08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3094)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þær miklu umr., sem hér hafa orðið um þetta mál, og ýmis ummæli, sem hér hafa fallið, hafa orðið til þess, að ég kvaddi mér hljóðs.

Hæstv. ráðh. sagði, að ástæðulaust væri að hafa þetta mál í flimtingum, sem hér er um að ræða, og sagði, að þetta væri merkilegt og alvarlegt mál. Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðh., að ég tel þetta eitt þýðingarmesta mál, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ. og kallar á bráða og skelegga úrlausn. En einmitt af því, hve málið er alvarlegt, eru raunhæfar aðgerðir aðkallandi. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að gagnrýni sé beint að formi og efni þáltill., sem liggur fyrir til umr. Mér fannst allt að því, að menn hentu gaman að því, að hv. 1. þm. N-M. leiðrétti misræmi í formi till. Eitt er víst, að till. hans er leiðrétting, þótt lítil sé, og er rétt og á fullum rökum reist. Það eru ekki einungis þau atriði, sem varða form, sem eru kúnstug í þessari till., heldur er það fleira, m. a. þar sem talað er um að safna ýtarlegum skýrslum um lánveitingar til íbúðarhúsabygginga og leggja till. fyrir þingið á grundvelli þeirrar rannsóknar. Hér er eflaust átt við Alþingi, því að það er oft kallað þing, en mér finnst rétt, að í þskj. sé ekki dregið úr titli Alþingis okkar Íslendinga.

Ég vil segja það, að þetta form á till. er nokkuð andhælislegt, en það mætti lagfæra, ef ekkert annað væri að, og finnst mér ekki vera ástæða til að gagnrýna það með fleiri orðum. Það er annað alvarlegra, sem einkennir þessa till. Það er það, að nú á að fara að rannsaka viss atriði, sem liggja fyrir að verulegu leyti fullrannsökuð, síðan á að leggja fyrir Alþ. óákveðnar till. til úrbóta. Afgreiðsla þess máls kallar á hraðari og skeleggari lausn þessa máls en hér er lagt til. Alvara þessa máls kallar á það, að þessu þingi ljúki ekki án þess að gera ráðstafanir til úrbóta einhverju því mesta vandamáli, sem nú er á dagskrá hjá íslenzku þjóðinni. Spurningin er sú, hvort ekki sé unnt að afgr. á því þingi, er nú situr, einhverja þá ályktun eða lög, sem gera það að verkum, að málinu verði ekki skipað í sama farið og undanfarið. Jú, þetta er hægt, og Alþfl. hefur fyrir sitt leyti viljað benda á leiðir, sem mætti fara og leiddu til áþreifanlegra og raunhæfra úrbóta og mundu eflaust gera geysimikið gagn. Ég segi það og vísa í grg. frv. okkar Alþfl.-manna um útvegun fjár til byggingar verkamannabústaða, að nægar skýrslur liggja fyrir um húsnæðisskort og hve stór hópur manna þarf að búa í óviðunandi og heilsuspillandi húsnæði í kaupstöðum landsins. Það er ekki einungis, að aðbúðin sé ill þar, heldur er ástandið úti á landi víða mjög slæmt, og er því þörfin brýn til úrbóta. Spurningin er, hvað sé hægt að gera á þessu þingi til úrbóta. Ég leyfði mér að segja og segi aftur, að Alþfl. leggur áherzlu á tvö höfuðatriði til úrlausnar þessum málum. Eins og vænta mátti eru það fyrst og fremst verkamannabústaðir, sem frv. á þskj. 53 fjallar um. Þetta frv. var líka borið fram fyrir tveimur árum, og er því þá ekki til að dreifa, að hv. þm., þeir sem nú sitja á Alþingi, hafi ekki átt þess kost að íhuga þær till., sem koma fyrir í frv., og gera sér grein fyrir því, hvort þær séu á rökum reistar eða ekki. Alþingi hefur átt þess kost og haft nægan tíma til að athuga, hvort það, sem frv. felur í sér, sé vænlegt til þess að vera ráð til úrbóta og hvort það sé framkvæmanlegt. Ég ætla ekki að fara inn á þau ráð, sem tekin eru í frv., þar sem ég hef sjálfur gert það við 1. umr. þess máls, en að gefnu tilefni ætla ég að minnast örlítið nánar á verkamannabústaði sem úrlausn í húsnæðisvandamálunum á Íslandi.