24.10.1951
Sameinað þing: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. kvaddi sér hljóðs til þess að leiðrétta gífurlegar missagnir í framsöguræðu minni varðandi Varðarslysið. Hv. þm. sagði, að ég hefði skýrt rangt frá Varðarslysinu, og síðar orðaði hann það á þá leið, að ummæli mín hefðu ekki haft við neitt að styðjast, heldur hefði ég farið með rakalausar fullyrðingar. Ég gat þó ekki heyrt, að hann hrekti eitt atriði af því, sem ég sagði í framsöguræðu minni um þetta slys. Það eina, sem hann leitaðist við að hrekja, voru þau ummæli mín, að eftir að Bjarni Ólafsson kom að Verði, hefði björgun ekki hafizt, og hann sagði, að ég hefði sagt, að skipstjórinn hefði þrjózkazt við að bjarga mönnunum. Ég viðhafði ekki þessi orð. Ég sagði, að þó að Bjarni Ólafsson hefði komið á vettvang kl. 2.30, þá hefðu engar tilraunir verið gerðar til þess að bjarga skipshöfninni á Verði fyrr en kl. 6.30. Um þetta getur hv. þm. Barð. lesið í Morgunblaðinu frá 1. febr. 1950. Skipstjórinn á Verði bíður þannig með menn sína um borð eftir náttmyrkri og versnandi veðri, og þá fyrst eru tilraunir gerðar til þess að bjarga mönnunum. Þetta er samkv. viðtali, er birtist í Morgunblaðinu, við skipstjórann á Bjarna Ólafssyni. Ég held því, að það sé ekki rétt hjá hv. þm. Barð. að reyna að mótmæla þessu, enda þótt hann hafi tilhneigingu til þess að réttlæta skipstjórann á Verði. Ég held, að málstaður skipstjórans batni ekki við það.

Þá sagði hv. þm., að ástæðulaust væri að krefjast réttarrannsóknar í málinu, því að henni væri þegar lokið. Ég tók það fram, að réttarrannsókn hefði átt sér stað, en ég átaldi, hve langan tíma hún hefði tekið og að enn væri ekki fallinn dómur í málinu.

Þá sagði hv. þm., að till. væri áþörf, því að rannsókn hefði farið fram á öllum þessum slysum. Hvaðan hefur hv. þm. þetta? Mér er ekki kunnugt um það, og þangað til hv. þm. færir heimildir fyrir þessu, vil ég halda því fram, að slík réttarrannsókn hafi ekki átt sér stað. Áður, er ég flutti þessa till., hélt a. m. k. hæstv. dómsmrh. því fram, að málið væri svo umfangsmikið, að það væri ekki í það leggjandi. Honum virðist því ekki hafa verið kunnugt um þetta. Ég held því, að hv. þm. Barð. fari hér með staðlausa stafi, en ekki ég, enda er hv. alþm. kunnugt, að þessi hv. þm. viðhefur stundum stærri orð og fullyrðir meira en efni standa til, ef hann þarf á því að halda.

Varðandi það, að til séu í lögum ákvæði, sem eiga að tryggja öryggi sjómanna, þá er það rétt, að þau eru til á víð og dreif, en eins og hv. þm. kannaðist við, koma þessi ákvæði að litlu haldi og hafa ekki verið notuð. Eigi það ekki að vera átölulaust, að lífi og limum sjómanna sé stefnt í hættu, verður því að setja ákvæði um þetta í sjómannalögin, sem eiga að veita sjómönnunum vernd í hinu hættusama starfi þeirra. Ég tel heppilegast, að slík ákvæði séu þar, og þau verða að vera nákvæmari en ákvæði siglingalaganna og skipaskoðunarlaganna, sem eru óákveðin og koma engum að notum.

Ég tel því, að till. mín eigi fyllsta rétt á sér og að setja beri á grundvelli þeirrar rannsóknar, sem hún mælir fyrir um, ákvæði í sjómannalögin, til þess að koma fram ábyrgð á hendur þeim aðilum, sem ógætilega fara og þátt hafa átt í hinum tíðu slysum á togurum. Vona ég, að Alþ. fáist nú loks til að veita till. afgreiðslu.