12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég gat þess fyrr í vetur í sambandi við þetta mál, að ástæðan fyrir því, að ég hefði borið fram þáltill. um innflutning jeppabifreiða o. fl., hefði verið sú, að verzlunin hefði nú að miklu leyti verið gefin frjáls. Nú, þegar allar verzlanir eru orðnar fullar af vörum, sem bíða í búðunum, er full ástæða fyrir bændur að hugsa sem svo, að ekki þurfi bið þeirra nú eftir þeim nauðsynlegu framleiðslutækjum, sem hér um ræðir, að verða eins löng, þar sem miklar vörubirgðir hafa safnazt í landinu á undanförnum mánuðum. Ég sá fyrir ekki alllöngu þess getið í einu dagblaðanna, að um 450 dráttarvélaumsóknir hefðu borizt til nefndar þeirrar, sem fjallað hefur um þau mál. Ef gera má ráð fyrir, að hvert þessara framleiðslutækja kosti um 30 þús. kr., gerir þetta um 15 millj. kr. Ég skal ekkert fullyrða, hversu upphæðin er há í gjaldeyri, en þessar vinnuvélar munu ekki kosta meir en sem nemur verðmæti þeirra véla, sem inn hafa verið fluttar á undanförnum 2–3 árum. Þótt till. allshn. beri það með sér, að með þeim sé lögð meiri áherzla á heimilisdráttarvélarnar en jeppana, þá er jeppanna mikil þörf. Er þess að vænta, að úr þessu verði bætt hið bráðasta, og leyfi ég mér að vænta þess, að hv. þd. og hæstv. viðskmrh. beiti sér fyrir framgangi þessa máls.