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að Alþfl. sæi ekkert annað í húsnæðisvandamálunum en verkamannabústaði. Að vísu er þetta ofsagt og ekki rétt, en það má þó til sanns vegar færa, að Alþfl. sjái fyrst og fremst þessa beztu og hagkvæmustu úrlausn til að bæta úr húsnæðisvandamálunum. Ég þarf ekki að taka það fram, að þetta er ekki talað út í hött eða af reynsluleysi. Nú hefur fengizt reynsla af framkvæmd l. um byggingu verkamannabústaða, og talar hún skýru og óvefengjanlegu máli. Alþfl. hefur fyrst og fremst hallazt að byggingu verkamannabústaða vegna tveggja orsaka. Þeir eru hagkvæmar íbúðir fyrir alþýðu manna og ódýrir miðað við gæði. Hv. 7. þm. Reykv. minntist á það, að upp á síðkastið væru íbúðir í verkamannabústöðum hér byggðar áþarflega stórar. Það getur nú verið álitamál, hve íbúðir eigi að vera stórar. Sú bjartsýni, er greip um sig, þegar atvinnan var nóg, kom út í þm, að menn vildu hafa rýmra húsnæði heldur en þeir höfðu áður. Það er táknrænt fyrir sögu verkamannabústaðanna, að í verulegum hluta húsanna, sem byggð voru við Bræðraborgarstíg, Hringbraut og Ásvallagötu, eru tveggja herbergja íbúðir með eldhúsi og öllum þægindum. Síðan hafa húsin yfirleitt verið byggð með þriggja herbergja íbúðum. Sumir hafa óskað að geta átt þess kost að fá fleiri en þrjú herbergi, og af því hafa verið innréttaðir kjallarar og háaloft. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að það er ekkert höfuðatriði með eða móti verkamannabústöðum, hvort herbergin séu þrjú eða fjögur. Það fer eftir því hvernig högum er háttað með atvinnu og lífskjör almennings. Mér finnst ekki vera ástæða til að hafa herbergin fleiri en þrjú, en þetta mætti laga, ef svo bæri undir. — Það var annað atriði í ræðu hv. 7. þm. Reykv., sem ég vildi leiðrétta, það, að í till. okkar væri lagt til, að ríkissjóður legði fram stórfé í byggingarsjóð verkamanna. Þetta er misskilningur. Okkar frv. byggist á því að koma því á, að þær stofnanir og þau félög, sem verja varasjóðum sínum í að kaupa trygg verðbréf, verði skikkuð til að verja hluta af varasjóðum sínum til að kaupa skuldabréf í byggingarsjóði verkamanna. Það er því misskilningur, að farið sé fram á, að ríkissjóður leggi fram þetta fé. Það þarf ekki að minnast á það, hve verkamannabústaðirnir hafa reynzt ódýrari en annað sambærilegt húsnæði hér í Reykjavík. Þeir kostuðu um 160 þús. krónur fyrir einu til tveimur árum, en á sama tíma gekk annað húsnæði á 220–230 þús. kr. Það er auðsætt, að með skipulegri framkvæmd er hægt að byggja þá ádýrari en annað húsnæði. Það eru byggðar margar íbúðir í einu, og um leið verða þær ódýrari en þær íbúðir, sem byggðar eru af einstaklingum, miðað við gæði. Ég held, að þær byggingar, sem Reykjavíkurbær lét byggja um líkt leyti, séu áreiðanlega mun dýrari, þó að ég haldi því ekki fram, að þar hafi gætt neinnar óhagsýni. Ég álít, að það megi slá því föstu, að það eigi að leitast við að leysa úr þessu vandamáli með byggingu verkamannabústaða, vegna þess að þeir eru hagkvæmustu og um leið ódýrustu íbúðirnar.

