12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég gat af sérstökum ástæðum ekki verið viðstaddur, þegar málið kom hér fyrst fyrir og framsaga þess átti að vera. En ég vil þakka hv. allshn. fyrir þá afgreiðslu, sem hún leggur til að höfð verði á þessu máli. Ég get vel fallizt á till. n. Ég fæ ekki séð, að efnisbreyting till. sé önnur en sú, að í stað þess, að í upphaflegu till. er gert ráð fyrir réttarrannsókn, þá er í brtt. n. gert ráð fyrir ýtarlegri rannsókn á þessum sömu slysum, og það, sem fyrir mér vakti, var ekki annað en að fá ýtarlega rannsókn á þessum slysum, til þess að sú rannsókn gæti orðið til þess að koma í veg fyrir, að svipuð slys endurtaki sig. Og þar sem n. hefur tekið till. í þetta sinn eins vel og raun er á, þá vænti ég einnig, að Alþingi muni fallast á hana með þessu breytta orðalagi, og vænti þess einnig, að það sjái um, að framkvæmdir verði í samræmi við þessa samþykkt, og þá yrði tilgangi mínum náð með flutningi þessarar þáltill. Hins vegar vil ég undirstrika, að þótt nú sé svo komið, að hv. Alþ. ætli að bregðast vel við þessu máli og taka það alvarlega, eins og vera ber, þá er það ekki þar með leyst, heldur veltur allt á því, að framkvæmdir verði í samræmi við samþykkt Alþingis og að upplýstar verði ástæðurnar fyrir þessum tíðu slysum og síðan geri ríkisstj. ráðstafanir til þess, að sett verði í lög nauðsynleg ákvæði til þess, að allrar varúðar sé gætt, og til þess að hindra endurtekningu þessara nú tíðu slysa á togurum og reyndar öllum veiðiskipum, því þótt ég upphaflega bindi till. mína við togarana, þá var það svo, að ég gerði ráð fyrir því, að þetta kæmi að gagni fyrir öll veiðiskip, þar sem gera má ráð fyrir, að sömu ástæðurnar liggi yfirleitt til slysa á vélbátaflotanum og togaraflotanum.

Ég vil benda á það, sem gæti verið til eftirbreytni fyrir okkur og ráðuneytið ætti að taka til athugunar, að mér er tjáð, að í Englandi t. d. gildi sú regla, að skipstjórum séu send afrit af rannsóknum, sem fram hafa farið á sjóslysum, og einnig afrit af dómum í sjóslysum. Ég held, að þetta gæti verið góð regla til þess að vekja athygli skipstjóra á þessum slysum og þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir, að senda þeim afrit af þessum rannsóknum og þeim dómum, sem kveðnir eru upp í þessum málum, til þess að þeir geti varazt þau víti, sem þar koma fram. Ég vildi óska þess hér, að hæstv. ríkisstj. taki þetta til athugunar með öðrum atriðum, sem fram kunna að koma í sambandi við þessa þáltill. og við þær ráðstafanir, sem gerðar verða til þess að reyna að koma í veg fyrir þessi tíðu slys.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt til allshn. fyrir afgreiðslu hennar á till. og vona, að sá skriður komi á málið, sem verður til þess, að verulega verði bætt úr í þessum efnum.