28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af þessari brtt. hv. þm. Barð. — Það var mikið um það rætt í n., hve langt ætti að ganga, þegar það kom til orða að ganga út fyrir orðalag upphaflegu till., og það varð úr, að þetta orðalag var valið, þar sem sérstök ástæða þótti til að taka bátana þar með, ekki sízt hina stærri.

Ég varð var víð það, að ef horfið hefði verið að því ráði að hafa rannsóknina mjög víðtæka, þá voru menn hræddir um það, að till. kynni að útþynnast, svo að hún kæmi ekki að eins miklu gagni. Nú vil ég ekki með því segja, að slík rannsókn ætti ekki við rök að styðjast, og vil ekki segja, að hún ætti ekki að fara fram á öllum íslenzkum skipum.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, hvort það að láta fara þannig fram rannsókn sérfróðra manna á slysum útiloki nokkurn frá því að láta fara fram réttarrannsókn, þá get ég ekki séð, að það hindri á nokkurn hátt. Ég bar það undir lögfræðinga, hvort það væri ekki auðsætt, að ef sjópróf leiddu það í ljós, að um vítavert hirðuleysi hefði verið að ræða, þá gæti hver og einn krafizt þar á rannsóknar. Og ég fékk játandi svar, og auk þess ef alvara væri þar á ferð, ætti hið opinbera að skerast í málið. En þessi till. fer ekki inn á það svið, heldur felur hún bara það í sér, að fram verði látin fara róleg athugun á því, hvernig bæta megi þessi slys og koma í veg fyrir, að þau endurtaki sig af sömu sökum.

Um þessa brtt. hv. þm. Barð. treysti ég mér ekki á þessu stigi málsins að taka afstöðu og vil hvorki mæla með henni né móti, heldur teldi ég, að þessari umr. ætti að fresta og lofa allshn. að athuga hana. Ég legg því til, að þessari umr. verði frestað, svo að allshn. geti tekið afstöðu til þessarar brtt.