

„Í fyrra báðu Bandaríkin okkur um Hvalfjörð, Skerjafjörð og Keflavík. Þau fóru fram á langan leigumála, kannske 100 ár, vegna þess að þau ætluðu að leggja í mikinn kostnað. Þarna áttu að vera voldugar herstöðvar. Við áttum þarna engu að ráða. Við áttum ekki svo mikið sem að fá vitneskju um, hvað þar gerðist. Þannig báðu Bandaríkin þá um land af okkar landi til þess að gera það að landi af sínu landi. Og margir óttuðust, að síðan ætti að stjórna okkar gamla landi frá þeirra nýja landi. Gegn þessu reis íslenzka þjóðin.“

Hvað lá við, ef Íslendingar yrðu ekki við þessari beiðni? Það upplýstist síðar. Bandaríkin litu svo á, að samkv. nauðungarsamningnum frá 1941 gætu þau haft hér her, á meðan sá samningur væri í gildi. En nú reis upp ágreiningur á milli ríkisstj. Íslands og Bandaríkjanna um skilning á samningnum. Um skilning á samningnum og þennan ágreining sagði þáv. forsrh., Ólafur Thors (prentað í B-deild Alþt. 1946, bls. 218):

„Um skilning þessa ákvæðis hefur verið og er ágreiningur milli Íslands og Bandaríkjanna. Halda Bandaríkin því fram, að ófriðnum sé enn ekki lokið í þeim skilningi, sem átt er við í samningnum. Þeim sé því enn eigi skylt að hverfa burt með herafla sinn, enda þótt þau að sjálfsögðu muni í einu og öllu standa við skuldbindingar sínar samkv. samningnum. Af Íslands hálfu hefur aldrei verið á þann skilning fallizt .... Bandaríkin töldu sér þessa hersetu heimila samkv. herverndarsamningnum frá 1941. Bandaríkin vildu ekki kveða upp úr um, hve lengi þau hefðu í hyggju að hagnýta sér þessa meintu heimild sína.“

Bandaríkin líta svo á, að þau hafi rétt til hersetu hér, en vilja ekki láta í ljós, hvenær þau fari með berinn. Reynslan af samningnum frá 1941 sannar, að Bandaríkjamenn leggja annan skilning í samninginn en Íslendingar. Bandaríkin láta ekki undan og fara sínu fram. M.ö.o., þessi samningur hefur valdið togstreitu. Bandaríkin leggja sinn skilning í samninginn og halda hér her eins lengi og þeim sýnist. Svo dirfist hæstv. utanrrh. (BBen) að geta um, hve langa og góða reynslu við höfum af viðskiptum við Bandaríkjamenn þvert ofan í yfirlýsingu Ólafs Thors um vandræði við að fást við Bandaríkjamenn um þessi mál. Það er því svívirðilegra við samninginn 1941, að Keflavíkursamningurinn 1946 er notaður sem rök til að losna við her Bandaríkjanna úr landi. Reynslan sannar, að Bandaríkin taka ekkert tillit til okkar og standa á sínu, þó að það eigi sér enga stoð. Það má minna á, að kröfur Bandaríkjanna 1. okt. 1945 voru kröfur um herstöðvar. Íslendingar áttu þá einu sönnu stjórnina, sem þeir hafa átt, og hún var þá á verði. Af hverju sóttust Bandaríkin eftir herstöðvum hér? Ekki var þá borið við hættu frá hinum ægilegu sósíalistísku ríkjum. Af hverju sóttust Bandaríkin eftir herstöðvum hér til 99 ára? Það byggist á viðleitni þeirra til að sölsa lönd undir sig og yfirgangsstefnu þeirra. Hér birtist hún ógrímuklædd og ekki enn þá hulin rykskýi, er Bandaríkin tóku frá Hitler sáluga. — Síðan var Keflavíkursamningurinn gerður. Það má minna á einu rökin, sem færð voru fram með Keflavíkursamningnum. Þau voru, að nú losnuðum við við herinn úr landinu og Sameinuðu þjóðirnar fengju ekki einu sinni að hafa her hérna. Reynslan sýnir, hvernig Bandaríkin standa við gerða samninga. Hvað gera Bandaríkin svo, þegar Íslendingar neita þeim um herstöðvar til 99 ára? Þau leggja Ísland undir sig í áföngum, þegar þeim tekst það ekki í stökkum. Þau fara að eins og Filippus Makedonfukonungur: þeir byrja á því að leiða asna hlaðinn gulli inn úr borgarhliðunum. Marshallhjálpin kemur næst Keflavíkursamningnum, og er það aðferðin til að binda Íslendinga fjárhagslega. Eftir að búið er að binda Íslendinga, vinna Bandaríkin dyggilega að niðurrifi atvinnuveganna. Svo er Atlantshafssáttmálinn gerður. Þegar hann var gerður, var því haldið fram, að það kæmi ekki ti1 mála, að Íslendingar létu af hendi herstöðvar. En 1951 álíta Bandaríkin, að þau séu búin að ná svo miklum tökum á íslenzku stjórninni, að þau geti látið skríða til skarar og lagt Ísland undir sig. Og nú hefur þetta gerzt. Reynsla Íslendinga undanfarin 10 ár sýnir, að Bandaríkin standa á nauðungarsamningum.

