28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni yfir því, að samkomulag skyldi nást í nefndinni um þetta mál, og ég tel það vera mikils virði að till. kemur frá n. með samþykki allra nefndarmanna.

Ég benti á það við 1. umr. málsins, hve óheppilegt það væri að hafa réttarrannsóknarákvæðið, og nú sé ég, að hv. n. hefur tekið það til greina, og er nú um að ræða rannsókn á slysum. En ég vil jafnframt taka það fram, að ég tel, að það orðalag hindri á engan hátt, að hægt sé að krefjast réttarrannsóknar á þeim slysum, sem orðið hafa og kunna að verða. Ég sé ekki annað en sú réttarrannsókn geti farið fram eftir sem áður, og vildi ég gjarnan heyra álit frsm. um það atriði. Það verður þá að velja þá menn, sem um þau mál eiga að dæma, úr hópi þeirra manna, sem þar hafa vel vit á, og tel ég einsætt, að þeir verði valdir úr hópi sjómanna sjálfra og þá ef til vill í samráði við Slysavarnafélagið.

Þá vildi ég leyfa mér að bera fram brtt. við brtt. nefndarinnar, þ. e. við 1. málsgr. tillgr., að í staðinn fyrir þar sem stendur: „á íslenzkum togurum og öðrum veiðiskipum“ komi: á íslenzkum skipum. — Ég tel ekki rétt að binda þessa rannsókn við togarana og tel rétt, að hún verði framkvæmd á öllum íslenzkum skipum, enda er það líka í samræmi við óskir sjómannanna sjálfra, enda líka samþykkt á farmanna- og fiskimannaþinginu. Ég tel rétt, að slík rannsókn verði látin fara fram á öllum slysum, sem orðið hafa á íslenzkum skipum, hvort sem það eru togarar eða önnur skip. Afleiðing þessa yrði svo auðvitað sú, að fyrirsögn till. breyttist til samræmingar, þannig að í stað orðanna „á íslenzkum togurum og öðrum veiðiskipum“ kæmi: á íslenzkum skipum. — Ég vona, að hv. þm. geti fallizt á þessa brtt., og leyfi mér að leggja hana til hæstv. forseta.