26.10.1951
Sameinað þing: 8. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram viðaukatill. við till. þessa á þskj. 81 um, að hér verði bætt við prjónavélum. Vegna aðildar þeirrar, sem ég hef að Kvenfélagasambandi Íslands, veit ég, að það mun ekki vera meiri þörf á öðru en einmitt prjónavélum. Okkur berast beiðnir, svo að tugum skiptir, um útvegun á þessum vélum, en við höfum engin ráð í þeim efnum. Vegna þess að innflutningur á þessum vélum hefur ekki verið frjáls, hefur mjög lítið verið flutt inn af þeim undanfarið. Nú eru þessi tæki orðin svo dýr, að ógerningur er fyrir einstaklinga að kaupa þau, heldur verða nú kvenfélögin að standa saman um kaup þeirra. Það þarf því ekki að óttast, að þetta verði þungur gjaldeyrisbaggi. Ég vona, að nefndin, sem fær þetta mál til athugunar, sjái sér fært að taka þessari viðaukatill. minni.