Það er rétt að draga upp mynd af viðhorfinu 1945 og eins og það er nú. Við skulum athuga tvö stórveldi og aðfarir þeirra á Norðurlöndum árið 1945. 1. okt. það ár eru Bandaríkin með her hér á landi, og þá voru Sovétríkin með her í Norður-Noregi og á Borgundarhólmi. Þá vildi svo til, að ég var staddur í Moskvu fyrir hönd íslenzku stjórnarinnar, og þá vildi svo til, að ég, ásamt Pétri Benediktssyni, var staddur hjá sendiherra Noregs þar. Hann sagði okkur þá, að hann hefði fengið tilkynningu frá stjórn Sovétríkjanna um flutning rauða hersins úr Noregi, og var hann beðinn að tilkynna stjórn sinni þetta. Á sama tíma og rauðliðarnir voru fluttir frá Noregi og Danmörku fór því fjarri, að Bandaríkin flyttu sitt lið frá Íslandi. Þá sýna Bandaríkin þá ósvífni að fara fram á herstöðvar hér til 99 ára. Hrammurinn var lagður yfir Ísland. Herinn, sem var í Noregi og Danmörku, vár kallaður burt, en síðan það gerðist hefur hrammur Bandaríkjanna færzt yfir þessi lönd. Þetta er sláandi reynsla fyrir Íslendinga, hvernig Bandaríkin halda samninga. Hv. þm. geta dregið ályktun af þessu og séð, hve hv. 8. landsk. hefur trúað blint á Bandaríkin í alþjóðamálum, þar sem hann trúir því. að Bandaríkin vilji ekki ásælast nein ríki, en Sovétríkin séu hins vegar æst í ófrið. Það má rifja það upp, að Sovétríkin töpuðu yfir 7 millj, manna í stríðinu, hver fjölskylda á um sárt að binda og meiri hluti iðjuvera var lagður í rústir. Sovétríkin geta aldrei annað en tapað á stríði, jafnvel þó að þau sigri. En hins vegar græddi auðvald Bandaríkjanna 50 milljarða dollara á síðasta stríði og græðir alltaf á stríði. hvort sem þau tapa eða sigra. Fyrir auðvald Bandarfkjanna er stríðið gróðavænlegasta leiðin. Auðvaldið er ekki færara en svo að stjórna ríki sínu, að hungur vofir sífellt yfir. Svo brjálsemisleg er stjórnin á þessu mikla þjóðfélagi, að það treystist ekki til að láta alla þegna sína fá vinnu. Auðvald Bandaríkjanna óttast mest kreppu og álitur vígbúnað og stríð elna ráðið til úrbóta. Það er gróðafíkn voldugra hlutafélaga, sem ræður þessu landi. Það eru fjórir auðhringar, sem eiga 60% af öllu auðmagninu. Þetta er ekkert nýtt í sögn Bandaríkjanna, síðan auðvaldið brauzt til valda og varð allsráðandi' þar og bændastéttin missti öll sín fyrri forráð. Bandaríkin hafa brotið undir sig smáríki eins og Haíti, Kúba, Nicaragua, Filippseyjar og Hawaii. Þessum ríkjum hafa þau haldið og gert að voldugum nýlenduríkjum. Ég leyfi mér að fullyrða, að í hópi þm. þeirra flokka, sem samþ. Atlantshafssáttmálann, fari andúðin vaxandi gegn Bandaríkjamönnum og þeir telji hernámið á Íslandi ofbeldisverk. Það er engin tilviljun, að málgagn stjórnarinnar í Svíþjóð fordæmir samninginn frá 5. maí.

