28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni yfir því, að allshn. skuli hafa afgr. þessa till. svo einhuga, og mér finnst engu höfuðmáli skipta sú breyting, sem þar hefur farið fram. Höfuðtilgangurinn er ekki að elta uppi menn og sækja þá til sakar, heldur er aðaltilgangurinn að fyrirbyggja þessi slys framvegis.

Það liggja fyrir svo skýlaus ákvæði um það í íslenzkum lögum, að ef skipstjóri gerir sig sekan um óaðgæzlu, þá má sækja hann til saka, og hann er ábyrgur fyrir slysinu, að það þarf ekki nánari ákvæði um það að setja. En það er ekki nóg, heldur þarf að ganga hart eftir því, að þessum ákvæðum sé framfylgt, og fyrirbyggja, að þessi slys geti endurtekið sig.

Það er nú orðið svo, að síðan nýsköpunartogararnir komu til sögunnar hafa slysin ekki minnkað, eins og menn skyldu þó ætla að þeir hefðu getað stuðlað að, svo miklu stærri og öruggari skip sem þeir eru, heldur hafa þau þvert á móti aukizt. Ég held, að þetta stafi einkum af því, að það eru sótt mið á þeim í miklu verri veðrum en gert var á gömlu togurunum. Það er sótt nú í veðrum, sem engum datt í hug að gera á gömlu togurunum, og það segir sig sjálft, að þegar brotsjóir skella á þessum skipum við veiðar, þá geta orðið mikil slys. Ég held, að þetta stafi mest af því, að það er gengið of hart fram í því að veiða í hörðum veðrum. Þetta er að sumu leyti eins og var fyrst eftir að togararnir komu og menn hættu við skúturnar, því að þá fannst mönnum þeir hafa fengið svo stór og góð skip, að þeir væru öruggir, hvernig sem viðraði, en það verða aldrei smíðuð svo stór eða sterk skip, að þeir séu öruggir í hvaða veðri sem er. Og samþykkt þessarar till. gæti orðið stórt spor í þá átt, að yfirvöldin gengju ríkar eftir því, að allrar varúðar sé gætt. Það er ekki lítill ábyrgðarhluti, sem skipstjóri, sem ræður yfir 30 manns, ber, og það er full ástæða til að krefjast þess, að hann fari að öllu með gát og skipi þeim ekki til vinnu í vondum veðrum, og það er enn fremur sérstök ástæða til, að eigendur skipanna leggi ekki hart að skipstjórnarmönnunum, að þeir haldi skipunum til veiða í hvaða veðri sem er, ef svo má segja. En samkvæmt almennum reglum eru eigendur skipanna ábyrgir gagnvart þriðja aðila.

Það er eitt atriði, sem mér finnst vanta, en sé þó ekki ástæðu til að flytja um það brtt. Það er það, hvort ekki er rétt að gefa út þá dóma, sem varða slys, er verða á sjó, — að þeir verði gefnir þannig út, að þeir komist í hendur skipstjóra og eigenda skipanna, þannig, að þeir geti af þeim lært og reynt að koma í veg fyrir, að það sama endurtaki sig. Það er ekki vafi, að ef vitað er, hvað valdið hefur hverju slysi á hinum ýmsu stöðum, og allir geta kynnt sér það, þá er miklu hægara að forðast þau hin sömu slys seinna eða gera að minnsta kosti ráðstafanir til að fyrirbyggja þau. Ég beini þessu til hv. frsm. n., ef hún vildi taka það til athugunar á fundi sínum.

Hv. þm. Barð. lagði til í sinni brtt., að ákvæði þessarar þáltill. yrðu látin ná til allra íslenzkra skipa. Ég tel, að sérstaklega þurfi að láta rannsaka slys þau, sem orðið hafa á togurunum, því að þau eru óeðlilega mikil, og það er nauðsynlegt, að þegar verði gert eitthvað til að stöðva þau. Hitt er svo sjálfsagt, að láta þau ná einnig til annarra veiðiskipa, því þó að slysahættan sé þar minni, er hún mikil og vitanlega alls staðar til staðar.

Það eru nú til ýtarleg lög um öryggi á sjó, en ég teldi heppilegt að setja sérstök lög um það, hvernig rannsókn þeirra slysa, sem að höndum ber, skuli hagað, og að allt verði gert, sem hægt er, til að stöðva þau slys, sem verða á togurum.