08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3095)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Örfá orð vegna þeirra orða, er fallið hafa hér í minn garð vegna till. minnar á þskj. 56.

Það var 7. þm. Reykv., hv. borgarstjórinn, sem viðhafði þau orð, að till. mín væri furðuleg, þegar vitað væri, hversu fjárhagsástæður bæjarfélaganna væru bágbornar. Ég sé ekki, að mín till. sé slíkt tilræði við bæjarfélögin sem hv. þm. vill gefa í skyn. Þar er aðeins gert ráð fyrir ákveðinni fúlgu úr ríkissjóði sem óafturkræfu tillagi og að á næsta ári auki bæði ríkissjóður og bæjarfélög við sitt fasta framlag, sem bæirnir þó ákveða sjálfir að nokkru leyti, um helming. Ég vil rökstyðja það nokkuð, að till. mín sé ekki svo fráleit sem hv. 7. þm. Reykv. vill vera láta.

Það mun að vísu rétt vera, að nokkur bæjarfélög úti á landi hafi við erfiðleika að stríða fjárhagslega. Ég er ekki svo vel að mér um fjárhagsástand bæjarfélaga yfirleitt, að ég hafi við annað að styðjast en það, sem kemur opinberlega fram um þau efni. En eftir því að dæma ætti að vera gott ástand í þessum málum í Reykjavík. Viðvíkjandi þeirri spurningu, hvort bygging hollra íbúða sé sú þörf, sem eigi að fullnægja fremur, vil ég segja það, að út frá því sjónarmiði má engu síður líta á mína till. sem tilraun til úrbóta. Og það sýna allar skýrslur og allt, sem um þessi mál er sagt, að þau þola ekki annað en að þeim sé unnið af fyllstu einlægni og að þau séu einmitt tekin fram yfir annað bæði af bæjum og ríki. Í l. nr. 44 1946, sem um þetta gilda, er gert ráð fyrir, að bæjarfélögin ákveði framlag sitt, hærra eða lægra, eftir því sem ákveðið er í lögunum, og síðan leggi ríkissjóður fram jafna upphæð auk hins fasta framlags frá ríkinu. Nú hefur Reykjavíkurbær ákveðið af myndarskap sínum að leggja fram hæsta tillag í þessu skyni. Mun þá naumast liggja til grundvallar sá skilningur á ákvæðunum, að hér sé um kvöð að ræða, enda væri þá um léttbæra kvöð að ræða þar sem hver 1 kr., sem lögð er fram, gefur 2 til baka. Út frá því sjónarmiði get ég ekki séð, að það sé neitt tilræði eða illvirki við bæjarfélögin, sem felst í minni till. Enn er það, að ef Reykjavíkurbær lítur á þetta sem kvöð, gæti bærinn lagt fram hið minna tillag. Mundi þá sú hækkun, sem ég legg til, vera að sama skapi minni. Þá er enn á það að líta, að það eru færri hús byggð nú fyrir sömu krónutölu en þegar lögin um þetta voru sett vegna hins aukna kostnaðar og þessi hækkun því einnig eðlileg af þeim sökum. Ég hygg, að ég hafi þá vísað frá mér öllum ásökunum um, að frv. mitt sé eitthvert tilræði við hin illa stöddu bæjarfélög.

Þegar þetta var til umr. hér fyrir skömmu, var talað um þetta sem sýndartillögu og minnzt á, að hér væri um yfirboð að ræða. Ég get sagt það hér í fullri hreinskilni, að þegar ég bar þessa tillögu fram, áleit ég hana ekki um neitt sérstaklega merkilega, heldur nánast sem framhald tillögu, sem ég bar fram um þetta í fyrra. Það var svo nokkru seinna, að Morgunblaðið kom með, að hér væri um einhverja furðutill. að ræða. Ég hef álitið, að gagnsemi þessarar till. fari eftir því, hvernig ríkisstj. lítur á hana, vill skilja hana, og hef aldrei talið hana neitt undur eða að hún muni gera kraftaverk.

Um till. þá, sem hér er til umr., er það að segja, að ég álít, að ekki sé rétt að fella hana, úr því að hún er fram komin, heldur tel ég rétt að samþ. slíkar till., þar sem þær eru ekki til skaða, en ættu heldur að vera til úrbóta.