Bandaríkin hafa herstöðvar í Evrópu, Asíu og Afríku. Þannig umlykja þau sósíalistíska heri með herstöðvum þar, sem þær eru álitnar nauðsynlegar. Ísland er eitt af fjölda landa, þar sem Bandaríkin hafa komið fram herstöðvum með nauðungarsamningum. Bandaríkin hafa komið sér í þessa aðstöðu hér með ofbeldi. Alþingi mundi því fremja örlagarikt afbrot gagnvart þjóð sinni með því að leggja samþykki sitt á þennan nauðungarsamning. Með hliðsjón af fenginni reynslu hlýtur afstaða okkar til Bandaríkjanna að verða sú sama og hún var áður hjá Íslendingum gagnvart Dönum. Og það munu engir Íslendingar, sem unna sjálfstæði landsins og frelsi, geta litið öðruvísi á Bandaríkjamenn og völd þeirra hér en sem ránsmenn, sem hafa sölsað undir sig völd hér í trássi við vilja þjóðarinnar. Og það er ekki að ástæðulausu, því að það hafa aldrei neinir samningar verið lagðir fram fyrir íslenzku þjóðina, allt hefur þetta farið fram án hennar vilja og vitundar. Þess má og gæta í þessu sambandi, að menn geta af ýmsum ástæðum fylgt vissum stjórnmálaflokkum og kosið með vissum stefnum af hagsmunaástæðum, en það er ekki þar með sagt, að þeir muni fylgja þessum samningi, sem hefur verið þröngvað upp á okkur. Og það hefur sýnt sig við atkvæðagreiðslur þjóða um slíka samninga, að þær hafa fellt þá og enga ábyrgð tekið á þeim verkum, sem þannig hafa verið framin án þeirra vitundar og ekki lögð undir þeirra vilja.

Ég ætla ekki að fara að tala um Keflavikursamninginn í heild sinni, en ég vil aðeins minnast á hann sem víti til þess að varast, þegar um þennan samning er rætt. En hitt er engu síður vitað, að með þessum samningi er íslenzka ríkisstj. að veita Bandaríkjunum stuðning í aðför að Íslendingum. Það er auðséð, að það er verið að gera íslenzka lögreglumenn að sporhundum gegn Íslendingum sjálfum. Það er gengið út frá amerísku lögregluliði og gengið út frá því, að hægt sé að hneppa menn í varðhald. Það er með öðrum orðum verið að fela Bandaríkjamönnum að blanda sér í daglegt líf Íslendinga. Það er verið að venja íslenzka lögreglu við að vera sporhundar hins bandaríska lögreglu- og hervalds, — lögreglu og hervalds, sem er tamara að nota skammbyssuna og rýtinginn en Íslendingum er að nota hnefann, — lögreglu- og hervalds, sem í síðasta hernámi drap þrjá saklausa Íslendinga. Ríkisstj. gerir sér það vafalaust ljóst, hvaða ábyrgð hún tekur á sig með því að ofurselja Íslendinga þannig undir hervald Bandaríkjanna.

En ég vil taka það fram, að ábyrgðin á öllu því, sem kann að gerast í sambandi við þessa hersetu, hvílir á núverandi ríkisstj. Allar þær afleiðingar, sem herseta í landinu á friðartímum kann að hafa í för með sér fyrir íslenzku þjóðina, eru á ábyrgð núverandi ríkisstj. Og svo framarlega sem styrjöld hefst og tilvera íslenzku þjóðarinnar er í hættu, þá er það á ábyrgð þeirrar ríkisstj., sem hefur beitt Alþingi valdi, fengið ofbeldi Bandaríkjanna herstöðvar í landinn og reynt að blekkja þá með ósannindum, sem ekki hafa viljað fallast á það, sem gert hefur verið. Og það er engin afsökun fyrir þessa ríkisstj., þó að Alþingi vildi rifta þessum samningi og að Bandaríkin vilji þá standa honum eftir sínum skilningi, því að hún ætti að hafa lært af reynslunni og átti að vera á verði gegn ásælni Bandaríkjanna.

En hvað sem af þessu kann að hljótast, þá er íslenzka þjóðin saklaus, því að hún hefur aldrei verið spurð ráða og aldrei fengið um þetta mál að dæma, og hún hefur verið beitt valdi af ríkisstj. í sambandi við þetta mál, eins og svo oft áður.

Ég ætla nú ekki að orðlengja þetta meira að sinni, þó að margt sé, sem þyrfti að athuga, og ýmsar greinar, sem þarf að gera að umtalsefni síðar.