12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3129)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst þessi þáltill. stefna í rétta átt. Því hefur verið haldið fram undanfarið, að ákaflega mikil eftirspurn hafi verið eftir dráttarvélum, en sú var ástæðan, að fyrir gengisbreytinguna voru dráttarvélar í tiltölulega lágu verði. Nú hefur viðhorfið breytzt. Dráttarvélarnar eru orðnar dýrar, og þeim bændum fer fækkandi, sem geta látið það eftir sér að kaupa dráttarvél. Það er því, eins og nú standa sakir, áhættulaust að gefa innflutning dráttarvéla frjálsan, og það væri æskilegt að reyna það nú, hvaða verkanir það hefur, hvort innflutningur dráttarvéla eykst frá því, sem hann var meðan skömmtunarákvæðin voru í gildi, því að ég geri ekki ráð fyrir, að það vaki fyrir mönnum að stöðva innflutning dráttarvéla, heldur að úthluta þeim eins og verið hefur undanfarið. Það virðist mega treysta því, að þótt innflutningur þeirra yrði gefinn frjáls, þá yrði eftirspurnin ekki meiri en hún var meðan skömmtunin var á og innflutningur dráttarvéla bannaður, eða svipaður og á árinu, sem er að líða, en þá voru fluttar inn 150 dráttarvélar. Þegar verð einnar dráttarvélar er komið upp í 30 þús. kr., þá verður margur að neita sér um þær, þótt hann langi til þess að eignast þær og hafi þörf fyrir þær. Eins og till. er nú orðuð í sambandi við jeppana og landrover-bílana, þá er sá fyrirvari hafður, að ef nægur gjaldeyrir verði fyrir hendi, þá skuli leyfa frjálsan innflutning á þeim. — Í b-lið þáltill. er þessi fyrirvari hafður, og það dettur víst fáum í hug, að gjaldeyrisástæður verði þannig, að gjaldeyrir verði nægilegur til þeirra hluta. Þó að mikil þörf sé á að fá jeppana og landrover-bílana, þá tel ég sjálfsagt að hafa þennan fyrirvara í sambandi við þá. Hér hefur svo verið bætt við prjónavélum, og gegnir sama máli um þær. Þær eru vitanlega nauðsynlegir hlutir, sem konur vilja eignast, en þær eru orðnar svo dýrar, að margar konur verða að neita sér um þær. Góðar prjónavélar kosta núna 3–5 þús. kr., og ef vélunum fylgja öll fylgitæki, er verð þeirra 5–6 þús. kr. Það má því geta nærri, að eftirspurnin minnkar, þegar svona er komið. Það er því áhættulaust að leyfa frjálsan innflutning á prjónavélum.

Ég held, að það væri gott í sambandi við dráttarvélarnar, að lokið verði þeirri úthlutun og skömmtun, sem þar hefur verið undanfarið, og hin frjálsa eftirspurn látin njóta sín einu sinni á næsta ári og sjá, hvaða verkanir það hefði. En ótti hæstv. viðskmrh. er ástæðulaus, að þetta reyni um of á gjaldeyri þjóðarinnar, þegar hver dráttarvél kostar nú um 30 þús. kr.