24.10.1951
Sameinað þing: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér finnst þessi þáltill. vera fyllilega tímabær og skal taka fram, að mér finnst flm. hennar flytja mál sitt af fullkomlega viðeigandi alvöru, því að hér er um alvörumál að ræða. Ég fæ ekki skilið, hver getur yfirleitt verið á móti því, að fram fari réttarrannsókn til þess að fá gott yfirlit yfir það, hvaða slys hafa orðið á íslenzka togaraflotanum á því tímabili, sem til er tekið í þáltill., og er mikils virði að hafa vel undirbyggðar skýrslur um það, hvaða slys hafa þarna átt sér stað. Í till. segir berum orðum, að þessi rannsókn eigi að fara fram með það fyrir augum að grafast fyrir orsakir þessara slysfara. Það væri líka sannarlega þess vert, að við kæmumst að niðurstöðu um það, hvað valdið hefur þessum tíðu slysförum á togaraflotanum. Og til hvers á að fá þetta yfirlit og grafast fyrir orsakir slysanna? Til þess að undirbyggja breyt. á sjómannalöggjöfinni með það fyrir augum að fyrirbyggja slíkar slysfarir í framtíðinni. Ég undrast, ef nokkur óttast, að afleiðingar slíkrar rannsóknar mundu höggva nærri einum eða neinum sérstökum, eða ef einhver vildi ekki samþ. slíka till. af ótta við, að henni væri beint gegn einhverjum, sem við slys hafa verið riðnir. Ég efast einnig um, að slíkt mundi leiða sannleikann í ljós, en hér er ekki heldur um það að ræða, hvort þessi eða hinn sé sekur í sambandi víð slys, sem hafa átt sér stað, heldur er hér um að ræða þörfina á varúðarráðstöfunum, t. d. í sambandi við útbúnað skipanna, og að leggja þyngri ábyrgð á hendur skipstjóra til þess að fyrirbyggja slys. — Ég álít þetta því sjálfsagt mál og vil þakka hv. flm. fyrir það, hve þrautseigur hann hefur verið að hamra á þessari till., og álít ósæmandi hverjum þm. að beita sér gegn henni.