Það er ekki einungis þetta, þó að það sé mikilsvert, sem Alþfl. hefur lagt til á Alþ. að verði gert til úrlausnar þessu vandamáli, húsnæðisvandamálinu. Þeir tveir Alþfl.-menn, sem sæti eiga í Ed., hafa bágt fyrir Sþ. þáltill. á þskj. 95 um, að lánastarfsemi veðdeildar Landsbanka Íslands verði breytt á þá lund, sem í till. segir, að hún láni 50–70% út á þau hús, sem eru í byggingu. Ég tel mjög líklegt, að þetta sé framkvæmanlegt, ef vilji er fyrir hendi hjá ríkisvaldinu og stjórn Landsbanka Íslands. Það er ekki vafi á því, að ef þetta er framkvæmanlegt, þá er þetta stórkostleg endurbót og hjálp fyrir þá, sem reyna að byggja sjálfir. Að sjálfsögðu mundi þetta ná til hinna margumræddu smáíbúða. Ef þessi skipan kæmist á, þá væri hægt að fá lán, sem næmi 50–70% af kostnaðarverði bygginganna. Ég er viss um, að ef þessi skipan er fyrir hendi, mundi verulegur hluti þeirra manna, sem nú reyna að byggja, geta framkvæmt það, en aðeins með því að þessi skipan yrði gerð á veðdeild Landsbankans.

Ég tel, að Alþfl. hafi lagt fram á þessu þingi frv. og þáltill., sem — ef samþ. yrðu — yrðu til að bæta mikið úr því vandræðaástandi, sem ríkir í húsnæðismálunum hér á Íslandi. Það er meira um vert, að till, eru raunhæfar, og ef ekki skortir góðan vilja, er hægt að framkvæma þær till., sem Alþfl. leggur fram. Verði þær till. hunzaðar enn þá, lýsi ég sök á hendur meiri hluta Alþ. fyrir að hafa hvorki vilja né skilning til að leysa úr þessum vanda. Ég get vel hugsað mér að gera breytingar á till. og er fús til þess að ræða þær, en verði þagað yfir þeim og þær hunzaðar, getur það ekki stafað af öðru en skilningsleysi og viljaleysi þeirra, sem nú ráða á Alþ. Þetta vildi ég segja um till. Alþfl., og fyrir þessar sakir mun ég greiða atkv. með till. minni hl. fjvn. um rökst. dagskrá varðandi till. á þskj. 25. Ég tel þessa þáltill. enga lausn á málinu, en lausn er nauðsynleg, og það er hægt að finna þá lausn, sem veitir miklar úrbætur á þessu máli.

Af því að ég er staðinn upp og hef kvatt mér hljóðs, þá vil ég minnast á eitt atriði, sem kom fram í umr. og varðaði l., sem sett voru á þeim tíma, er samsteypustjórn sú, sem ég veitti forstöðu, sat að völdum. Þetta eru l. nr. 50 frá 1948, um bráðabirgðabreyt. á nokkrum l. Fyrst og fremst vil ég leiðrétta þann misskilning, sem oft kemur fram, þegar þessi l. eru dæmd, og er í því fólginn, að sagt er, að úr gildi hafi verið numin ákvæði III. kafla l. nr. 44 frá 1946, um íbúðabyggingar bæja til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. Því fer víðs fjarri, að 1. töluliður 1. gr. l. nr. 50 1948 hafi numið III. kafla fyrrgreindra l. úr gildi. Ákvæði III. kafla l. varðandi fjárframlög sem lán af hálfu ríkissjóðs koma því aðeins til framkvæmda, að sérstök heimild sé veitt til þess í fjárl. Ákvæðin standa því enn í gildi, en í staðinn fyrir skyldu ríkissjóðs er komið, að ef hann hafi vilja og getu til, leggi hann sem lán til sveitarfélaganna allt að því 85% af kostnaðarverði bygginganna. Þó að þetta sé gagnrýnt í vissum herbúðum og talað um þá dæmalausu bjartsýni, sem gætti, þegar l. voru sett, vil ég segja á líka lund, að þess hafi ekki verið gætt, þegar þessi l. voru sett, hvort þau væru framkvæmanleg. Með III. kafla 1. eru ríkissjóði bundnir óákveðnir baggar, sem enginn vissi nema yrðu svo þungir, að hann gæti ekki risið undir þeim. — Nú var byrjað að framkvæma l. í Reykjavík og á Ísafirði, og fengu þessir bæir lán úr ríkissjóði, er nam 85% af kostnaðarverði bygginganna. En nú kom strax á daginn, 1947 og 1948, að Reykjavík hugðist