24.10.1951
Sameinað þing: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Gísli Jónsson:

Hv. flm. las hér upp úr blaði, til stuðnings þeim ummælum sínum, að engin björgun hefði verið reynd fyrr en eftir fjórar klukkustundir. Þetta er rangt hjá hv. flm., og hann blandar hér saman tveimur hlutum. Allan þennan tíma var reynt að bjarga sameiginlega bæði skipshöfn og skip.i, og engin ósk kom fram frá skipverjum um það, að þeir væru fluttir yfir í annað skip. Ásakanir hv. flm. á hendur skipstjóranum eru því rangar, og það er einnig rangt, að ég hafi tilhneigingu til að afsaka skipstjórann.

Hv. flm. viðurkennir nú, að ekki þurfi réttarrannsókn út af Varðarslysinu, en spyr, hvaðan ég hafi þær heimildir, að rannsókn hafi farið fram á öllum þessum slysum. Ég vil benda hv. flm. á farmannalögin, nr. 56 frá 1914, en þar stendur í 45. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Nú verður slysið hér í ríkinu, og skal þá skipstjóri segja til þess yfirvaldi á þeim stað svo fljótt sem unnt er, eftir það er slysið bar að eða varð kunnugt.“ Síðan koma fyrirmæli um, að réttarrannsókn skuli fara fram. Hér eru því bein fyrirmæli um, að réttarrannsókn skuli fara fram, ekki aðeins ef manntjón verður, heldur líka vegna slysa. Mér dettur ekki heldur í hug, að Tryggingastofnun ríkisins t. d. greiði dánarbætur án þess að hafa áður fullvissað sig um, að réttarrannsókn hafi farið fram. Það hlýtur að vera skilyrði fyrir bótum, að slík rannsókn hafi farið fram. Hitt er svo annað mál, að dómur hefur ekki gengið um öll slys. Það er annars eðlis.

Ég hef bent á ástæðurnar fyrir þeim töfum, sem eru í sambandi við þessi mál, og taldi, að ráða þyrfti þar bót á. Hv. flm. sagði hins vegar, að núgildandi ákvæði kæmu ekki að neinu gagni, en ef svo er, þá er framkvæmdavaldið um að saka og þá, sem með þessi mál eiga að fara. Ég vil því vona, að hv. flm. geti fallizt á, að hann hafi haft rangt fyrir sér og að ekki hafi verið rétt að nota málið til þess að bera sakir á vissa aðila.