byggja geysimikið og njóta hagræðis l., og Ísafjörður og aðrir staðir hugðust gera slíkt hið sama. Hv. 7. þm. Reykv. gat þess við fyrra stig umr., að ef l. væru enn þá í gildi og ríkissjóður þyrfti að láta Reykjavík fá 85% af byggingarkostnaðinum, mundi það nema nokkrum tugum milljóna. Það hlýtur að fylgja því nokkur óvissa, þegar ríkissjóði er sett með 1. að leggja fram óákveðna upphæð, og svo er á valdi annars aðila að ákveða þá upphæð. Það kom í ljós og var ekki nema eðlilegt, að þáv. fjmrh., hv. þm. Vestm., benti á, að þetta gæti orðið ríkissjóði ofviða og að hann gæti ekki risið undir þessu. Þá ákvað þáv. ríkisstj. að bera fram frv. til l. um að takmarka skyldur ríkissjóðs við það fé, sem veitt væri á fjárl. hverju sinni. Ég biðst ekki undan minni ábyrgð hvað snertir þessi l. af þeirri ástæðu, að þá var ekki hægt að koma auga á það, að ríkissjóður hefði bolmagn til að greiða þá tugi millj. kr., sem hann hefði þurft að greiða til þessara bygginga. Ég kenni hv. þm. Vestm. ekki um þetta atriði, því að ég á minn hluta af ábyrgðinni. Mér finnst hann ekki hafa notið sannmælis, þegar hann var í sæti fjmrh. á erfiðum tímum. Mér dettur í hug, að í pólitískum umr. á Íslandi í sambandi við samsteypustjórnir eiga sumir ráðh. að njóta sannmælis, en aðrir eiga að taka við álösunum. Nú átti samsteypustjórn sú, sem ég veitti forstöðu, að hafa drýgt þá höfuðsynd að stofna til nokkurra skulda. Þá var það alltaf stjórn Stefáns Jóhanns, sem bar ábyrgðina. Svo var það hæstv. núv. fjmrh., sem fékk mikið lof fyrir að kaupa varðskip til landsins, en það var stjórn Stefáns Jóhanns, sem stofnaði til þeirra framkvæmda, sem hæstv. fjmrh. fær mest lof fyrir núna. Ég held, að ég hafi séð það í málgagni Framsfl., að þessi stjórn hafi aukið mjög fjárframlög til landbúnaðarins. Ég ætla síður en svo að draga úr ágæti þessara manna, því að þeir eru duglegir. En þegar þessi framlög kosta of mikið, er það stjórn Stefáns Jóhanns, sem hefur stofnað til þeirra, en ekki ráðh. Framsfl. Sjálfstfl. hefur haft forustu utanríkismálanna á hendi nú um nokkurt skeið. Núverandi og þáverandi utanrrh. var reiknað til ágætis það, sem vel fór, en ef eitthvað var misgert, t. d. ef kostnaður við sendiráð erlendis fór í vöxt, þá var það ekki hæstv. utanrrh., sem eyddi þessum peningum, heldur var það stjórn Stefáns Jóhanns. En ég verð að segja það rétt eins og er, að þegar um samsteypustjórn er að ræða, þá standa allir, sem í stj. eru, að því, sem gert er, og bera allir jafna ábyrgð. Ég skal taka það fram, að svo getur staðið á með einstakar stjórnarframkvæmdir, að svo sé ekki, en það gildir ekki um löggjafarmálefni. Nú er svo háttað, að stjórnarflokkunum er mögulegt að koma þessum málum í gegn með lagasetningu. Það er mjög auðvelt að gera það á þann hátt að ákveða fúlgu til þessara nota á fjárlögum. Stjórn Stefáns Jóhanns hefur ekki smíðað þeirri stjórn, er nú situr, neinn fjötur um fót í þeim efnum. Maður skyldi halda, að þá yrði eitthvað gert. Bæði hv. 7. þm. Reykv. og hæstv. utanrrh. töluðu um forustu Sjálfstfl. í húsnæðismálum, — og ekki má gleyma formanni Sjálfstfl., sem lét það boð út ganga, er hann sat í Hliðskjálf sinni, Sjálfstæðishúsinu, að Sjálfstfl. hefði gert allt það, sem gert hefur verið hér á landi, og ætla mætti eftir ummælum hans, að hann hafi gert æðimikið í alheimsvandamálunum líka. Er vissulega vonandi, að honum takist að láta það af sér leiða að koma á heimsfriði ásamt þeim Eden og Truman. En þótt honum mistækist það, mundi ég fúslega fyrirgefa það, ef hann gerði eitthvað í húsnæðismálunum.